Reykvíkingar beittir misrétti um áratugaskeið

Þegar ég var strákur að alast upp í Reykjavík á 6. áratug síðustu aldar fékk maður oft að heyra að það væri ekki merkilegt að vera bara Reykvíkingur. Á þessum árum voru nánast allir nýfluttir til borgarinnar, og voru í hjarta sínu þingeyingar eða strandamenn. Þulir hjá Ríkisútvarpinu urðu að brjóta með norðlenskum hreim, það var miklu fínna og réttara, en linmæli Reykvíkinga þótti ófínt. Vinsælar barnabækur eftir Ármann Kr. Einarsson (sem kenndi mér í barnaskóla) fjölluðu um Árna nokkurn, sem var úr Reykjavík, en skamaðist sín svo fyrirt það að hann kenndi sig við Hraunkot, þangað sem hann var sendur í sveit. Í einni bókinni sagði eitthvað á þá leið að þegar Árni þessi var á leiðinni í sveitina var það síðasta sem hann sá þegar rútan ók frá Umferðarmiðstöðinni að Reykjavíkurstrákarnir stóðu bak við horn og reyktu. Ég var sendur í sveit norður í land í 3 sumur, þegar ég var 8-10 ára. Þar fékk maður svoleiðis að heyra það fyrir að vera Reykvíkingur, og bændur og búalið var sannfært um að í Reykjavík byggju bara aumingjar og vesalingar.

Ég er þriðja kynslóð Reykvíkinga, er stoltur af því, og gæti aldrei hugsað mér að búa útí sveit eða í einhverju sjávarplássi út á landi. Þessi gamli hugsanagangur bændasamfélagsins, að það sé eitthvað verra að vera frá Reykjavík, endurspeglast í ójafnvægi atkvæða og lýðræðishalla í kosningum. Ef maður býr í norðausturkjördæmi vegur atkvæði manns hátt í tvöfallt miðað við atkvæði frá þéttbýlissvæðunum á suðvesturhorni landsins. Mér er til efs að þetta samræmist mannréttindasáttmálum sem Ísland hefur skrifað uppá. Þessi dæmalausa kjördæmavitleysa endurspeglast síðan í fyrirgreiðslustjórnmálamönnum sem vilja jarðgöng, álver, virkjanir osfr í sín kjördæmi, en gefa skít í þjóðarhag. Valgerður Sverrisdóttir, eða Álgerður eins og hún var kölluð af sumum, barðist hatrammlega fyrir Kárahnjúkavirkjun og álveri í Reyðarfirði, því hún taldi það gott fyrir kjósendur sína á Norðausturlandi. Framkvæmdirnar hleyptu af stað gríðarlegri þennslu vegna fjármagnsinnstreymis, og við erum að greiða nótuna fyrir þá vitleysu í dag. Landsvirkjun rambar á barmi gjaldþrots vegna skuldsetningar í kjölfar Kárahnjúkavirkjunar. Mér er ekki til efs að nýr ráðherra landbúnaðarmála, Jón Bjarnason, verði góður fulltrúi bænda í Húnavatnssýslu og Skagafirði - þaðan sem hann á rætur - en verður hann góður fulltrúi neytenda á suðvesturhorni landsins? Landsbyggðarþingmennirnir eru óeðlilega margir, og hafa óeðlilega mikil áhrif. Þessu verður að breyta. Eðlilegast væri að landið væri allt eitt kjördæmi. Þá gætu flokkarnir raðað á lista þannig að fólk úr öllum landshornum ætti möguleika á því að sitja á þingi, en að vægi atkvæða í kosningum væri jafnt. Hver maður réði einu atkvæði.

Ég er orðin þreyttur á að vera beittur misrétti af landsbyggðinni. Tími Árna í Hraunkoti er liðinn, lifi Reykjavík!


mbl.is Þingið getur útrýmt misvæginu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hjálmtýr V Heiðdal

Ég var sendur í sveit og fékk að vita að börn úr Reykjavík væru heimskari en börn landsbyggðarinnar.

Svo var það viðtekinn tónn í skáldsögum og öðrum ritum að sollurinn ógurlegi væri í Reykjavík - til að spilla saklausum sveitapíum.

Kjaftæði sumra (t.d. forsprakka álverssinna) um elítuna í 101, listapakkið sem aldrei hefur sett hendi í kalt vatn er hluti af þessari afturhaldshugsun.

Svo er til hin hliðin - sveitavargurinn t.d.

Ég er stoltur reykvíkingur í báðar ættir - með rætur á Vestfjörðum, Suðurlandi og Austfjörðum.

Hjálmtýr V Heiðdal, 13.5.2009 kl. 09:52

2 Smámynd: Stefán Jónsson

Ég ætla nú ekki að blanda mér í umræðuna um dreifbýlispakkið vs. Reykjavíkurskrílinn.

En mig langar að koma með smá innskot í umræðuna um "jafnara atkvæðavægi" sem hefur löngum, eðlilega kannski, hvílt á kjósendum og frambjóðendum á höfuðborgarsvæðinu.
Væri það virkilega réttlátt ef 2/3 þingmanna kæmu af höfuðborgarsvæðinu?
Prófið að hugsa málið í víðara samhengi. Viljið þið að Ísland hafi eitt atkvæði hjá Sameinuðu þjóðunum, á móti hverjum 1000 atkvæðum Bandaríkjamanna???

Stefán Jónsson, 13.5.2009 kl. 14:05

3 Smámynd: Hjálmtýr V Heiðdal

Sæll Stefán

Já það væri réttlátt þar sem það er ein leiðin til að auka lýðræðið hér á landi.

Ég skil vel ótta manna á landsbyggðinni að eitthvað fari úrskeiðis við jöfnun atkvæða.

Samanburðurinn við Bandaríkin er villandi - þetta eru samtök ríkja, hver eining er líkt og hver kjósandi hér. Það skiptir ekki máli hvort Vestfirðingur á meiri pening eða sé feitari en ég. Við erum tvær einingar - og eigum að hafa sama rétt. Stærðin skiptir stundum máli - en ekki alltaf.

Hjálmtýr V Heiðdal, 13.5.2009 kl. 14:33

4 Smámynd: Ólafur Ingólfsson

Sælir,

Það er athyglisverð umfjöllun um vægi atkvæða mismunandi kjördæma í 10 ára gömlu þingskjali: http://www.althingi.is/altext/123/s/0141.html. Þar kemur glöggt fram sá lýðræðisvandi sem felst í kjördæmaskiptingunni.

Ólafur Ingólfsson, 13.5.2009 kl. 15:49

5 identicon

Hjartanlega sammála pistlinum.  Maður hefur orðið var við líka í dag (kannski var þetta meira í den) að það þyki ófínna að vera frá Reykjavík. Man sérstaklega eitt nýlegt. Rútubílsstjóri í rútu sem ég var í úti á landi spurði mig brosandi hvaðan ég nú væri, ég sagði Reykjavík og þá fór brosið og hann leit flóttalega undan og samtalið hætti. Þetta bros gaf til kynna að hefði ég verið frá hólmavík þá hefði nú landsbyggðarumræðan og samheldnin "við á móti höfuðborgarsvæðinu" farið í gang ;)    , þessi afstaða stafar einungis af einu, minnimáttarkennd sumra landsbyggðarmanna (sömu manna vel á minnst sem finnst það ekkert sjálfsagðara en að niðurgreiða fullt af hlutum til landsbyggðarinnar sem kemur mest úr vösum höfuðborgarbúa) . Ég verð að játa að ég tók þátt í þessu landsbyggðin: hið sanna ísland og þar sem smjörið drýpur af hverju strái- stemmningu einu sinni og sagðist vera "bara frá R.vík" , kannsi spilar inní að báðir foreldrar mínir eru stoltir norðlendingar(en ég borinn R.víkingur) og norðurland var alltaf fyrirheitna landið í ferðalögum fjölskyldunnar í æsku.

Atkvæði manns í NV-kjördæmi er annars 2.05 á við atkvæði manns úr Kraganum reiknaði einhver maður um kosningarnar. Tvöfalt meira og gott betur! 

Ari (IP-tala skráð) 14.5.2009 kl. 13:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband