Smábændur flugust á

Var það ekki Halldór Laxness sem sagði að draga mætti saman íslandssöguna með því að segja að "smábændur flugust á"? Það er svo undarlegt, að heiftúðin í pólitískri umræðu virðist oft vera í öfugu hlutfalli við stærð þjóðfélagsins. Menn bítast meira á í litlum samfélögum en stórum, og bilið öfgana á milli er stærra. Á Íslandi virðist oft skorta sátt um grundvallaratriði þjóðfélagsins og verklags við ákvarðanatöku. Þetta hefur leitt til vandræða hvað eftir annað. Við minnumst þess hvernig Halldór Ásgrímsson og Davíð Oddsson gerðu íslendinga að þátttakendum í innrás Bandaríkjahers í Írak, og skeyttu þess ekki að ræða málið á vettvangi ríkisstjórnar eða alþingis. Eða hvernig ríkisstjórn Davíðs Oddssonar lagði niður Þjóðhagsstofnun þegar greining stofnunarinnar á efnahagslegum afleiðingum Kárahnjúkavirkjunar voru honum ekki að skapi. Þar með sinnti enginn opinber aðili því hlutverki að hafa heildaryfirsýn yfir stöðu efnahagsmála á Íslandi. Við vorum undirseld greiningardeildum bankanna sem þjónuðu eigendum sínum en ekki þjóðinni.

Í grundvallaratriðum snúast þessi dæmi um skort á sátt um verklag við framkvæmd lýðræðisins. Afleiðingarnar eru ósátt, klofningur og rifrildi. Það er kominn tími til að reyna að ná grundvallarsátt um í hvaða farvegi lýðræðisleg umræða á að vera, og hvernig á að ná sátt um ákvarðanatöku og framkvæmd ákvarðanna. Þetta ætti að vera eitt hlutverk stjórnlagaþings. Þetta er allt of mikilvægt mál til að láta stjórnmálamennina ráða ferðinni.


mbl.is Deilt um þjóðaratkvæðagreiðslur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stjórnarmyndun án VG?

VG eru vart stjórntækir. Flokkurinn er fínn í stjórnarandstöðu, enda hafa þingmenn flokksins mikla æfingu í því hlutverki eftir að hafa ekki gert annað frá stofnun flokksins. Það er hægt að vera heilagur og standa á öllum prinsippunum í stjórnarandstöðu. Ef VG ætlar í stjórn verður flokkurinn að skilja að það verður að gera málamiðlanir. Ef ummæli Atla Gíslasonar um að hann muni ekki styðja stjórn sem sækir um aðild að ESB endurspeglar vilja VG er flokkurinn ekki stjórntækur. Höfuðverkefni Samfylkingar í stjórnarsamstarfi nú er að skilgreina samningsmarkmið og hefja aðildarviðræður við ESB. Þetta er lykilatriði fyrir endurreisn íslensks efnahagslífs. Þetta er líka lykilatriði fyrir nýtt Ísland, þar sem gömlu valdaklíkunum verður skákað útí horn. Gamla Ísland keyrði allt í klessu, við verðum að fara aðra leið núna. ESB aðild er lykilatriði. Það er ekki hægt að mynda stjórn með VG ef flokkurinn vinnur gegn þessu markmiði. Þá ætti frekar að ræða við Framsóknarflokkinn og O-listann...?
mbl.is Enn ósætti um ESB-málið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Við björgum okkur sjálf, auðvitað

Það er alveg rétt hjá Dagfinni að ESB mun ekki bjarga Íslandi. Það verðum við að gera sjálf. Spurningin snýst ekki um það hvort ESB komi okkur til bjargar eða ekki, heldur hvort við veljum sjálf aðild að bandalaginu?

Ísland er í skelfilegri stöðu. Landið er nánast gjaldþrota, skuldugt upp fyrir haus og með gjaldmiðil sem er verðlaus utan Íslands. Við verðum að finna leið út úr þessum þrengingum. Það er ekki til nein einföld eða sársaukalaus leið. Við eigum eftir að sjá vaxandi atvinnuleysi, samdrátt rauntekna og kaupmáttar og skerta opinbera þjónustu á sviðum menntamála, heilbrigðismála og samgöngumála. Botninum er hvergi nærri náð í þessarri kreppu, og það á eftir að svíða hressilega áður en svo verður. Við verðum hins vegar að velja leið út úr þessarri kröppu lægð.

Við verðum að láta á það reyna hvort aðild að ESB geti veitt skjól í þessu ölduróti alþjóðlegra fjármálamarkaða og verið sásaukaminni leið út úr þrengingunum en að reyna að verjast áföllunum með alvarlega laskaða þjóðarskútu og verðlausan gjaldmiðil að verkfæri. Þjóðarskútan er uppá skéri, það þarf að draga hana á flot og gera haffæra á nýjan leik. Um það snýst málið. Þess vegna verðum við að ná sátt um samningsmarkmið okkar gagnvart ESB og fara út í aðildarviðræður. Ef niðurstöður þeirra eru óaðgengilegar mun aðild verða hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ef þjóðin telur okkur betur borgið innan ESB, já þá göngum við í sambandið. Einfalt mál.


mbl.is Evrópusambandið bjargar ekki Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

VG ekki í stöðu til að stoppa ESB viðræður

Það er sennilega trygggur þingmeirihluti fyrir aðildarviðræðum. Þar fara fremstir þingmenn Samfylkingar, en bæði framsóknarmenn og O-listi eru fylgjandi aðildarviðræðum. Og þó Sjálfstæðisflokkurinn sé ófær um að taka afstöðu í málinu myndu einstakir þeingmenn sennilega styðja aðildarviðræður. Þannig er VG ekki í neinni stöðu til að hindra ESB viðræður. Sennilega verður lendingin í málinu sú að VG kyngir andstöðu sinni við að samningsmarkmið verði skilgreind og síðan verði farið út í viðræður, og niðurstöður viðræðna verði síðan bornar undir þjóðaratkvæði. Krafa VG um að haldin verði þjóðaratkvæðagreiðsla um hvort farið verði útí viðræður við ESB er tilraun til að stöðva umræðu um það sem máli skiptir, og Samfylkingin mun ekki láta þá komast upp með það. Steingrímur á völina og kvölina. VG eru vanir því að vera í stjórnarandstöðu, prinsípfastir en áhrifalitlir. Steingrímur og félagar verður að gera upp við sig hvort VG vilji halda þeirri eyðimerkurgöngu áfram eða að samþykkja að vinna við skilgreiningu samningamarkmiða fari í gang og síðan komi aðildarviðræður í kjölfarið.
mbl.is Óbrúuð gjá í ESB-máli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ný Álgerður?

Efnahagsstjórn sjálfstæðismanna undanfarna 2 áratugi hefur leitt Ísland inní skuldasúpu sem ekki sér fram úr. Nú að að redda málunum með fleiri virkjunum og álverum. Þetta er bara kosningabrella, til að fá atkvæði á Húsavík og í Reykjanesbæ. Landsvirkjun er nánast gjaldþrota, lánshæfimat Íslands er í frostmarki. Það eru litlar líkur á að Ísland gæti fjármagnað virkjanaframkvæmdir uppá hundruði milljóna króna, sem þarf til að útvega nýum álverum orku. Valgerður Sverrisdóttir stærði sig af því að íslendingar væru vel samkeppnisfærir við 3. heiminn í álframleiðslu. Hún fékk viðurnefnið Álgerður fyrir frammistöðu sína við að drekkja ljóta landslaginu á Brúaröræfum og ákafa sinn í að sjá til að hægt væri að framleiða ódýrar áldósir fyrir bandaríkjamarkað. Hún hefur dregið sig í hlé frá stjórnmálum, sjálfsagt þreytt á því að vera skjaldmær álrisanna. Við það losnar hlutverk í stóriðjuleikritinu, og Þorgerður Katrín axlar sjálfviljug möttul Álgerðar. Spyrja má enn og aftur: Hafa álframleiðslufyrirtækin borgað í kosningasjóði Sjálfstæðisflokksins?
mbl.is Álið leysir vandann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lífríki Jarðar undir gríðarlegu álagi

Það er sama hvar borið er niður, gengdarlaus hagvöxtur og neysla nútímasamfélagsins ógnar lífríki jarðar. Náttúrulegum búsvæðum plantna og dýra er eytt, skógar höggnir, neysluvatni spillt, láð og lögur mengað. Það er talið að 3-4 tegundir lífvera deyi út á klukkutíma vegna athafna manna, og skógareyðing á klukkustund er uppá 1-2 hektara. Ef allir jarðarbúar hefðu neyslumynstur vesturlanda þyrftum við 2-3 plánetur til að seðja hráefnahungur mannkyns. Þetta gengur náttúrulega ekki upp til lengdar, og þessu verður að breyta. Ein jákvæð áhrif kreppunnar sem nú ríður yfir heiminn er að þrýstingi á lífríki léttir tímabundið á vissum stöðum. Lausnin á þeim umhverfisvanda sem steðjar að jörðinni er meiri jöfnuður í neyslu. Það þýðir óhjákvæmilega að vesturlandabúar verða að breyta neyslumynstri sínu, minka sókn sína í hráefni og lífsgæði. Það er alveg eins gott að byrja strax. Fyrsta skrefið á Íslandi gæti verið að hætta við áform um frekari álversvæðingu. Við þurfum ekki að fórna náttúruperlum til að hægt sé að framleiða fleiri áldósir fyrir Bandaríkjamarkað. Aukum umfang umhverfismats fyrir stóriðjuframkvæmdir, og bætum við spurningunni "eru fyrirhugaðar framkvæmdir jákvæðar fyrir lífríki jarðar og komandi kynslóðir?"
mbl.is Lifnaðarhættir áttunda áratugarins til bjargar jörðinni?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stríðsglæpir

Bandaríkjamenn saksóttu og dæmdu yfirmenn í japanska hernum fyrir stríðsglæpi að lokinni seinni heimstyrjöldinni fyrir að beita fanga vatnspyntingum. Dick Cheney og hans mátar eru stríðsglæpamenn. Alþjóðasamfélagið ætti að gefa út handtökutilskipun á þá og rétta yfir þeim. 
mbl.is Cheney: Mistök að birta yfirheyrsluskýrslur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjálfstæðisflokkur óhæfur til forystu í ESB-málum

Sjálfstæðisflokkurinn er óhæfur til forystu í ESB-málum. Þar er hver höndin upp á móti annarri, hagsmunaaðilar takast á og draugar nýfrjálshyggju og helmingaskipta ganga ljósum logum. Uppvakningur Davíðs Oddssonar hræðir líftóruna úr flokksforystunni. Þegar Björn Bjarnason fullyrðir að það ráðist á vettvangi Sjálfstæðisflokksins hvort Ísland gangi í Evrópusambandið eða ekki, ofmetur hann gróflega stöðu og þyngd Flokksins. Flokkurinn forðast að taka afstöðu til málsins - því hann klofnar ef hann gerir það. Þetta gerir Sjálfstæðisflokkinn óhæfan um að veita forystu í málinu. Sjálfstæðisflokkurinn siglir harðbyri í átt þess að verða hreinræktaður hægri flokkur. Nýfrjálshyggjan, einkavinavæðingarævintýrið og efnahagshrunið hafa afhjúpað Sjálfstæðisflokkinn. Það er flokkur sérhagsmuna og græðgi, sem lætur almannahagsmuni sig engu varða. Í ESB málinu er forysta Sjálfstæðisflokksins málpípa kvótakónga sem óttast ekkert meira en að missa tök sín á auðlindum þjóðarinnar. Þetta gerir Sjálfstæðisflokkinn óhæfan til forystu í ESB-málum.


mbl.is Engin ESB-aðild án atbeina Sjálfstæðisflokks
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lágkúrulegur og innantómur hræðsluáróður

Ein helsta kosningaauglýsing Sjálfstæðisflokksins, sem nú glymur við ef oppnað er fyrir útvarp eða kveikt er á sjónvarpi, gengur út á að núverandi stjórnvöld ógni áformum um ný álver. Síðan er það lofað hvað álver séu frábær, þúsundum nýrra starfa er lofað, og því svo lætt að fólki að til að standa vörð um álversáformin verði menn að kjósa D listann.

Þetta hljómar eins og ekkert hafi gerst á árumum 2003-2008. Stóriðjustefnan hefur bara leitt yfir okkur vandræði. Jú, jú, það vinna nokkur hundruð manns í álverinu í Reyðafirði, en hverju var til kostað? Stórfelld þennsla vegna ofhitunar í efnahagskerfinu, svimandi háir vextir um árabil til að hemja verðbólgu, og orkufyrirtæki (Landsvirkjun) sem er svo skuldum hlaðið að það er nánast gjaldþrota. Landsvirkjun hefur ekki bolmagn til að fara út í fleiri Kárahnjúkaævintýri. Fyrirtækið fær hvergi lánsfé. Það er ekki til orka til að knýja ný álver í Helguvík eða á Bakka. Málið er í raun dautt, stóriðjustefnan er dauð.

Það kemur manni á óvart hversu lágkúrulegur og innantómur þessi hræðsluáróður Sjálfstæðisflokksins er. Maður skyldi ætla að eftir allt sem á hefur gengið myndi flokkurinn gera upp við stóriðjugeðveikina. Biðjast afsökunar á dæmalausum ummælum Sigurðar Kára um að landið sem fór undir Hálslón hafi ekki verið neins virði, ljótt landslag. Það er sjálfsagt til of mikils mælst að flokkur sem tekið hefur við risaframlögum frá fyrirtækjum með hagsmuni innan orkugeirans megni að skifta um stefnu í þessu máli. Það væri gaman að vita hvort Landsvirkjun, Alcoa/Alcan/Rio Tinto hafi gefið fé til Sjálfstæðisflokksins. Hafa stórfyrirtæki keypt stefnu Sjálfstæðisflokksins í stóriðjumálum?


Sókn afturábak?

Guðlaugur Þór er greinilega brandarakall sem fer með öfugmæli til að skemmta fólki. Stórstyrkjamálið (les: kanski mútumálið) mun ekki skaða flokkinn, heldur hann. Flokkurinn er í sókn að mati Guðlaugs Þórs, bætti við sig 0.3% milli skoðanakannanna. Skoðanakönnunin sýndi raunar 14% fylgistap frá síðustu kosningum, úr 36% fylgi niður í 22% fylgi. Þetta fer að minna á það sem sagt var um ítalska herinn í seinni heimsstyrjöldinni: skriðdrekarnir höfðu einn gír áfram en fjóra bakkgíra, til að geta sótt fram hraðar afturábak... Guðlaugur Þór heldur greinilega að þetta sé allt uppákoma í leikhúsi fáráðnleikans, þar sem stjórnmálamenn séu trúðar að skemmta lýðnum. Það verður gaman að sjá hversu margar útstrikanir vinurinn fær þegar talið verður upp úr kjörkössunum. Skyldi hann komast inná þing?
mbl.is Guðlaugur telur málið ekki skaða flokkinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband