Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Sigmundur Davíð hluti vandamálsins

Framsóknarflokkurinn undir forystu Sigmundar Davíðs velur ódýrustu og ábyrgðarlausustu leiðina til að bregðast við aðsteðjandi vandamálum: lýðskrumið. Flokkurinn hefur ekki á neinn hátt gert upp þátt sinn i ógöngum Íslands. Flokkurinn einkavinavæddi bankana og greiddi götu braskara og fjárglæframanna sem best hann gat undir forystu Halldórs Ásgrímssonar. Hvar er uppgjörið við þann verknað? Flokkurinn hafði forystu um Kárahnjúkavirkjun og byggingu Álvers á Reyðarfirði sem hafði gríðarleg þensluáhrif í efnahagskerfinu, auk óbætanlegra náttúruspjalla. Hvar er uppgjörið við þann verknað? Flokkurinn tók þátt í því að leggja Þjóðhagsstofnun niður, því það sveið undir gagnrýni stofnunarinnar á óábyrga efnahagsstjórn ríkisstjórna Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Hvar er uppgjörið við þann verknað? Efnahagshrunið á Íslandi er afleiðing rangra ákvarðanna og afglapa ríkisstjórna Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Hefur flokkurinn gert upp við það?

Nú stundar Sigmundur Davíð ódýrt lýðskrum, með því að ásaka ríkisstjórnina um aðgerðaleysi og afneitun á því að Ísland verði að standa við skuldbindingar vegna icesave reikninganna. Hann reynir atkvæðakaup með því að telja fólki í trú um að það sé bara hægt að skrifa niður lán yfir línuna, þau þurfi ekki að borga. Framsóknarflokkurinn undir forystu Sigmundar Davíðs hefur greinilega einsett sér að taka ekki þátt í því að reyna að finna leiðir til lausnar aðsteðjandi vandamála, heldur standa á hliðarlínunni og reyna að glepja fólki sýn. Þar með er flokkurinn og formaðurinn orðin hluti af vandamálinu. Lýðskrumarar eru bara til vandræða.


mbl.is „Fjarar undan stjórninni"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vont og versnar

Kreppan dýpkar, skuldabyrðin eykst og æ fleiri vakna úr djúpri afneitun til skilnings á að ástandið er verra en þeir gerðu sér grein fyrir og það fer versnandi. Allir kostir eru slæmir í stöðunni. Staðreyndir málsins eru fremur einfaldar. Íslendingar lifðu um efni fram um árabil, þar sem sívaxandi einkaneysla og fjárfestingar voru fjármagnaðar með lánsfé. Hluti lánsfjárinns var notaður til spákaupmennsku. Þetta gerðu jafnt einstaklingar, fyrirtæki sem bankar. Það er spákaupmennska þegar fólk tók gjaldeyrislán til að fjármagna bílakaup eða fjárfesta í húsnæði. Margir hafa sér til afsökunar að þeir hafi notið ráðgjafar fjármálafyrirtækja, en það breytir því ekki að menn voru að reyna að komast hjá dýrum, vísitölubundnum lánum með því að taka gjaldeyrislán, og þeir veðjuðu á að gengisvísitalan færi ekki yfir ákveðin mörk. Það er spákaupmennska þegar fólk setti sparnað sinn í hlutabréf í þeirri von að fá hærri ávöxtun. Það var spákaupmennska þegar byggingaraðilar keyptu lóðir í stórum stíl og tóku lán (oft gjaldeyrislán) til að henda upp fjölbýlishúsum í þeirri von að húsnæðisbólan héldi áfram að þenjast út óendanlega. Það var spákaupmennska þegar útrásarvíkingarnir keyptu fyrirtæki og fasteignir erlendis á uppsprengdu verði fyrir lánsfé í þeirri von að áframhaldandi þennsla gerði fjárfestingarnar arðbærar í framtíðinni. Bankarnir tóku þátt í ruglinu, og lánuðu út fé sparifjáreigenda til vafasams brasks í hlutabréfum, fasteignum og fyrirtækjum.

Nú nálgast skuldadagar. Reikningurinn fyrir spákaupmennskufylliríið er ævintýralega hár. Ísland er að sökkva í gríðarlegt skuldafen, og það er ekki fyrirséð hverning eða hvenær við komumst uppúr þessu ástandi. Því miður eru einu valkostirnir slæmir, mjög slæmir. Kjaraskérðingar, skattahækkanir, niðurskurður á öllum sviðum. Við getum ekki gert neitt annað en að bíta á jaxlinn, bölva og taka þessu áfalli og vinna okkur út úr því. Það er enginn önnur leið fær. Því miður.


mbl.is Gengið frá samkomulaginu í gærkvöldi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aðdáendaklúbbur Davíðs tekur kipp!

Nú er kátt á hjalla hjá aðdáendaklúbbi Davíðs Oddssonar. Tilefnið er að samkvæmt nýrri bók Guðna Th. Jóhannessonar stóð Davíð uppí hárinu á AGS og reif kjaft. "Dabbi er minn maður", má lesa á blogginu, og aðrir telja að nú sé þörf á skélegum stjórnmálamanni eins og Davíð Oddssyni.

Það er ef til vill nauðsynlegt að minna á að hrunið á Íslandi má að verulegu leiti rekja til afglapa Davíðs Oddssonar sem stjórnmálamanns og seðlabankastjóra. Það var ríkisstjórn hans sem einkavinavæddi bankanna, en hvernig staðið var að því er mikilvægasta einstök orsök banklahrunsins. Þar ber Davíð Oddsson persónulega ábyrgð, því hann stýrði ráðherranefndinni svo kölluðu (Davíð, Halldór Ásgrímsson, Valgerður Sverrisdóttir og Geir Haarde) sem tók ráðin af einkavæðingarnefnd og handstýrði bönkunum í eigu einkavina Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks. Davíð Oddsson lagði líka niður Þjóðhagsstofnun, og eftir það var engin opinber aðili sem hafði heildaryfirsýn yfir stöðu efnahagsmála á Íslandi. Hann var ráðríkur og valdafíkinn stjórnmálamaður, sem taldi sig geta gert hvað sem honum sýndist. Besta dæmið um það er hvernig hann lét setja Ísland á lista yfir þær þjóðir sem vildu fara með stríði á hendur Írak, í trássi við alþjóðalög. Þá ákvörðun bar hann aldrei undir þing eða þjóð. Sem seðlabankastjóri gerði Davíð hver afdrifaríku mistökin á fætur öðrum, svo sem að afnema bindiskyldu bankanna og setja erlendri innlánastarfsemi þeirra skorður. Við munum eyða næstu árum og áratugum í að borga nótuna fyrir afglöp Davíðs.

Það er sorglegt að enn sé fullt af fólki sem grætur brotthvarf Davíðs úr stjórnmálum og óskar afturkomu hans inná opinberan vettvang. Davíð hefur valdið nægum skaða, og það væri öllum fyrir bestu að kafla hans í stjórnmálasögu Íslands væri endanlega lokið.


mbl.is Davíð lét AGS heyra það
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Athyglisverð aðferð við endurgreiðslu

Endurgreiða á tugmilljóna svindlstyrkina til Sjálfstæðisflokksins á 7 árum, án vaxta eða verðbóta. Það á sumsé bara að endurgreiða lítinn hluta svindlstyrkjanna. Var hægt að búast við öðru? Sjálfstæðismenn græða peninga á daginn og grilla á kvöldin, svo snúið sé aðeins út úr orðum nýfrjálshyggjupostula sjálfstæðismanna, Hannesar Hólmsteins. Nú getum við bætt því við að þeir græða á daginn, grilla á kvöldin og koma sér undan því að endurgreiða svindlstyrki á 7 árum. Skyldu þeir telja þetta verða flokknum til framdráttar eða auka traust kjósenda?
mbl.is Styrkir borgaðir til baka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vont og versnar

Fyrir höndum er tími kjaraskérðinga, hækkandi skatta og stórfellds samdráttar í opinberri þjónustu. Það er nótan fyrir að Ísland og íslendingar hafa eytt um efni fram, og við erum nú skuldsettasta þjóð í heimi. Ævintýramennska bankanna og útrásarvíkinganna er einn mikilvægur orsakavaldur kreppunnar, en hitt er líka staðreynd að fjöldi fólks fór allt of glannalega í að skuldsetja sig til fasteignakaupa og neyslu.

Menn eiga eftir að deila um það um ókomin ár hver bar ábyrgð á þessu fylliríi öllu saman, en þegar upp er staðið bera flestir ábyrgð. Stjórnmálamennirnir sem einkavinavæddu bankana og gáfu fjárglæframönnunum lausan tauminn bera mikla ábyrgð. En því má ekki gleyma að þeir kumpánar Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson, sem bera þyngstu ábyrgðina, fengu góða kosningu og stuðning kjósenda í 4 kjörtímabil. Þeir komust meira að segja upp með að draga Ísland inní árásarstríðið gegn Írak án þess að kjósendur refsuðu þeim fyrir. 

Það var varað við þennsluáhrifum Kárahnjúkavirkjunar, og því að stóriðjuframkvæmdirnar gætu reynst okkur dýrkeyptar. Almenningur hlustaði ekki á þær viðvaranir, og Davíð Oddsson komst upp með að leggja niður Þjóðhagsstofnun sem hafði varað við framkvæmdunum. Þar með var engin opinber stofnun sem hafði það hlutverk að hafa heildaryfirsýn yfir stöðu efnahagsmála á Íslandi. Við vorum ofurseld bjartsýnisspámönnunum í greiningardeildum bankanna sem hvöttu til eyðslu og hlutabréfabrasks. Fasteignaverð rauk upp, með tilheyrandi lóðabraski og offramkvæmdum í nýbyggingum. Þeir sem vöruðu við þessu voru kallaðir nöldurseggir sem ekki gætu unað fólki aðgang að lánsfé til að koma sér þaki yfir höfuðið. Það var varað við gengislánum vegna hættunnar á veikingu krónunnar, en bankarnir ýttu þessu að fólki og fjöldi manns valdi að hlusta ekki á viðvaranir. Fólk tók áhættu - og tapaði.

Ástandið er slæmt, og það á sjálfsagt eftir að versna. Nú gildir að læra af mistökum síðustu ára og móta nýja stefnu til framtíðar.  


mbl.is Ný gjöld hækka tíu milljóna króna lán um 50 þúsund
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vísitölubindingin afleiðing krónunnar

Ástæða vísitölubindingarinnar er hversu veikur gjaldmiðill krónan er. Ef við losnum við krónuna, er vísitölubinding óþörf. Eina leiðin til að komast úr fjötrum þessa veika gjaldmiðils er að ganga í ESB og taka upp evru. Þannig er það bara. Andstæðingar ESB aðildar hafa ekki getað bent á neina aðra leið til að sleppa frá bölvun krónunnar. Einhliða upptaka evru, norskrar krónu eða dollara er ekki raunhæfur kostur. Skattahækkanir eru nauðsynlegar til að auka tekjur ríkissjóðs, því Ísland getur ekki til lengdar haft ríkisbúskap í bullandi mínus. Þegar skattahækkanir verða til þess að hækka vísitölubundin lán er það afleiðing af stöðu okkar í gjaldmiðilsmálum. Auðvitað verður að breyta þessu, og það liggur fyrir alþingi tillaga um að sækja um ESB aðild. Stjórnarandstæðingum væri nær að hætta því að tefja málin í stað þess að vera með lýðskrum um að þeir hefðu aldrei hækkað skatta eins og sitjandi ríkisstjórn. Það eru engir góðir kostir í stöðunni. Næstu mánuðir og ár verða tímabil atvinnuleysis, kjaraskérðinga, niðurskurðar opinberrar þjónustu og hækkandi skatta. Það er reikningurinn fyrir16 ára ríkisstjórnarsetu Framsóknar og Sjálfstæðisflokks.
mbl.is Mjög óvinsælar aðgerðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í góðri áflogahefð íslendingasagna

Það er segin saga, að menn geta ekki komið sér saman um nokkurn skapaðan hlut. Framsóknarmenn og sjálfstæðismenn eru margir fylgjandi því að sótt verði um ESB aðild, en það á að gerast á þeirra egin forsendum. Tillaga stjórnvalda (eða kanski ætti að segja tillaga Samfylkingar, því VG er í hlutverki heilags anda sem ekki vill óhreinka sig með ESB) er ekki nógu góð fyrir D og B. Nú á að rífast og sjá til þess að þjóðin verði örugglega klofin í tvær eða fleiri andstæðar fylkingar í málinu.

Þetta er svo sem í anda gamallar íslenskrar áflogahefðar. Menn drápu hvorn annan með ryðguðum sverðum, grjótkasti og íkveikjum í gamla daga til að gera upp deilur um yfirráð yfir hvalrekum, fuglabjörgum eða rekavið. Eftir að íslendingar voru afvopnaðir og mannvíg lögðust af höfðu þeir æruna hver af öðrum með níðvísum og baktali. Frá lýðveldisstofnuninni hafa stjórnmál á Íslandi markast af átökum um allt sem hægt er að rífast um, og aldrei hefur verið sátt um nokkurn skapaðan hlut. Nú sekkur Ísland allt dýpra í skuldafen og stjórnmálamennirnir eru ráðalausir um hvað skuli til bragðs taka. Þá má alla vega rífast um orðalag tillögu um að sækja um ESB aðild.

Títanic hvarf í djúpið á meðan hljómsveit skipsins lék sálminn "Nearer, My God, to Thee". Ísland sekkur við bergmál rifrildis og átaka á þingi...


mbl.is Vill sækja um ESB-aðild
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

VG til vandræða

Sigmundur Davvíð hefur mikið til síns máls þegar hann furðar sig á afstöðu VG til aðildarviðræðna við ESB. Öfgasjónarmið VG varna flokknum sem slíkum að styðja stjórnartillöguna um aðildarviðræður. Með afstöðu sinni reynir VG að koma í veg fyrir að íslendingar fái tækifæri til að greiða atkvæði í þjóðaratkvæðagreiðslu um skýra valkosti. Flokkurinn treystir ekki kjósendum til að afgreiða málið, flokkurinn telur sig vita að ESB sé af hinu ílla og því þurfi ekkert að ræða um við ESB um skilmála aðildar.

VG er arftaki Framsóknarflokksins sem boðberi bændarómantíkur, kryddaðri með þjóðernisstefnu. VG skilur ekki mikilvægi alþjóðahyggju og alþjóðlegs samstrfs. Flokkurinn er fastur í stjórnarandstöðuhlutverki, meira að segja innan stjórnar. Það er grábölvað.


mbl.is Ráðherrar VG ekki viðstaddir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Varðar Sjálfstæðisflokk og Framsókn um þjóðarhag?

Það veit ekki á gott þegar Sjálfstæðismenn og Framsókn plotta. Þetta eru tveir flokkar sérhagsmuna, einkavinavæðingar, brasks og spillingar. Það var svo kölluð ráðherranefnd (Davíð Oddsson, Geir Haarde, Halldór Ásgrímsson og Valgerður Sverrisdóttir) sem einkavinavæddi bankana og sáði fræum hrunsins sem við glímum við í dag. Tilraunir þessara afla til að færa orkufyrirtæki landsins í hendur "útrásarvíkinga" voru sem betur fer stöðvaðar. Þessir flokkar eru sjálfsagt meðal spilltustu stjórnmálaafla á Vesturlöndum, og þó víðar væri leitað. Það er enginn eðlismunur á hegðun Roberts Mugabes í Simbabwe og Davíðs Oddssonar á Íslandi. Báðir eru valdasjúkir og veruleikafirrtir hrokagikkir sem svífast einskis. Báðir hygla vinaklíkunni. Hvorugur skilur að hann hafi gert eitt eða neitt rangt. Fólk ætti að fara með öllu með gát þegar Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur fara í samkrull og reyna að selja okkur það að nú eigi að gera tillögur um ferli ESB umsóknar á grundvelli víðtækrar samstöðu. Flokkarnir eru einfaldlega ótrúverðugir, því þá hefur aldrei varðað um þjóðarhag. Þeir verða ekki trausts verðir fyrr en þeir viðurkenna að hafa stolið þjóðareigum (bönkunum, fiskinum í sjónum) og gefið vildarvinum. Réttast væri að sækja "ráðherranefndina" til saka fyrir stuld á þjóðareigum, spillingu og landráð. Við ættum aldrei að gleyma því hvað 16 ár af spillingarstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hefur kostað almenning í landinu.
mbl.is Sameiginleg ESB-tillaga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afneitun og ráðleysi

Flestir eru orðnir langeygir eftir "ráðstöfunum til bjargar heimilum og fyrirtækjum í landinu". Rætt er um niðurfærslu skulda, fastgengisstefnu, launalækkanir (5%) og skattahækkanir (alla vega á sykri!). Ætli það sé ekki að koma í ljós að það er lítið hægt að gera til bjargar skuldsettum heimilum og fyrirtækjum? Sumir þeirra sem verst sitja í skuldasúpunni voru æstastir í neysluæðinu á undanförnum árum, og fóru of geyst við lántökur. Aðrir eru fórnarlömb bankanna, sem af fullkomnu ábyrgðarleysi hvöttu menn til að steypa sér í skuldir.

Ríkisstjórnir síðustu ára voru í fullkominni afneitun á þeirri hættu sem vaxandi skuldsetning landsmanna bar með sér. Skollaeyrum var skéllt við röddum sem vöruðu við því sem var að gerast. Þegar hagfræðingar Danske Bank vöruðu við fyrirsjáanlegu efnahagshruni á Íslandi var þeim brigslað um óheilindi. Menn ræddu frekar um "íslenska efnahagsundrið", sem helst mátti skilja þannig að það væri eitthvað alveg nýtt í hagfræðivísindunum. Í raun snérist "undrið" um að kaupa dýrt og steypa sér í skuldir. Gróðahyggja og brask voru það sem gilti. Nú er komið að skuldadögum. Stjórnmálaflokkarnir eru ráðlausir, og stjórnvöld eru í afneitun á umfgangi vandamálsins. Kjarni málsins er sá að Ísland er farið á hausinn, skuldinar eru okkur ofviða. Fallið verður stórt og sársaukafullt. Því miður.


mbl.is Festa gengið í 160 - 170
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband