Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Böndin berast víða

Morgunblaðið nefnir ekki í fréttinni að húsrannsóknirnar beinast m.a. að Askar Capital og aðkomu þess fyrirtækis að fjárfestingum með fé úr bótasjóði Sjóvár. Um meðferð fjármuna úr bótasjóðum tryggingarfélaga gilda mjög strangar reglur, og varðar lög að spila með þá fjármuni í áhættufjárfestingum. Mörg fjárfestingarverkefni Milestone, eiganda Sjóvár voru unnin með fjárfestingabankanum Askar Capital, sem var í eigu sömu manna. Þar var Tryggvi Þór Herbertsson forstjóri, en hann er nú alþingismaður Sjálfstæðisflokksins. Athyglisvert verður að vita hvað kemur í ljós þegar sérstakur saksóknari fer að velta við steinum sem liggja í slóð frjálshyggjupostulanna. Tryggvi Þór, sem var einn efnahagsráðgjafa Geirs Haarde, vann sér sem kunnugt er til frægðar að skrifa skýrslu um ástand efnahagsmála á Íslandi, sem kom út rétt fyrir hrunið 2008. Samkvæmt skýrslunni var allt í himnalagi á Íslandi, og ekkert að óttast. Raunveruleikinn var sem kunnugt er annar.
mbl.is Húsleit á níu stöðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óvönduð blaðamennska

Agnes Bragadóttir er umdeild, og þykir bæði kjaftfor á stundum og pólitísk í skrifum sínum. Það er svo sem ekki mikið að segja við því, hún hefur auðvitað fullt leyfi til að vera hvort tveggja þegar hún ræðir stjórnmál útfrá skoðunum sínum. Þegar hins vegar blaðamennska hennar litast af þessu ber það vitni um óvönduð vinnubrögð. Í viðtalinu dæmalausa við Davíð Oddsson í sunnudagsblaði moggans fellur Agnes í þá gryfju að taka staðhæfingar hans góðar og gildar, án þess að kanna sannleiksgildi þeirra. Þannig vitnaði Davíð í vitlausa skýrslu, sagði hana vera frá OECD þegar hún var frá franska fjármálaráðuneytinu, og auk þess var tilvitnunin röng, þ.e. Davíð sleppti seinni hluta tilvitnanarinnar þar sem kom fram að við bankahrun félli ábyrgð á eftirlitsaðila, seðlabanka og ríkissjóð. Önnur gögn sem Davíð vitnaði til finnast einfaldlega ekki, nema þá í huga Davíðs. Aðrar vitleysur sem vandaður blaðamaður hefði átt að uppgötva eru þversagnirnar í fullyrðingum Davíðs um að hann hafi ítrekað varað við icesave (þegar fjöldi gagna sýnir að hann gerði þvert á móti) og þegar hann átelur núverandi ríkisstjórn fyrir að fallast á að taka á sig icesave skuldbindingarnar. Staðreyndir málsins er að hann skrifaði sjálfur uppá þessar skuldbindingar sem seðlabankastóri í nóvember sl. Þá sat Árni Matthiassen í stól fjármálaráðherra í ráðuneyti Geirs Haarde. Ummæli Davíðs dæma sig sjálf, en þau dæma líka Agnesi vera óvandaða blaðakonu.

Agnes ætti að velta því fyrir sér hvort hún vil vera blaðamaður eða pólitíkus. Og mogginn ætti að velta fyrir sér hvers konar blaðamennsku á að stunda þar á bæ. Ég er örugglega ekki einn um að vera þreyttur á því hvernig blaðið strýkur Davíð Oddssyni meðhárs. Ég er örugglega ekki einn um að hafa sagt blaðinu upp vegna dæmalausrar þjónkunar þess við skrýmsladeild Sjálfstæðisflokksins.


Einn einn naglinn í líkkistu krónunnar

Krónan er búin að vera sem gjaldmiðill. Hún er ónothæf utan Íslands, og er í sama flokki og Zimbabwedollar og Mikkamúsdollar í Disneylandi. Krónunni er haldið á floti með neyðaröndun frá Seðlabankanum, og gjaldeyrisvaraforða þjóðarinnar er sólundað á braskara. Í fréttinni segir að skipulögð glæpastarfsemi tengist gjaldeyrisbraski. Hafa menn kannað hvort fiskútflytjendur séu í þeim flokki er braskar með krónur?
mbl.is Gjaldeyrisbraskarar græða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Davíð ekki trúverðugur

Davíð hefur í leikið tveimur skjöldum í öllu sem viðkemur efnhagshruninu, og talað með tungum tveimur:

-  Hann viðurkennir að fjárglæframennirnir í LÍ eigi stóra sök á efnahagshruni Íslands, en hann sér ekki að þetta var skrýmsli sem hann vakti upp með einkavinavæðingu Landsbankans.

- Hann segist hafa varað við hættunni á hruni bankanna ári áður en þeir hrundu, en samt fór hann í viðtöl við fjölmiðla erlendis þar sem hann sagði stöðu bankanna sterka.

- Hann segist hafa ítrekað að ríkissjóður hefði engar skuldbindingar gagnvart icesave reikningum Landsbankans, en í viðtali í mars 2008, við Channel 4 í Bretlandi, sagði hann ríkissjóð Íslands bakka reikninganna uppi.

- Hann segist hafa varað ríkisstjórn Geir Haarde við því að taka á sig ábyrgð gagnvart icesave, en sjálfur skrifaði hann uppá skuldbindingu gagnvart icesave, sem seðlabankastjóri, í nóvember sl.

Davíð hefur engan trúverðugleika í málinu. Hann virðist haldinn alvarlegri veruleikabrenglun, það sjá flestir aðrir en hörðustu aðdáendur og ritstjórn moggans. Það er hallærislegt að sjá moggann enn og aftur leggjast marflatan fyrir Davíðsklíkunni innan Sjálfstæðisflokksins með "ítarlegu" drottningarviðtali.


mbl.is Ekki setja þjóðina á hausinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Löngu tímabært

"Einkaháskólarnir" hafa um langt skeið verið bæði með belti og axlabönd, og í raun ríkisreknir. Þeir hafa fengið jafn hátt framlag á nemanda og ríkisreknu háskólarnir, en hafa auk þess innheimt há skólagjöld. Skólagjöldin fjármagna nemendur m.a. með námslánum. Lánin koma frá LÍN, eru á hagstæðari kjörum en markaðskjör, og endurgreiðslubyrði hámörkuð. Þess vegna eru lánin ekki alltaf að öllu leyti greidd upp, og eru í raun styrkur (sem rennur í vasa einkareknu háskólanna). Þannig eru einkaháskólarnir styrktir umfram ríkisreknu háskólana.
mbl.is Breytingar gerðar á fjármálum háskóla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Slítum stjórnmálasambandi við Ísrael

Rannsóknarnefndir frá Sameinuðu Þjóðunum og Amnesty International hafa komist að þeirri niðurstöðu að Ísrael sé sekt um stríðsglæpi á Gaza. Ísrael er ofbeldisfullt hernámsríki sem brýtur alþjóðalög og hundsar kröfur alþjóðasamfélagsins um að skila hernumdu svæðunum. Þvert á móti, Ísrael byggir út hertökubyggðir og iðkar landrán og ofbeldi gagnvart íbúum herteknu svæðanna.

Það er mjög erfitt að þvinga Ísrael til eftirgjafa svo lengi sem Bandaríkin sjá sér hagsmuni af því að verja ofbeldisverk ríkisins og styðja landið ótæpilega. Ísraelska herveldið er ekki fjármagnað með útflutningi á appelsínum, heldur veita Bandaríkin milljörðum dollara árlega til að viðhalda hernaðarmætti Ísraels sem í dag er fjórða öflugasta herveldi jarðar. Við getum lagt okkar lóð á vogarskálarnar til að einangra Ísrael með því að kaupa ekki ísraelskar vörur. En við ættum að ganga enn lengra og slíta stjórnmálasambandi við landið. Ísrael hefur gert sig sekt um alla þá glæpi sem nasistaríki Þýskalands var svo alræmt fyrir: árásar- og landvinningastríð á hendur nágrönnum sínum, fjöldamorð á óbreyttum borgurum, fangelsun fólks án dóms og laga, mismunun þegna eftir trúarbrögðum, og svo mætti lengi telja. Ísraelsríki var stofnað fyrir tilstuðlan Sameinuðu Þjóðanna, og Ísland var meðal fyrstu landa í heimi til að viðurkenna ríkið. Nú ættum við að verða meðal þeirra fyrstu til að viðurkenna að það voru mistök, og slíta stjórnmálasambandi við landið.


mbl.is Saka Ísraela um stríðsglæpi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stjórnarandstöðuna skortir þroska

Það er góðra gjalda vert ef Ögmundur telur að stjórnarandstaðan sé fær um að skoða icesave samninginn á óhlutlægan hátt og komast að skynsamlegri niðurstöðu. Þarna ofmetur hann lýðræðisþroska stjórnarandstöðunnar. Þingmenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknar ganga alltaf í takt, sama hvaða vitleysu flokksforystan etur þeim útí. Munið bara eftir því þegar Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson létu Ísland lýsa yfir stríði á hendur Írak vegna meintrar ógnunnar við okkur. Þá æmti enginn eða skræmti í þingliði flokkanna. Munið eftir fjölmiðlamálinu og Kárahnjúkavirkjun, alltaf var gengið í takt. Nú hafa forystumenn flokkanna, þeir Bjarni Benediktsson og Sigmundur Davíð, valið að æsa fólk til andstöðu við icesave samkomulagið, og hafa ekki sýnt neinn vilja til að koma að lausn málsins á uppbyggilegan hátt. Að vona að stjórnarandstaðan komi málefnalega að þessu er eins og að vona að gullfiskar læri að spila á gítar. Það mun ekki gerast...
mbl.is Ögmundur ekki ákveðinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Steingrímur stendur sig vel

Steingrímur J. Sigfússon vex sem stjórnmálamaður með hverjum degi sem líður. Hann fékk eitt erfiðasta mál íslenskrar stjórnmála- og efnhagssögu á sitt borð sem fjármálaráðherra, og sýnir bæði ábyrgð og festu í meðferð þess. Smámennin sem eru leiðtogar Sjálfstæðisflokks og Framsóknar hafa í þessu máli valið sér hlutverk óábyrgra lýðskrumara. Það á sérstaklega við um kögurmilljónerann Sigmund Davíð, afsprengi einkavinavæðingarinnar, sem nú iðkar frammíköll og ódýran hræðsluáróður.  
mbl.is Dýrustu milljarðar Íslandssögunnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ótrúlegt skammtímaminni

Það er varla svo að maður trúi því að spillingar- og græðgisöflin í Sjálfstæðisflokki og Framsókn skuli vera að sækja sig í veðrið í skoðanakönnunum. Þetta eru flokkarnir sem bera höfuðábyrgð á efnahagshruninu, en hafa algerlega brugðist þegar kemur að því að axla ábyrgð. Hafa kjósendur strax gleymt þessu? Reiknar fólk með því að græðgisöflin séu fær um að koma þjóðarskútunni í var? 

Kjarni lýðræðisins er að þjóðir fá þá stjórnmálamenn yfir sig sem þær eiga skilið. Kanski eiga íslendingar ekkert betra skilið en Sjálfstæðisflokk og Framsókn?

Ps. Kíkið á þessa færslu: http://gorgeir.blog.is/blog/gorgeir/entry/905219/


mbl.is Fylgi stjórnarflokkanna minnkar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjálfstæðisflokkur og Framsókn kafsigldu þjóðarskútunni

Icesave er hið versta mál, og það er enginn glaður yfir því að þurfa að fást við afleiðingar þess. Menn eiga sjálfsagt eftir að rífast um það næstu árin hvort samningurinn sem liggur fyrir sé sá besti sem við gátum fengið eða ekki. Hitt er alveg ljóst að íslendingar komast ekki hjá því að standa við skuldbindingarnar gagnvart erlendum sparifjáreigendum. Við verðum að rísa undir þeirri ábyrgð.

Sjálfstæðismenn og Framsókn hafa hátt um þessar mundir og telja ríkisstjórnina vera að steypa Íslandi í glötun með icesave samningnum. Þessi hávaði þeirra pólitískur. Þeir vilja fela þá staðreynd að einkavinavæðing bankanna og pólitísk afglöp ríkisstjórna þessara flokka steyptu Íslandi í glötun. Nú er verið að reyna að ná þjóðarskútunni af því skeri sem stefna ríkisstjórna Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar kom okkur uppá.  Nokkur lykilatriði:

- Þeir einkavinavæddu bankana, létu þá í hendur fjárglæframannanna sem kollsigldu öllu.

- Þeir lögðu niður Þjóðhagsstofnun, sem hafði það hlutverk að hafa heildaryfirsýn yfir stöðu efnahagsmála á Íslandi.

- Þeir hleyptu hér af stað botnlausri þennslu með hækkun á lánahlutfalli til fasteignakaupa og vanhugsuðum stóriðjuframkvæmdum.

- Þeir settu bönkunum engar skorður í starfsemi þeirra, og létu þá komast upp með að taka á sig skuldbindingar sem ríkið verður nú að taka yfir.

Nú er komið að skuldadögum. Núverandi ríkisstjórn er að reyna að bjarga því sem bjargað verður úr þrotabúi græðgishagfræðinnar. Það er erfitt og vanþákklátt starf. Spillingar- og græðgisöflin standa á hliðarlinunni og þykjast vita betur. Það er mikilvægt að næsta skref verði pólitískt uppgjör við þessi öfl, og að þáttur þeirra í hruninu verði kortlagður. Framámenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknar vita hverjum klukkan glymur. Þeir vita að böndin berast að flokkum þeirra þegar orsakir hrunsins verða skoðaðar. Þeir vita að dómurinn verður harður. Það vilja þeir stöðva. Þess vegna vilja þeir fella ríkisstjórnina á icesave málinu.  


mbl.is Glapræði að hafna Icesave-samningi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband