Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
19.1.2009 | 21:20
Just another pretty face
Þekktasta slagorð bandarískra stjórnmála er "Time for a change", en yfirleitt verða litlar breytingar með nýjum mönnum. Það eru bara ný andlit sem halda áfram í sama farinu. Sennilega verða þetta örlög nýs formanns Framsóknarflokksins. Það gafst flokknum vel á meðan hann kinkaði kolli í ríkisstjórn Davíðs Odssonar að fótoshoppa Halldór Ásgrímsson, láta hann brosa og setja æskuroða í kinnar hans. Guðni var líka sjænaður til fyrir síðustu kosningar, og flokkurinn keypti dýr og flott jakkaföt á Björn Inga. Fylgi flokksins hefur dalað í takt við það að frambjóðendurnir hafa verið fínpússaðir. Kjósendur eru nefnilega ekki svo vitlausir að hægt sé að blekkja þá endalaust. Þeir hafna sérhagsmunagæslu Framsóknarflokksins og atkvæðakaupum hans í fámennum kjördæmum. Flokkurinn hefur tapað tiltrú kjósenda vegna þess að þeir hafa fengið sig fullsadda á verkum hans. Kvótakerfið, einkavinavæðing bankanna, stóriðjudaðrið, náttúruspjöllin, spillingin og bitlingapotið. Nýi formaðurinn gat ekki gefið nein svör sem bentu til stefnubreytingar í mikilvægum málum í viðtölum við fjölmiðla eftir kjörið. Njá við aðildarviðræðum við Evrópusambandið, Njá við frekari stóriðjuframkvæmdum (með skírskotun til erfiðleika í efnahagsmálum) og svo framvegis. Just another pretty face, engin stefnubreyting, ekkert uppgjör, engin endurskoðun stefnu eða lærdómur af hörmulegum afleiðingum ákvarðanna sem teknar voru í ríkisstjórnartíð Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar. Just another pretty face, verði ykkur að góðu!
![]() |
Flokknum bjargað, segir Siv |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
19.1.2009 | 17:11
Dæmigerður framsóknarmaður
![]() |
Vill færa flokkinn frá hægri |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
19.1.2009 | 16:52
Gott hjá þér, Össur!
![]() |
Ísraelskur ráðherra afboðar komu sína |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
18.1.2009 | 21:39
Hryðjuverkalög og stjórnvöld sem ekki er treystandi
Íslendinga rak í rogastað þegar bretar beittu hryðjuverkalögum gegn íslensku bönkunum. Hvað var í gangi? Hvað var að gerast? Íslenskir stjórnmálamenn fylltust vandlætingu, og Guðni Ágústsson vildi slíta stjórnmálasambandi við breta. Geir fannst þetta (eins og svo margt annað) algerlega óskiljanlegt. Skýringin sem matreidd var ofan í okkur var að þarna væri Gordon Brown að spila harðjaxl til að sýna kjósendum sínum að hann væri reiðubúinn að beita hörku til að verja hagsmuni breta. Véfréttin í Seðlabankanum sagðist vita hvers vegna bretar hefðu beitt hryðjuverkalögum, en neitaði (og neitar) að skýra frá ástæðunni.
Gæti það verið að bretar hafi séð það sem lá í augum uppi en við vildum ekki viðurkenna: að stjónvöldum á íslandi væri ekki treystandi? Skoðum málið: við erum með stjórnvöld sem hundsuðu allar viðvaranir um að bankarnir væru í djúpum skít, og meira að segja beittu sér til að kasta rýrð á þá sem bentu á að kerfið riðaði til falls. Við erum með Seðlabanka sem brást algerlega því hlutverki sínu að setja bönkunum skorður og gæta þess að þeir yxu okkur ekki yfir höfuð. Við erum með fjármálaeftirlit sem tók þátt í útrás bankanna og fundaði með erlendum fjárfestum (yfir 100 fundir, að því sagt er) til að reyna að fullvissa menn um að á Íslandi væri allt í stakasta lagi. Á Íslandi hefur viðgengist hömlulaus kunningjaspilling, innherjaviðskipti og brask sem stjórnvöld og eftirlitsaðilar létu algerlega afskiftalaust. Þessu liði var ekki treystandi. Sennilega hafa bretar hræðst sporin eftir þetta lið og viljað hafa vaðið fyrir neðan sig. Kanski var það þess vegna sem þeir beittu hryðjuverkalögunum?
Hvað þarf að gera, hvað er til úrráða? Forsætisráðherra og fjármálaráðherra eiga að segja af sér, þeirra ábyrgð er gríðarleg á því hvernig komið er. Það dugar ekki með aulalega afsökunarbeiðni ("ef ég hef gert eitthvað rangt þykir mér það miður"). Viðskiptaráðherra á að fara sömu leið. Hann hló við útrásarvíkingunum, hafði ekki hugmynd um hver væri raunveruleg staða bankanna og las greinilega ekki gagnrýnar skýrslur erlendra sérfræðinga. Forstöðumaður Fjármálaeftirlitsins á líka að segja af sér og fara í langt frí. Fjármálaeftirlitið átti nefnilega að fylgjast með bönkunum, ekki að aðstoða þá við fjárglæfraverkin. Svo verður Davíð náttúrulega að fara frá. Þráseta hans í Seðlabankanum er farin að minna á Robert nokkurn Múgabe suður í Afríku. Hvorugur skilur sinn vitjunartíma og báðir eru bara til vandræða. Við getum ekki haldið til móts við framtíðina með þetta lið í áhrifastöðum. Þeir sem sigldu þjóðarskútunni uppá skér verða að fara úr brúnni. Við þurfum nýja áhöfn og nýja stefnu.
14.1.2009 | 12:55
Íllvirki og fjöldamorð
![]() |
Þrír þekktir palestínskir knattspyrnumenn fallnir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
13.1.2009 | 12:19
Þetta gengur ekki upp
10.1.2009 | 14:52
Stjórnmálaumræða í vondum farvegi
Markmið rökfræðinnar er að komast að kjarna málsins. Í lýðræðissamfélagi er mikilvægt að það fari fram upplýst umræða, og það þarf að vera grundvallarleg sátt um að markmiðið sé að komast að sem bestri niðurstöðu. Í slíkri umræðu er rökfræðinni beitt til að skilja og skilgreina viðfangsefnið og helst leiða fram til sameiginlegrar niðurstöðu. Stjórnmálaumræða á Íslandi er fjarri því að vera í þessum farvegi. Oft fer ekki fram nein umræða, heldur ákveða þeir sem til þess hafa völd að gera hlutina eins og þeim sýnist. Síðan er rökfræðinni beitt til þess að réttlæta niðurstöðuna, og oftar en ekki til að klekkja á þeim sem ekki eru sáttir við málsmeðferð. Dæmi um þetta er þegar þeir kumpánar Davíð Oddsson og Hallldór Ásgrímsson ákváðu sín á milli að Ísland skyldi styðja innrásina í Írak. Ísland hefði sennilega ekki verið á lista hinna viljugu þjóða ef farið hefði fram opin umræða um málið.
Stjórnmálaumræða á Íslandi er því miður oftast eitthvað annað en rökumræða. Einstaklingar, stjórnmálasamtök og stjórnvöld fullyrða og staðhæfa, og nota síðan rökfræðina til að gera lítið úr andstæðingum sínum. Það viðgengst að draga úr trúverðugleika þeirra sem gagnrýna með því að beina umræðunni að þeim í stað þess að halda sig við umræðuefnið. Við þekkjum þetta vel frá aðdraganda bankahrunsins. Þegar hagfræðingar Danske Bank bentu á að Ísland gæti lent í fjármálakreppu var því svarað að þeir væru bara öfundsjúkir, þekktu ekki sérstöðu íslenska hagkerfisins eða að þeir kynnu ekki hagfræði. Stjórnvöld og bankamenn ræddu ekki efnislega gagnrýni hagfræðinganna, heldur beindu spjótum sínum að þeim sem fagmönnum og reyndu að véfengja trúverðugleika þeirra. Þorgerðu Katrín, menntamálaráðherra, lét þau orð falla að breskur hagfræðingur sem varaði við yfirvofandi hruni þyrfti á endurmenntun að halda. Það verður þó að segjast að hún hefur beðið afsökunar á þessum ummælum sínum - en til þess þurfti bankahrun! Þegar hagfræðingar við Háskóla Íslands gagnrýndu bankana og vöruðu við hvert stefndi, var þeim svarað fullum hálsi að gagnrýni þeirra benti bara til að það væri eitthvað að við HÍ og þeir væru ekki trúverðugir.
Ein alvarlegasta ógnunin við lýðræðislega umræðu er að forðast að ræða kjarna málsins en þess í stað snúa umræðunni uppá þann sem maður óttast að færi fram rök sem ekki henta manni. Þetta er í rökfræðinni kallað "Ad hominem", sem þýðir "gegn manninum", og er listin að draga athyglina frá gagnrýni að þeim sem gagnrýnir og eyðileggja trúverðugleika hans. Í upplýstum lýðræðissamfélögum forðast stjórnmálamenn að beita svona bolabrögðum, vegna þess að fjölmiðlar, stjórnmálasamtök og almenningur eru á varðbergi gagnvart því að umræðan sé eyðilögð á þennan hátt. Þetta viðgengst hins vegar á Íslandi, og stjórnmálamenn jafnt sem aðrir komast upp með þetta.
Í uppgjörinu eftir efnahagshrunið ættum við að skoða í hvaða farvegi stjórnmálaumræðan hefur verið. Ef ráðamenn hefðu ekki allir sem einn beitt "Ad hominem" gegn dönsku hagfræðingunum árið 2006 værum við kanski ekki í jafn vondum málum og við erum.
9.1.2009 | 16:42
Stríðsglæpamenn hundsa alþjóðasamfélagið
8.1.2009 | 16:11
Voðaskot og púðurkerlingar
Ef byssueign væri almenn væru morð og voðaskot algeng. Í Bandaríkjunum, þar sem allt að fjórðungur almennings í mörgum fylkjum á skotvopn, eru morð og voðaskot mun tíðari en í Evrópuríkjum. Þegar um voðaskot er að ræða er því miður oft um að ræða börn sem hafa komist í skotvopn fullorðinna. Byssur geta verið algerlega ómótstæðilegar - ég man eftir því þegar ég var 9 ára polli í sveit stalst ég til að skjóta úr kindabyssu sem var á heimilinu. Þetta var rosalega spennandi, mér leið eins og Roy Rogers í kúrekamynd í Austurbæjarbíói. Ég skaut að kríu sem sat á girðingastaur, en hitti ekki sem betur fer. Kúlan flaug útí móa, og er þar sjálfsagt einhers staðar grafin í þúfu ennþá. Krakkar fikta og komist þeir í vopn geta orðið stórslys.
Sprengjur og púðurkerlingar eru líka ómótstæðileg fyrir mörg börn. Þá dugar ekki að kveikja í kínverjanum og kasta honum, það verður að sprengja eitthvað í sundur eða jafnvel oppna sprengjuna og hella út púðrinu og kveikja í. Fikta. Ég gerði þetta þegar ég var strákur. Börn og unglingar í dag gera þetta líka, en þó er sá munur á að sprengiterturnar sem nú er hægt að kaupa eru mikið öflugri en blysin sem voru seld þegar ég var strákur. Þar af leiðandi eru slysin oft verri þegar fiktið fer úr böndum.
Ég sá frétt í sjónvarpinu um slys af völdum flugelda i kringum áramótin, og þar kom fram sú skoðun að banna ætti sölu flugelda til almennings. Sprengigleðin væri greidd of háu verði ef hún kostaði blind, limlest og brennd börn. Ég er algerlega sammála þessu. Það er bara tímaspurning hvenær verða banaslys af völdum flugelda. Krakkar fikta, og meðan sprengitertur og flugeldar eru inná nánast öllum heimilum munu slys verða vegna fikts. Ættum við ekki að grípa í taumana áður en það verða fleiri slys, og finna aðrar leiðir til að fjármagna björgunarsveitir og íþróttafélög? Hvað þarf mörg sjónsködduð og limlest börn áður en fólki finnst nóg komið?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.1.2009 | 13:21
Vegferð Ísraels er vörðuð ódæðisverkum
Mannkynssagan er vörðuð ódæðisverkum, og sumar þjóðir hafa skarað fram úr í þessu tilliti. Frá síðustu öld minnast menn umsátra nasistaherjanna um Stalíngrad og Leningrad, sem kostuðu hundruði þúsunda manna lífið. Loftárásir fasista á Guernica í spænsku borgarastyrjöldinni voru gerðar ódauðlegar í frægu málverki Picassos. Sprengjuárásir bandamanna á Hamborg og Dresden voru ódæðisverk sem fyrst og fremst drápu og limlestu óbreytta borgara. Árás japana á Kína leiddi til þess að milljónir óbreyttra borgara dóu. Loftárásum bandaríkjamanna á Hanoi í lok Vietnamstríðsins var líka beint gegn óbreyttum borgurum. Umsátrið um Sarajevo og fjöldamorðin í Srebrenica í austurhluta Bosníu eru flestum enn í fersku minni, en þar voru þúsundir múslíma myrtir af serbum.
Listinn er auðvitað mikið lengri, en ódæðisverkin eiga það sammerkt að markmið þeirra hefur verið að brjóta baráttuvilja almennings á bak aftur. Þetta hefur alltaf mistekist, og dómur sögunnar hefur verið harður. Minningin um ódæðisverkin hefur lifað, árásaraðilanum til ævarandi minkunar og skammar. Saga Ísraels er vörðuð ódæðisverkum. Begin, fyrrverandi forsætirráðherra Ísraels, og fleiri forystumenn Ísraels, voru eftirlýstir hryðjuverkamenn þegar Palestína var breskt verndarsvæði. Við stofnun Ísraelsríkis voru hundruð þúsunda palestínumanna rekin á flótta með kerfisbundnum fjöldamorðum. Innrás ísraelsmanna í Líbanon var vörðuð fjöldamorðum, þau verstu voru framin í flóttamannabúðum palestínumanna í Beirút þegar hundruðir óbreyttra borgara voru vegnir. Sharon, þáverandi stjórnandi innrásarherjanna var sakfelldur af rannsóknarnefnd ísraelska þingsins fyrir ábyrgð á fjöldamorðunum (hann hætti sem herforingi, en varð forsætisráðherra nokkrum árum síðar).
Nú bæta ísraelsmenn enn einum kafla í þessa blóði drifnu sögu, með fjöldamorðum og eyðileggingu á Gaza. Þeir segja þetta snúast um að stöðva framferði Hamas. En þeir byrjuðu á þessu 40 árum áður en Hamas var stofnað, og hafa verið að í 60 ár. Þeir myndu ekki hætta þessu þó Hamas samtökin hyrfu. Þetta snýst nefnilega um hernám Ísraels á palestínsku og sýrlensku landi, landsvæði sem Ísrael hernam í árásarstríði á hendur nágrönnum sínum 1967. Þeir hafa síðan fest hernámið í sessi með því að hleypa landtökumönnum inná hernumin svæði og kerfisbundið takmarkað möguleika palestínumanna til að lifa í egin landi. Palestínumenn lifa undir ofbeldisfullu hernámi Ísraels sem bara verður verra og verra. Nú byggja þeir aðskilnaðarmúr til að reyna að festa í sessi hernámið og rán sitt á landi. Lausn deilna í miðausturlöndum er í raun einföld og á hana er bent í fleiri ályktunum Sameinuðu Þjóðanna: að ísraelsmenn skili öllu herteknu landi og hverfi inn fyrir landamærin frá 1967. Það vilja þeir ekki, þess vegna er ekkert lát á ofbeldinu og ódæðisverkunum gagnvart palestínumönnum. Það er ein sorgarsaga hvernig Bandaríkjamenn hafa staðið að baki Ísrael og stutt og afsakað ódæðisverkin.
Lönd og þjóðir fá þegar upp er staðið þann orðstír sem þau eiga skilið. Vegferð Ísraels er vörðuð ofbeldi og ódæðisverkum. Framferði ísraelsmanna verður ekki stöðvað nema þjóðir heimsins láti þá njóta sannmælis sem hryðjuverkamenn. Það verður að stöðva þessa hrotta!