Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Gjaldþrot nýju bankanna fyrirsjáanlegt?

Ummæli Mats Josefssonar, að endureisn íslenska bankakerfisins kosti 1250 milljarða en ekki 385 milljarða eins og gert er ráð fyrir á fjárlögum, eru grafalvarleg. Ef þetta er rétt,  já þá eru litlar líkur á að það takist að ná stöðugleika í bankakerfinu og ný gjaldþrot bankanna gætu orðið staðreynd í haust. Þá blasir þjóðargjaldþrot við. 


mbl.is Umskiptingar á þingi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í sápukúlu, sofandi að feigðarósi

Ég las fyrir nokkru bók Ólafs Arnarsonar, Sofandi að feigðarósi. Bókin er átakanleg lýsing á aðdraganda bankahrunsins og því hvernig lykilaðilar í stjórnmálum, stjórnsýslu og efnahagsmálum skildu ekki eða vildu ekki skilja í hvað stefndi. Hluta skýringarinnar á hruninu er að leita vildarvinaspillingunni og helmingaskiptum Sjálfstæðisflokks og Framsóknar. Hluta skýringarinnar er að finna í vanhæfum embættismönnum (svo sem seðlabankastjóranum, Davíð Oddssyni og vinaklíkunni í kringum hann). Hluta skýringarinnará hruninu er líka að finna í lýðræðishalla í samfélaginu, lýðskrumi stjórnmálaflokkanna og vanhæfi þeirra til að skoða málin á óhlutlægan hátt. Oafan í þennan banvæna kokteil koma svo ófyrirleitnir fjármála/fjárglæframenn, sem skirrast einskis til að hjámarka gróða sinn og einkavina sinna.

Umræðan um ESB í dag ber sterkan keim af átökum hagsmunahópa, lýðskrumi stjórnmálaflokka, öfgum og skorti á miðlun upplýsinga og staðreynda. Það skortir alla sátt í samfélaginu um hvert þjóðarskútunni skuli stefnt, það skortir upplýsta umræðu. Það er eins og menn átti sig ekki á því að Ísland er enn á barmi hyldýpisins, og hér gæti komið annað hrun. Stjórnmálaflokkarnir eru ragir við að taka á efnahagsmálum, því í núverandi ástandi er ekki hægt að taka neitt nema óvinsælar ákvarðanir um niðurskurð á fjölmörgum sviðum samfélagsþjónustunnar. Fyrir höndum eru stórfelldar kjaraskerðingar og versnandi lífskjör. Skattar munu verða hækkaðir og laun munu verða lækkuð. Hjá því verður ekki komist. Tekjur samfélagsins duga ekki fyrir útgjöldum. Þá verður að minka útgjöldin og auka tekjurnar.

Krónan er ónýtur gjaldmiðill, sem mun aldrei verða nothæfur í milliríkjaviðskiptum. Íslenska krónan er eins og Mikkamúsdollarinn í Disneylandi. Það er hægt að kaupa þjónustu í Disneylandi fyrir Mikkamúspeninga, en þeir eru verðlausir utan sápkúlunnar sem umlykur gerfiheim Disneys. Íslendingar lifa í dag í svona sápukúlu, í gerfiheimi íslenska efnhagsviðundursins. Nýtt hrun nálgast, með fjöldagjaldþrotum heimila og fyrirtækja, meðan stjórnmálaflokkarnir eru gjörsamlega ófærir um að ná lágmarks samstöðu um hvaða leið skuli farin í efnahags- og fjármálum. Ennþá er flotið sofandi að feigðarósi. 


Davíð Oddsson á glæpalista Time

Time Magazine birti fyrir nokkru lista yfir þá 25 einstaklinga sem mesta ábyrgð bera á fjármálakreppu heimsins. Við Íslendingar erum gjarna stolltir yfir því þegar við komumst á lista yfir framúrskarandi fólk; nú getum við verið stollt yfir því að Davíð Oddsson er á lista yfir 25 helstu fjármálaglæpamenn heimsins. Fréttina má lesa á vefsíðunni: http://www.time.com/time/specials/packages/article/0,28804,1877351_1877350_1877340,00.html

Þar segir að Davíð Oddsson hafi sem forsætisráðherra og síðar seðlabankastjóri gefið nýfrjálshyggjuöflunum lausan tauminn með hroðalegum afleiðingum.

Hvenær lenda Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur á lista yfir verstu og spilltustu stjórnmálaflokka hins vestræna heims? Spilling, sjálftaka, græðgi, þjófnaður. Þessir flokkar hafa komið Íslandi á kaldan klaka.


mbl.is Hvar eru íslensku gulldrengirnir?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stjórnmál snúast um málamiðlanir

Sigmundur Davíð ergir sig yfir því að drög ríkisstjórnarinnar að þingályktunartillögu um umsókn að ESB uppfylli ekki skilyrði sem Framsókn settí á flokksþingi sínu. Gárungarnir sögðu að þessi skilyrði væru þannig að í raun væri Framsóknarflokkurinn að setja ESB skilyrði fyrir því að ganga í Ísland. En gamanlaust, við hverju býst formaðurinn? Eru stjórnmál yfirleitt þannig að flokkarnir taki upp stefnu hvors annars rétt si svona? Í raunveruleikanum snúast öll stjórnmál um málamiðlanir, þar sem menn reyna að sameinast um stefnumörkun sem færir málin fram á við. Ef drögin að þingsályktun eru borin saman við landsfundarsamþykkt Framsóknar sést að ekki ber mikið á milli, og boðað er víðtækt samráð um aðildarumsóknina. Fýlulegar athugasemdir Sigmundar Davíðs eru bara til þess fallnar að draga málið niður í þras og þrætur. Ég held að Framsóknarflokkurinn væri mikið betur sæmdur af því að vera jákvæður og lýsa yfir vilja til að taka þátt í ferlinu á uppbyggilegum nótum. Sjálfstæðisflokkurinn er í fýlu útí kjósendur, og innan flokksins geisar nú borgarastyrjöld um ESB. Flokkurinn er gjörsamlega ófær um að taka afstöðu í málinu, hvað þá veita forystu. VG er á leiðinni ofaní skotgrafirnar í málinu, og öfgamenn innan flokksins eru með heitstrengingar um harða andstöðu innan þings og utan. Nú verður miðjan að axla ábyrgð og leiða málið til lykta. 
mbl.is Lítið um rök fyrir umsókn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Krónan kostar sitt

Það kemur ónotalega við fólk að AGS skuli ráða vaxtastigi á Íslandi, og nú hrópa menn hátt um að sjóðurinn stjórni Íslandi í raun. Ástæður þessa ástands eru hrun íslenska bankakerfisins og algert verðfall íslenska gjaldmiðilsins. Ef gjaldeyristakmarkanir yrðu afnumdar myndum við lenda í Zimbabwe-ástandi, með verðlausan gjaldmiðil, hömlulausa verðbólgu, fjöldafátækt og landflótta. Efnahagsstjórn Sjálfstæðisflokksins í 18 ár kom okkur í þessa stöðu. Þetta er nótan fyrir að gefa græðgisöflunum lausann tauminn. Það verður að ná einhvers konar stöðugleika í efnahagskerfi landsins. Háir vextir verða greiddir háu verði af fyrirtækjum og fjölskyldum í landinu. Kanski er það mat AGS að það yrði greitt enn hærra verði að lækka vexti of hratt? 
mbl.is Seðlabankinn í klemmu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvers vegna var ekkert gert?

Það er athyglisvert að Seðlabankinn var með viðbúnað vegna bankahruns hálfu ári fyrir hrunið, en gerði ekkert til að afstýra því. Ráðamenn (þar á meðal seðlabankastjóri) héldur því fram allt til byrjunar október 2008 að hér væri allt í himnalagi. Geir Haarde sagði vorið 2008 að botninum væri náð.

Einkavinirnir vissu þó hvert stefndi. Þeir fengu góðan tíma til að selja hlutabréf sín (sem bankarnir m.a. keyptu fyrir viðbótarlífeyrissparnað landsmanna til að halda uppi verði á hlutabréfum sínum), plundra bankana og flytja fjármuni í örugg skjól. Almenningur situr uppi með reikninginn...


mbl.is Áætlun ef bankar færu í þrot
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bjartsýnir framsóknarmenn

Formaður Framsóknarflokksins hefur nú fengið nýtt markmið að stefna að: fjölga þingmönnunum svo þeir fylli aftur uppí fundarherbergið sem þeir hafa haft síðustu 60 árin. Það er gott að flokkurinn finni sér tilverugrundvöll. Flokkurinn hefur reyndar náð mörgum af málum sínum fram síðustu árin: þeir einkavinavæddu bankana, og úthlutuðu sér feitum bita; þeir drógu Ísland inn í innrásina í Írak; þeir áttu afgerandi þátt í því að drekkja hálendinu til að byggja Kárahnjúkavirkjun, og skuldsettu um leið Landsvirkjun svo fyrirtækið er á barmi gjaldþrots. Önnur mál sem þeir hafa ekki komið í höfn (þrátt fyrir harða baráttu) eru fjölmiðlalöginn dæmalausu og tilraunir til að breyta vatnalögunum þannig að hægt væri að einkavinavæða vatnið í landinu.

Látum Framsóknarflokkinn njóta sannmælis: hann er spilltur, og ber gríðarlega ábyrgð á yfirstandandi þjóðargjaldþroti Íslands. Ég myndi ekki vera svo viss um að þingmönnum flokksins eigi eftir að fjölga. Þegar öll kurl verða komin til grafar um þátt Framsóknar í spillingamálum síðustu ára efast ég um að kjósendur vilji taka í hann með töng.


mbl.is Vilja ekki flytja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Reykvíkingar beittir misrétti um áratugaskeið

Þegar ég var strákur að alast upp í Reykjavík á 6. áratug síðustu aldar fékk maður oft að heyra að það væri ekki merkilegt að vera bara Reykvíkingur. Á þessum árum voru nánast allir nýfluttir til borgarinnar, og voru í hjarta sínu þingeyingar eða strandamenn. Þulir hjá Ríkisútvarpinu urðu að brjóta með norðlenskum hreim, það var miklu fínna og réttara, en linmæli Reykvíkinga þótti ófínt. Vinsælar barnabækur eftir Ármann Kr. Einarsson (sem kenndi mér í barnaskóla) fjölluðu um Árna nokkurn, sem var úr Reykjavík, en skamaðist sín svo fyrirt það að hann kenndi sig við Hraunkot, þangað sem hann var sendur í sveit. Í einni bókinni sagði eitthvað á þá leið að þegar Árni þessi var á leiðinni í sveitina var það síðasta sem hann sá þegar rútan ók frá Umferðarmiðstöðinni að Reykjavíkurstrákarnir stóðu bak við horn og reyktu. Ég var sendur í sveit norður í land í 3 sumur, þegar ég var 8-10 ára. Þar fékk maður svoleiðis að heyra það fyrir að vera Reykvíkingur, og bændur og búalið var sannfært um að í Reykjavík byggju bara aumingjar og vesalingar.

Ég er þriðja kynslóð Reykvíkinga, er stoltur af því, og gæti aldrei hugsað mér að búa útí sveit eða í einhverju sjávarplássi út á landi. Þessi gamli hugsanagangur bændasamfélagsins, að það sé eitthvað verra að vera frá Reykjavík, endurspeglast í ójafnvægi atkvæða og lýðræðishalla í kosningum. Ef maður býr í norðausturkjördæmi vegur atkvæði manns hátt í tvöfallt miðað við atkvæði frá þéttbýlissvæðunum á suðvesturhorni landsins. Mér er til efs að þetta samræmist mannréttindasáttmálum sem Ísland hefur skrifað uppá. Þessi dæmalausa kjördæmavitleysa endurspeglast síðan í fyrirgreiðslustjórnmálamönnum sem vilja jarðgöng, álver, virkjanir osfr í sín kjördæmi, en gefa skít í þjóðarhag. Valgerður Sverrisdóttir, eða Álgerður eins og hún var kölluð af sumum, barðist hatrammlega fyrir Kárahnjúkavirkjun og álveri í Reyðarfirði, því hún taldi það gott fyrir kjósendur sína á Norðausturlandi. Framkvæmdirnar hleyptu af stað gríðarlegri þennslu vegna fjármagnsinnstreymis, og við erum að greiða nótuna fyrir þá vitleysu í dag. Landsvirkjun rambar á barmi gjaldþrots vegna skuldsetningar í kjölfar Kárahnjúkavirkjunar. Mér er ekki til efs að nýr ráðherra landbúnaðarmála, Jón Bjarnason, verði góður fulltrúi bænda í Húnavatnssýslu og Skagafirði - þaðan sem hann á rætur - en verður hann góður fulltrúi neytenda á suðvesturhorni landsins? Landsbyggðarþingmennirnir eru óeðlilega margir, og hafa óeðlilega mikil áhrif. Þessu verður að breyta. Eðlilegast væri að landið væri allt eitt kjördæmi. Þá gætu flokkarnir raðað á lista þannig að fólk úr öllum landshornum ætti möguleika á því að sitja á þingi, en að vægi atkvæða í kosningum væri jafnt. Hver maður réði einu atkvæði.

Ég er orðin þreyttur á að vera beittur misrétti af landsbyggðinni. Tími Árna í Hraunkoti er liðinn, lifi Reykjavík!


mbl.is Þingið getur útrýmt misvæginu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Allt í steik á Íslandi

Einu fréttirnar sem berast af stöðu efnahagsmála á Íslandi eru slæmar fréttir. Það virðist sem það sé langt í að botninum sé náð í því forarfeni sem Davíð Oddsson og nýfjálshyggjan atti Íslandi út í. Það er vinsælt að hamast á útrásarvíkingunum svo kölluðu, en það má ekki gleyma því að þeir gerðu bara það sem stjórnmálamennirnir leyfðu þeim að gera. Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson einkavæddu bankana í anda helmingaskiptareglunnar, og skeyttu því engu að fá erlenda reynslu eða fjármagn inní bankana. Davíð Oddsson lagði niður Þjóðhagsstofnun, svo enginn innlend stofnun hafði það hlutverk að hafa heildaryfirsýn yfir stöðu efnahagsmála á Íslandi. Davíð Oddsson, í hlutverki seðlabankastjóra, gerði bönkunum og eigendum þeirra kleyft að spila fjárhættuspil á hlutabréfamarkaði með sparnað landsmanna. Slakt eftirlit gerði alls kyns innherjaviðskipti möguleg, og stóreigendur í bönkunum notuðu þá til að gæta hagsmuna sinna en gáfu skít í hagsmuni þjóðarinnar eða sparifjáreigenda. Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hleypti af stað Kárahnjúkavirkjun, sem nú er að sliga Landsvirkjun (400 milljarða skuld) og hleypti af stað þennslunni sem leiddi fram til efnahagshrunsins. Seðlabankinn, undir forystu Davíðs Oddssonar, og þáverandi ríkisstjórnir (undir forystu Halldórs Ásgrímssonar og síðan Geirs Haarde) skeyttu engu um viðvaranir um húsnæðisbólu þegar bankar fóru inná húsnæðislánamarkaðinn og Íbúðalánasjóður hækkaði lánshlutfall þannig að fólk sem ekki hafði efni á að kaupa húsnæði steypti sér út í skuldir sem það rís ekki undir.

Það er stundum sagt um fyllibyttu í þynnku að henni líði eins og hún á skilið. Ástand efnahagsmála á Íslandi er að verulegu leiti í samræmi við það sem Ísland á skilið, því miður. Allt of margir tóku þátt í neyslufylliríinu, og allt of margir kusu Sjálfstæðisflokkinn og Framsóknarflokkinn til að stjórna efnahagsmálunum (16 ár af spillingu og sukki!). Nú koma afleiðingar þessarra pólitísku og efnahagslegu afglapa í ljós. Landið er á barmi gjaldþrots, ríkissjóður sekkur æ dýpra í skuldafenið, og fyrirtæki og almenningur er hrottalega skuldum vafinn. 

Alfonsín, fyrsti forseti Argentínu eftir að landið fékk lýðræðislega ríkisstjórn eftir að herforingjastjórn Galtieri hafði nánast steypt landinu í glötun í byrjun níunda áratugs síðustu aldar, sagði að nútímasaga Argentínu kenndi mikilvæga lexíu: Velferðarþjóðfélagið er ekki náttúrulögmál. Í Argentínu var það eyðilagt af óheilögu bandalagi spilltra stjórnmálamanna og ófyrirleitinna fjárglæframanna og braskara. Argentína dagsins í dag er fast í skuldafeni og almennri fátækt. Er Ísland að fara sömu leið? 


mbl.is Skuldir ríkisins langt yfir viðmiðunum ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

VG ofan í skotgrafirnar

Í Fréttablaðinu í dag er spjallað við einn nýju þingmanna VG, Ásmund Einar Daðason, um mögulegar ESB viðræður. Hann veitir athyglisverða innsýn í nálgun VG gagnvart ESB: "Ég er mjög harður Evrópuandstæðingur, og stend við það. Þetta er mín sannfæring og prinsipp og ég mun fylgja því í rauðan dauðann.“ 

Hann gæti alveg eins hafa sagt "Ég veit hver hinn rétti sannleikur er, ekki rugla mig með staðreyndum". Vinstri spegilmynd Davíðs Oddssonar. En þeir ná saman í afstöðunni til ESB viðræðna.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband