15.4.2009 | 16:12
Kreppan er enn ekki komin...af fullum þunga
Íslendingar eru varla farnir að finna fyrir kreppunni ennþá. Það er kosningahamur á stjórnmálaflokkunum, og enginn þorir að segja hreint út hvað er í spilunum fyrir næstu árin. Ég hef upplifað kreppu af þessu tagi þegar ég bjó í Svíþjóð á tíunda áratug síðustu aldar. Þá fóru tveir stærstu bankar Svíþjóðar nánast á hausinn. Nordbanken var þjóðnýttur, og sænska ríkið þurfti að leggja bankanum til hartnær 90 milljarða SKR til að forða honum frá gjaldþroti. Á uppreiknuðu gengi og með tilliti til verðbólgu samsvarar sú upphæð um 2500 milljörðum íslenskra króna. Hinum stórbanka Svíþjóðar, SEB-bankanum, var bjargað með stórfelldri ríkisábyrgð/láni. Ef hrunið í Svíþjóð er borið saman við hrunið á Íslandi, er okkar hrun margfallt verra. Sænskt efnahagskerfi er 30-40 sinnum stærra en það íslenska, en í krónum talið er stærðargráða efnahagshrunanna sambærileg.
Nánast allur tíundi áratugur síðustu aldar var í Svíþjóð merktur af efnahagshruninu 1992. Til að mæta áföllunum voru skattar hækkaðir, og settur á 5% viðlagaskattur á allar tekjur yfir miðlungstekjum. Þá átti sér stað stórfelldur niðurskurður og hagræðingar í allri opinberri þjónustu. Það fundu allir verulega fyrir þessu. Verst urðu þeir úti sem voru mjög skuldugir. Fasteignamarkaðurinn hrundi, og það varð í mörgum tilfellum 30-40% verðfall á fasteignum. Fjölmörg heimili urðu gjaldþrota, þegar saman fór vaxandi skuldabyrði, lækkandi rauntekjur og atvinnuleysi. Þetta var mjög erfiður tími.
En svíar komust út úr þessu, með því að hækka skatta og skéra niður opinberar framkvæmdir og þjónustu. Þeir snérust líka á punktinum hvað varðaði aðild að Evrópusambandinu. Göran Persson, sem var fjármálaráðherra Svíþjóðar á þessum tíma, taldi að sænskt efnahagskerfi gæti ekki staðist ólgusjói alþjóðlegs fjármálakerfis, til þess væri það of lítið. Ef sænskt efnahagskerfi er tappatogari á ólgusjó alþjóðlegra fjármála, já þá hlýtur íslenskt efnahagskerfi að vera korktappi í sama ólgusjó. Svíar leituðu vars í ESB, hvar ætla íslendingar að leita vars?
Það er enginn vafi á því að eftir kosningar fara menn að finna fyrir kreppunni af fullum þunga. Skattar verða hækkaðir, hjá því verður ekki komist. Ísland getur ekki siglt áfram með hundruði milljarða í fjárlagahalla á ári; skuldugasta þjóð í heimi getur ekki tekið lán til að fjármagna samneysluna. Tekjur verða að standa undir útgjöldum. Við hljótum óhjákvæmilega að skéra niður útgjöld þar sem það er mögulegt, og fara í saumana á því hvar sé hægt að spara. Stærstu útgjaldaliðir ríkisins eru vegna menntamála, heilsugæslu og samgangna, auk launakostnaðar. Þar verður ekki komist frá því að skéra verður niður, því miður. Þetta er ekki björt framtíðarsýn, en kreppa er því miður ekkert gamanmál. Það þýðir ekkert að gala um að "við sjálfstæðismenn ætlum ekki að hækka skatta", eins og Sigurður Kári gerði á þingi fyrr í dag. Það hefur komið hressilega í ljós í efnahagshruninu að kenningar Friedmans nýfrjálshyggjupostula ganga ekki upp. Ef sjálfstæðismenn ætla ekki að hækka skatta til að mæta kreppunni, þá ætla þeir að gera eins Margrét Thatcher gerði í Bretlandi á sínum tíma: skéra niður félagslega kerfið, heilsugæsluna, skólakerfið og samgöngumálin, selja ríkiseigur og einkavinavæða. Vernda vini sínu, þá ríku...
Góðar stundir...
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
14.4.2009 | 23:29
Þetta er sorgarsaga
Það er sorglegt að sjá hvernig forysta Sjálfstæðisflokksins virðist á síðustu árum hafa tapað áttum og látið græðgisvæðinguna taka af sér öll ráð. Það er sorglegt að horfa uppá flokk missa sjónir af hugsjónum og láta hugmyndir Hannesar Hólmsteins og annarra nýfrjálshyggjupostula verða ráðandi hugmyndafræði. Græða á daginn, grilla á kvöldin, sagði Hannes Hólmsteinn. Taka við mútum á daginn, þegja og klóra yfir skítinn daginn eftir. Svandís Svavarsdóttir er ekki að leggja fram alvarlegar ásakanir; hún er að lýsa atburðarrás sem var torskilin áður, en er augljós þegar upplýsingar um ofurstyrki liggja fyrir. Ég er sammála Þorgerði Katrínu um að þetta er alvarlegt mál, og það verður að rannsaka. Fyrir utanaðkomandi virðist Sjálfstæðisflokkurinn hafa lagst svo lágt að selja sig fyrir 30 milljónir.
Þó ég hafi aldrei stutt Sjálfstæðisflokkinn finnst mér þessi atburðarás sorgleg. Sjálfstæðisflokkurinn hefur þrátt fyrir allt um áratugi verið stýrt af hugmyndafræði sem byggir á borgarlegum gildum, kapitalisma með samfélagslegri ábyrgð. Ekki óheftur kapitalismi græðginar, heldur hugmyndafræði sem skilur að við erum lítil þjóð í harðbýlu landi þar sem hagsmunir launþega og atvinnurekenda eiga oft samleið. Um þetta snérist þjóðarsátt ASÍ, VSÍ og ríkisstjórnarinnar á sínum tíma. Ég var aldrei verulega hræddur við stjórnarsetu Sjálfstæðisflokksins, því ég vissi að hann stóð við þjóðarsáttina um að á Íslandi skyldi vera velferðarsamfélag. Þangað til fyrir 4-5 árum. Þá byrjuðu menn að selja ættarsilfrið. Einkavæðingin snérist uppí einkavinavæðingu, fjárglæframönnum var gefið grænt ljós á að gera hvað sem þeim sýndist. Davíð Oddsson lagði niður Þjóðhagsstofnun, og ríkið afsalaði sér ábyrgð á að hafa yfirlit yfir hver væri raunveruleg staða efnahagsmála. Greiningardeildir bankanna, sem virðast hafa verið einhverjir strákar í jakkafötum með skólun í hraðsuðukúrsum í vafningum frá HR, gáfu út bjartsýnisspár, hér væri allt í góðu lagi, allir græða, allir verða ríkir. Það var spilað með eigur almennings, sparnað og lífeyri, allt til að bókhaldið liti betur út. Þetta er sorgarsaga.
Fyrir 2000 árum seldi Júdas sig fyrir 30 silfurpeninga, nú virðist Sjálfstæðisflokkurinn hafa selt sig fyrir svipaða upphæð (gengisþróun og vísitala uppreiknuð til dagsins í dag, Júdas hefði sjálfsagt geta keypt sér sæmilega íbúð í Jerúsalem ef hann hefði ekki fengið bakþanka og hengt sig...). Það var sorgarsaga, og sama má segja um vegferð Sjálfstæðisflokksins. Hann er sennilega búinn að vera sem fjöldaflokkur. Hann fer sennilega niður í 20-25% fylgi í komandi kosningum, klofnar eða missir fjölda meðlima. Ég græt það ekki. Flokkurinn uppskér sem hann sáir.
![]() |
Aldrei heyrt alvarlegri ásakanir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
13.4.2009 | 21:08
Hvers vegna ekki hringja í neyðarlínuna?
![]() |
Óskar úttektar á störfum sínum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
13.4.2009 | 17:33
Einangrunarstefna VG
Um þessar mundir er róið lífróðri og reynt að ausa leka þjóðarskútuna, en það vantar skýra stefnu til framtíðar. Eigum við að búa áfram við ónýtan gjaldmiðil sem haldið er uppi með gjaldeyrishöftum og hávaxtastefnu? Jón Bjarnason og VG verða að svara þessari spurningu, ekki hlakka yfir því að niðurstaða einhverrar skoðanannakönnunnar bendi til að fólk sé almennt ekki að velta fyrir sér aðild að ESB. Hvers vegna er ekki hægt að fara sænsku og norsku leiðina: að fara í aðildarviðræður, og bera síðan niðurstöður viðræðnanna undir þjóðaratkvæði. Þannig geta menn skipulagt fylkingar já- og nei- sinna, og tekist á um málið utan við flokkaskiftinguna. Þessa leið fóru menn í Noregi (tvisvar) og í Svíþjóð. Nei-liðar unnu í Noregi, Já-liðar í Svíþjóð. Þetta er lýðræðislegt, og með þessu verklagi kjósa menn á milli skýrra valkosta á grundvelli upplýstrar umræðu um kosti þess og galla að vera í eða utan ESB. Vangaveltur Jóns Bjarnasonar um að Samfylkingin sé að einangrast í ESB málinu eru bara til þess fallnar að skemmta skrattanum en færa okkur ekki nær svari við þeirri spurningu hvað sé til ráða nú þegar gjaldmiðillinn er endanlega gengisfelldur til ónýtis.
Ég hef verið á ferðalögum síðustu vikurnar. Ég sá skráningu gjaldmiðla í Nordea bankanum á Kastrúp flugvelli, og þar var andvirði íslensku krónunnar skráð sem 0.00. Ég spurði gjaldkerann hvort íslenska krónan væri virkilega skráð vera einskis virði. Svarið var að ég gæti alveg eins komið með hnefafylli af bréfaklemmum og beðið um að fá þeim skipt í peninga eins og að koma með íslenskar krónur og vilja fá alvöru peninga fyrir.
![]() |
Segir Samfylkinguna að einangrast í ESB-umræðunni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
12.4.2009 | 17:51
Hvernig axla Sjálfstæðismenn ábyrgð?
![]() |
Augljós mistök |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
11.4.2009 | 18:41
Stórt umhverfisverndarmál!
Íslendingar leyfa hvalveiðar í krafti þess að þær séu sjálfbærar og ógni ekki hvalastofnum. ESB og fleiri ríki eru alfarið á móti hvalveiðum vegna þess að þær sé ekki hægt að stunda án þess að hvalastofnum sé stefnt í hættu. Menn eru sammála um að vissar hvalategundir, svo sem steypireiður og búrhvalur, eru í útrýmingarhættu af völdum stórfelldra veiða á fyrrihluta síðustu aldar, en hins vegar ber stofnstærð hrefnu og langreiðar veiðar í þeim mæli sem íslendingar og norðmenn stunda. Hvers vegna eru menn þá á móti hvalveiðum íslendinga? Svarið liggur í því að svo lengi sem til er markaður fyrir hvalaafurðir munu friðaðar hvalategundir verða veiddar. Fyrir nokkrum árum voru tekin sýni af hvalkjöti á japönskum fiskmörkuðum, og greining á erfðaefni leiddi í ljós að hluti kjötsins var af hvalategundum sem eru alfriðaðar og bannað að veiða. Það má alveg segja að Íslendingar greiði fyrir stórfelldar hvalveiðar norðmanna og bandaríkjamanna fyrr á öldum, en það voru þessar veiðar sem komu hvalastofnunum í þá stöðu sem þeir eru núna. Vegna þess að aðrar þjóðir hafa ofveitt hval er andstaða við hvalveiðar íslendinga. Óréttlátt? Kanski, en svona er nú raunveruleikinn.
Hvað er til ráða? Eigum við að gefa umheiminum langt nef og segja bara að við berum ekki ábyrgð á bágu ástandi hvalastofna heimsins og þess vegna veiðum við hvali? Íslendingum er ekki stætt á því til lengdar að veiða hval í óþökk nágranna- og vinaríkja okkar. Við getum ekki gefið skít í hvað umheiminum finnst. Við lifum einni plánetu, og á sama hátt og að okkur varðar um hvort regnskógum Amasonsvæðisins sé eytt varðar aðrar þjóðir um hvalveiðar okkar. Hvalir eru flökkuspendýr sem eru við Ísland hluta ársins. Við eigum þá ekki, heldur eru þetta dýr sem tilheyra Norður Atlantshafinu. Því fyrr sem við hættum hvalveiðum, því betra. Tekjur af hvalveiðum skifta nánast engu máli fyrir efnahag Íslands, en við getum orðið fyrir mjög miklu tjóni ef íslenskar afurðir verða sniðgengnar á mörkuðum erlendis eða ef ferðamenn hætta við að heimsækja Ísland vegna hvalveiða. Menn skyldu ekki vanmeta þann þrýsting sem umhverfisverndarsinnar geta beitt okkur ef við látum ekki af hvalveiðum.
Hvernig væri að skifta um stefnu, hætta að drekkja hálendinu undir uppistöðulón, hætta raska náttúruperlum til að afla rafmagns fyrir álver, og hætta hvalveiðum? Hvernig væri að taka upp raunverulega náttúruverndarstefnu í orði sem á borði?
![]() |
ESB gagnrýnir hvalveiðar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
9.4.2009 | 18:41
Hver ber pólitísku ábyrgðina á hruninu?
Hrun íslensks efnahagslífs er afleiðing af einkavinavæðingu bankanna og þess að svigrúm þeirra til að spila með almannafé var aukið á sama tíma og dregið var úr eftirliti með fjármálastofnunum. Ofaná bættust síðan þennsluhvetjandi stóriðjuverkefni, Kárahnjúkavirkjun og álver í Reyðarfirði, auk útlánasukks bankanna. Það voru sjálfstæðismenn og framsóknarmenn sem einkavinavæddu bankana og hleyptu þennslunni af stað með Kárahnjúkavirkjun. Seðlabankinn, undir forystu Davíðs Oddssonar, gætti þess ekki að hamla útlánum bankanna með bindiskyldu vegna útlána. Síðan lögðu þeir kumpánar Davíð og Halldór Ásgrímsson niður Þjóðhagsstofnun. Þar með var engin opinber stofnun með heildaryfirsýn yfir stöðu efnahagsmála, heldur voru menn undirseldir bjartsýnisspám greiningardeilda bankanna. Sjálfstæðismenn hafa ekki farið í neitt uppgjör við þetta. Þeir bera pólitíska ábyrgð á hruninu, og það veit fólk. Þess vegna mælist Sjálfstæðisflokkurinn með mun minna fylgi en flokkurinn á að venjast. Nú, þegar spillingamál bætast ofan á önnur vandræði Sjálfstæðisflokks mun fylgi flokksins sjálfsagt enn minka. Þá hjálpar ekki að Þorgerður Katrín gráti það að Samfylkingin taki ekki ábyrgð á gerðum ríkisstjórna Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar.
![]() |
Hvítþvegin bleyjubörn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
9.4.2009 | 11:36
Sjálfstæðisflokkur í vondum málum
Nú standa öll spjót á Sjálfstæðisflokknum. Forysta flokksins í efnahagsmálum um hartnær 18 ára skeið hefur leitt Ísland á barm glötunar og efnahagshruns. Í skjóli flokksins hefur þrifist kunningjaspilling, og einkavinavæðing bankanna gaf græðgisöflunum frítt spil að fara með fjármuni og framtíð þjóðarinnar að egin vild. Nú bætast lögbrot ofaná siðleysi; Sjálfstæðisflokkurinn hefur þegið stóra styrki frá einkavinum sínum, og tekið á móti þeim þó það hefði átt að vera ljóst að það væri bæði lögbrot og siðlaust.
Einu sinni var til stór stjórnmálaflokkur svo kallaðra Kristilegra Demókrata á Ítalíu. Þeir réðu öllu þar í valdi yfirburðastærðar í meira en 40 ár. Svo lenti flokkurinn í hremmingum vegna einkavinavæðinga, spillingarmála og lögbrota. Leiðtogar flokksins voru sumir ákærðir fyrir glæpi og spillingu. Kjósendum var nóg boðið, og saga þess flokks var öll. Skyldum við vera á sömu leið með Sjálfstæðisflokkinn?
![]() |
Styrkir endurgreiddir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
30.3.2009 | 09:51
Ný kynslóð?
![]() |
Nýrri kynslóð treyst til verks |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
29.3.2009 | 13:59
Drengskapur eða klofningur?
![]() |
Geir: Ómaklegt hjá Davíð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)