Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Já, húrra!

Vanhæf ríkisstjórn hefur farið frá! Nú þarf að fara fram gagnger skoðun á störfum ráðherra og ábyrgð þeirra á hruninu. Það er mjög mikilvægt að spillingaröflum Sjálfstæðisflokksins verði haldið frá valdastólunum. Flokkurinn hefur verið við völd í hartær 18 ár, og stjórnað efnahagsmálum allan þann tíma. Ábyrgð Sjálfstæðismanna á hruninu er gríðarleg. Forsenda þess að hægt sé að komast til botns í því er að koma flokknum frá völdum.


Geir greiddi götu ræningjanna

Geir Haarde hefur verið í fylkingarbrjósti nýfrjálshyggjumanna á Íslandi allt frá því hann var í stúdentapólitíkinni í gamla daga. Sem fjármálaráðherra um árabil stóð hann fyrir því að nánast allar kröfur viðskiptaráðs og annarra þrýstihópa græðgisaflanna voru uppfylltar, og greiddi götu braskaranna eftir bestu getu. Nú fellur spilaborgin, eftir stendur að útrásarvíkingarnir voru ræningjabarónar og á stundum ótíndir þjófar. Eftirmæli Geirs þegar hann nú hverfur af sviði stórnmálanna verða nöturleg: hann var einn þeirra sem gerði græðgisöflunum kleyft að fara ránshendi um eigur þjóðarinnar og steypa okkur í skuldaánauð. Þegar öll kurl koma til grafar á kanski eftir að koma í ljós að ástæða þess að bretar beittu okkur hryðjuverkalögum var sú að þeir treystu ekki þeim kumpánum Geir og Davíð.


mbl.is Geir Haarde sagður ábyrgur fyrir hruninu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Landráðamenn?

Hvað þarf að gera til að athafnir manna teljist landráð? Vilhjálmur Bjarnason velti upp þessari spurningu í Silfri Egils fyrr í dag. Eigendur Kaupþings færa milljarða króna úr landi dagana fyrir hrun bankanna, því það lá svo á að lána einhverjum bröskurum útí heimi hundruði milljarða. Afleiðingin var gengishrun og bankahrun. Í símtölum frá London segja íslensku fjárglæframennirnir að þetta hafi verið eðlileg bankaviðskipti. Væri ekki ráð að láta á það reyna fyrir dómstólum? Ef menn knésetja heila þjóð, eru það ekki landráð? Hvað þarf að gera til að teljast landráðamaðir?
mbl.is Lánin mögulega lögbrot
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afsögn og flokksræði

Það er gott að Bjögvin skuli segja af sér. Fjárlmálakerfið hrundi á hans vakt sem bankamálaráðherra. En það þarf að ganga mikið lengra. Forsætisráðherra og utanríkisráðherra þurfa að segja af sér. Forsætisráðherra hefur verið í þungamiðju nýfrjálhyggjunnar, og greitt götuna fyrir einkavinavæðingu og græðgisspillingu. Utanríkisráðherra skildi ekki sinn vitjunartíma þegar hún lýsti því yfir sl sumar að á Islandi væri engin kreppa og síðan á borgarafundi í Háskólabíó að mótmælendur væru ekki þjóðin. Þar sýndi hún að hún skilur ekki hvað er í gangi. Nátttröllið í Seðlabankanum þarf að fara frá - og halda sig frá stjórnmálum. Þessir einstaklingar eru allir fulltrúar stjórnmálaflokka sem eru orðnir tímaskékkja. Við þurfum afnám flokksræðisins. Flokksræðið er orðið krabbamein í þjóðarlíkamanum. Í flokksræði varðar menn ekkert um þjóðarhag, þar skiftir mestu máli að slegið sé varðborg um hagsmuni valdaklíkanna í flokkunum. Þetta eru mafíur. Við þurfum stjórnlagaþing og nýtt lýðveldi á Íslandi. Aðskilnað löggjafarvalds, framkvæmdavalds og dómsvalds. Það þarf að uppræta klíkuspillingu flokksræðisins.
mbl.is Björgvin segir af sér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óánægjufylgi

Það er athyglisvert hversu mikið fylgi mælist við VG. Steingrímur og félagar eru auðvitað óflekaðir af spillingu, vinavæðingu og mistökum við hagstjórn síðustu ára, og það verður að segja þeim til sannmælis að VG hefur um árabil varað við því hvert stefndi. En stjórnmál snúast ekki um fortíð heldur nútíð og framtíð. Ég hef efasemdir um að VG séu þess umbúin að leiða þjóðina út úr ógöngunum. Ég hef ekki séð neinar lausnir í málflutningi þeirra. VG hefur haft 100 daga til að koma með aðgerðaáætlun um það hvernig bregðast ætti við kreppunni. Það hefur ekki komið fram nein slík áætlun. Það er bara tvennt til ráða til að bregðast við vandanum sem að steðjar: að auka tekjur þjóðarbúsins og að minnka útgjöldin. Það er mjög erfitt að auka tekjur ríkisins, þó hærri skattar væru vissulega skref í rétta átt. Við munum neyðast til að skéra niður í útgjöldum ríkisins, það er óhjákvæmilegt. VG hafa ekki sett fram neina áætlun um það hvernig og hvar eigi að skéra. Þá eru VG algerlega andsnúin Evrópusambandsaðild og líta ekki á aðildarviðræður sem skref i átt til lausnar kreppunni. Framtíðarsýn VG virðist frekar vera einhvers konar bændarómantískt haftaþjóðfélag, þar sem við unum glöð við okkar, ræktum landið, höldum glöð útá fiskimiðin, borðum þverhöggna ýsu og rollukjöt, og prjónum fyrir framan góðar fréttir í ríkissjónvarpinu (fullu af auglýsingum, vel að merkja).

Mig grunar að þegar kosningabaráttan fer í gang og stjórnmálamenn verða krafðir svara um hvað þeir ætla að gera til að mæta kreppunni muni fylgi við VG dala. Óánægjufylgi er mjög flóttagjarnt, og ef VG lofar ekki öllum óánægðum gulli og grænum skógum yfirgefur fylgið flokkinn.


mbl.is Fylgi VG mælist rúmlega 32%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mótmælin beinast ekki gegn lögreglunni

Það er leiðinlegt að heyra að kastað hafi verið grjóti að lögreglumönnum. Við erum ekki að krefjast afsagnar lögreglunnar eða að hún fari úr miðbænum. Mótmælin eru pólitísk, og við krefjum ráðamenn ábyrgðar, að vanhæf stjórn fari frá og boðað verði til kosninga. Það vinnst ekkert með því að ögra lögreglumönnum eða slasa þá. Það eru skrílslæti sem vinna gegn mótmælendum. Við viljum ekki stjórnleysi og uppþot. Það á ekkert skylt við mótmæli.
mbl.is Lögreglumaður enn á sjúkrahúsi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ábyrgðarleysi að halda stjórnarsamstarfi áfram!

Stjórnin nýtur ekki stuðnings eða trausts lengur. Ráðamenn hafa ekki axlað ábyrgð. Það er mikilvægt að forsætisráðherra segi af sér. Hann er einn arkitekta þess valdaráns nýfrjálshyggjumanna sem átti sér stað á Íslandi á valdatíma Davíðs Oddssonar. Hann bjó til ramma fyrir einkavinavæðingu bankanna, og horfði með velþókknun á fjárglæframanna fara ránshendi um eigur landsmanna. Davíð Oddsson situr enn í dimmuborgum Seðlabankans og ráðskast með ríkisfjármálin. Árni fjármálaráðherra hefur sýnt að hann er vanhæfur um að gegna embætti sínu, og Björgvin viðskiptaráðherra hafði ekki hugmynd um hvert stefndi þegar allt fór í klessu. Mesta ábyrgð á hruninu bera auðvitað fjárglæframennirnir sem stýrðu bönkunum. Þeir tóku áhættu með efnahag Íslands að veði. En þeir störfuðu í skjóli stjórnvalda, vanhæfs fjármálaeftirlits og Seðlabanka sem var ekki þeim vanda vaxinn að hafa eftirlit með því sem var að gerast. Hér verður engin endurreisn eða uppbygging án þess að þessir stjórnmálamenn og embættismenn viðurkenni ábyrgð og segi af sér!


mbl.is Ábyrgðarleysi að leysa upp stjórnina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mótmælendur skiptu þúsundum

Af fréttum fjölmiðla má skilja að það hafi verið nokkur hundruð manns sem mótmæltu við Alþingishúsið, og þannig vilja ráðamenn sjálfsagt skilja mótmælin. Þá hafa fjölmiðlar beint athyglinni að átökum milli lögreglu og mótmælenda, og ásökunum sem ganga á víxl um ólæti og ofbeldi. Sannleikurinn er sá að mótmælendur skiptu þúsundum, og mótmælin fóru að lang mestu leiti friðsamlega fram. Margir gerðu eins og ég, komu við og stoppuðu í dálítinn tíma, sýndu samstöðu og að þeir vilja að ráðamenn axli ábyrgð og segi af sér. Fæstir urðu varir við átök eða piparúða. Lögreglan er ekki í öfundsverðri stöðu, að standa á milli fólksins í landinu og valdhafanna, en mótmælin beinast ekki gegn henni. Mótmælin sýna að það er fjöldahreyfing sem krefst afsagnar ráðherra, bankastjórnar Seðlabankans og forstjóra Fjármálaeftirlitsins. Mótmælendur skiptu þúsundum, og þeim mun fjölga. 
mbl.is Mótmæli halda áfram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ísland og Simbabve

Í Simbabve situr Róbert nokkur Mugabe og þverskallast við kröfum um að hann fari frá völdum. Áratuga óstjórn og spilling undir hans forystu hefur siglt landið í kaf. Efnahagur landsins er í rústum, óðaverðbólga og gríðarlegt atvinnuleysi. Á Íslandi sitja Geir og Davíð, og hafa stjórnað efnahagsmálum landsins síðustu 18 ár. Í skjóli þeirra hefur kunningjaspilling og fjárglæfrafrastarfsemi blómstrað. Afleiðing einkavinavæðingar bankanna fyrir 6 árum er að koma í ljós. Efnahagur Íslands er að fara í rúst með gríðarlegum skuldum, gjaldþrotum heimila og fyrirtækja. Hér ríkir óðaverðbólga og atvinnuleysi vex hratt. Geir og Davíð þverskallast við kröfum um að fara frá. Það er ekki eðlismunur á Mugabe og Oddssyni, bara stigsmunur. Velkominn til Íslands. Má ekki bjóða þér banana?

Þetta er bara byrjunin!

Það fjarar undan klíkunum sem stjórnað hafa Íslandi að egin geðþótta undanfarin ár. Spillingarbandalag Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks sem sló eign sinni á bankana eftir helmingaskiptareglu sem verið hefur við lýði i áratugi, og fór síðan ránshendi um eigur þjóðarinnar. Þegar öllu hafði verið siglt í strand þóttist enginn vita neitt eða bera neina ábyrgð. Menn neita ábyrgð í símtölum frá London, þegja í skjóli þykkra veggja Seðlabankans, eða spila fórnarlömb sem ekki gátu vitað að svona færi ("ef ég hef gert eitthvað rangt þykir mér það miður").  Almenningi er nóg boðið. Mótmælin í dag sýna að fólk vill spillingaröflin burt, og að þeir sem bera ábyrgð á hruninu segi af sér. Geir, Árni, Davíð, og Björgvin, burt með ykkur. Þið eruð óhæfir og við viljum ekki að þið fáið að stunda hagsmunagæslu ykkar í friði. Þið rufuð sátt við þjóðina, og þjóðin er ekki sátt við ykkur! Mótmælin í dag eru bara byrjunin! 
mbl.is Fjölmenni á Austurvelli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband