Frábiðjum okkur meiru af þeim varningi

Bjarni Benediktsson, vonarbiðill formennsku í Sjálfstæðisflokknum, hafnar því að hörð frjálshyggja hafi ráðið för í stefnu Sjálfstæðisflokksins. Sennilega eru margir sammála mér um það að hún hafi verið alveg nógu hörð og varað alltof lengi. Sjálfstæðismenn voru stöðvaðir í tilraunum sínum til að einkavæða orkufyrirtækin og yfirráð yfir vinnslu og dreifingu hreins vatns. Ef það hefði tekist hefði nýfrjálshyggjumönnunum í Sjálfstæðisflokknum sjálfsagt þótt að rétt skref í frelsisátt hefðu verið stiginn. Við hin viljum ekki sjá þessa stjórnmálastefnu, við höfum engan áhuga á því að Ísland verði draumaland braskara og fjárglæframanna. Þeir hafa haft frítt spil síðasta áratuginn - og sjáið hvert það hefur komið okkur.


mbl.is Hér var ekki hörð frjálshyggja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sorglegur orðstír

Það gildir jafnt um einstaklinga sem samfélög að þau geta ráðið töluverðu um hvaða orðstír fer af þeim. Sjálfsmynd íslendinga segir þeim að þeir séu sjálfstæðir, sókndjarfir, duglegir, nýungagjarnir vinir vina sinna. Útí heimi fer hins vegar af okkur það orðspor að við séum fífldjarfir hrokagikkir sem göslast áfram án þess að skeyta um afleiðingar gerða okkar. Greinin í Vanity Fair endurspeglar þetta. Er þetta verðskuldaður orðstír? Hvað voru íslensku bankarnir að gera, og hvernig brugðust menn á Íslandi við gagnrýni? Hvað finnst umheiminum um hvalveiðar íslendinga, og hvernig er brugðist við því þegar vinaþjóðir okkar lýsa áhyggjum sínum af þeim? Íslendingar hafa aldrei kunnað að hlusta á vinsamlegar ráðleggingar. Við komumst hjálparlaust á heljarþröm, en ættum kanski að sýna örlítið meiri auðmýkt núna þegar við þurfum á aðstoð að halda til að krafla okkur uppúr því forarfeni sem óheilagt bandalag nýfrjálshyggjupólitíkusa og fjárglæframanna hefur komið okkur í. Orðstír okkar í útlöndum er sorglegur - en sennilega verðskuldaður. Því þurfum við að breyta.   
mbl.is Wall Street á túndrunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Athyglisverð sjálfsgagnrýni - en ónóg

Skýrsludrögin, þar sem sjálfstæðismenn viðurkenna ábyrgð á lélegri efnahagsstjórn og að hafa komið Íslandi í kaldakol, eru skýrsludrög. Ég á eftir að sjá sjálfsgagnrýnina koma fram á þennan hátt í lokaskýrslunni. Raunar á ég eftir að sjá Sjálfstæðisflokkinn viðurkenna nokkur mistök. Sjálfsgagnrýnin í skýrsludrögunum er athyglisverð - þar er hið augljósa dregið fram, en það vantar umfjöllun um þá pólitík sem liggur að baki þessarar kolröngu stefnu. Það sem vantar er meira en að viðurkenna hið augljósa, það vantar uppgjör við nýfrjálshyggjuna, þennan lofsöng græðgi og hömlulausrar gróðafíknar. Skyldi sjálfstæðismenn bera gæfu til að skilja samhengið á milli þeirrar hugmyndafræði sem flokkurinn hefur fylgt og efnahagshrunsins?
mbl.is „Flokkurinn þoli stór orð"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Maður í manns stað

Árni M. Mathiesen gefur ekki kost á sér til endurkjörs, og verði engin tæknileg mistök þá sækist væntanlega Árni Johnsen eftir fyrsta sætinu á Suðurlandi - og því að verða ráðherrakandidat ef sjálfstæðismenn komast í stjórn að loknum kosningum. Verði þeim að góðu, en ef til vill ættu þeir að leita víðar fanga um kandidata á lista sína. Kanski Eyþór Arnalds eða Gunnar Örlygsson væru til í prófkjörsslaginn?
mbl.is „Nú fer ég að líta í kringum mig“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samur við sig

Davíð hefur ekkert lært og engu gleymt. Hann heldur að þetta snúist um sig, alsaklausan manninn sem ekki hefur get neitt rangt, og að hann sé fórnarlamb samsæris runnu undan rifjum Baugsfeðga. Það var nöturlegt að horfa á hann í Kastljósi, uppfullan af sjálfsvorkunn og gerandi sig að fórnarlambi. Hverja heldur hann að hann sé að blekkja:

- Hann segist hafa varað við því að bankarnir gætu farið á hausinn og að þeir væru alltof stórir. Í viðtali við Channel 4 í Bretlandi frá 3 mars 2008 segir Davíð íslensku bankana vera trausta og að ríkissjóður bakki upp skuldbindingar þeirra í Bretlandi (icesave). Kíkið á viðtalið á slóðinni http://link.brightcove.com/services/player/bcpid1184614595?bctid=1838513374 

- Það var ríkisstjórn Davíðs Odssonar sem lagði niður Þjóðhagsstofnun og þar með einu stofnun samfélagsins sem gat gefið gott yfirlit um stöðu efnahagsmála á hverjum tíma. Davíð lagði þetta allt í hendur greiningardeilda bankanna.

- Það var ríkisstjórn og flokkur Davíðs Odssonar sem stóð fyrir einkavinavæðingu bankanna sem síðan orsakaði efnahagshrunið 6 árum síðar.

- Það var ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks sem hækkaði lánahlutfall Íbúðarlánasjóðs  og hleypti bönkunum inná íbúðalánamarkaðinn ám þess að skeyta um viðvaranir um að þetta gæti valdið húsnæðisbólu sem gæti orðið afdrifarík.

- Það var ríkisstjórn Davíðs Odssonar sem tók ákvörðun um byggingu Kárahnhjúkavirkjunar sem leiddi til stórkostlegs innflæðis fjármagns í landið og styrkingu íslensklu krónunnar. Í kjölfarið fylgdu jöklabréfin.

- Háir stýrivextir Seðlabankans undir forystu Davíðs Odssonar voru afgerandi fyrir jöklabréfaútgáfuna og í raun tilurð icesave reikninganna.

Fingraför Davíðs eru út um allt þegar orsaka bankahrunsins er leitað, hann ber verulega ábyrgð. Hann sér það ekki, kennir í brjóst um sjálfan sig, sér sig sem fórnarlamb vondra manna. Hann er brjóstumkennanlegur, en það er af öðrum orsökum en hann sjálfur vill trúa...  


mbl.is Davíð í Kastljósviðtali
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Allt var þetta fyrirsjáanlegt

Það sorglegasta við þá skuldagildru sem nú hefur lokast á fjölda þeirra sem keyptu sér húsnæði eftir 2004 er að allt var þetta fyrirsjáanlegt. Það var ljóst að í gangi var fasteignabóla, og að vegna gríðarlegra nýbygginga og uppspennts verðs hlyti húsnæðisverð að falla fyrr eða síðar. Ábyrgir lánveitendur hefðu aldrei lánað 100% af kaupverði, án þess að væntanlegir skuldarar færu í gegnum greiðslumat sem mark væri á takandi. Vandamálið var að stjórnvöld (les Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur) notuðu aukin aðgang að lánsfé til atkvæðakaupa, og raunar var hækkun á lánshlutfalli og íbúðalánum eitt kosningaloforða Framsóknarflokksins. Bankarnir voru óábyrgir með því að veita 100% lán til fólks sem ekki réði við slíkar skuldbindingar þegar fram í sótti. Það var varað við hættunni af þessu, en óábyrg stjórnvöld og gróðafíklarnir í bönkunum skelltu skollaeyrum við. Afleiðingar þessa eru skelfilegar. Fjöldi fólks er í skuldagildru sem það sleppur ekki úr. Það getur tekið mörg ár áður en húsnæðismarkaðurinn réttir úr kútnum. Eftir samskonar fasteingabólu og bankahrun í Svíþjóð á fyrri hluta tíunda áratugs síðustu aldar féll húsnæðisverð um 30-40%, og það tók fasteignamarkaðinn 5-10 ár að jafna sig. Við skulum hafa í huga að kreppan er ekki náttúruhamfarir, heldur afleiðing af röð rangra og óábyrgra ákvarðanna. Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur bera hina pólitísku ábyrgð. Þeir hleyptu þessu af stað.
mbl.is Með húseignir í mínus
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kosningar nauðsynlegar!

Það er ljóst að minnihlutastjórn Samfylkingar og VG getur vart setið í skjóli Framsóknarflokksins. Menn skyldu hafa hugfast að framsóknarmenn standa aldrei í lappirnar nema til að verja sérhagsmuni. Þeir bera ásamt Sjálfstæðisflokknum höfuðábyrgð á efnahagshruninu. Grundvöllurinn var lagður með einkavinavæðingu bankanna og óskynsamlegum ákvörðunum um tilhögun fasteignalánamarkaðarins. Fasteignabólan, sem fest hefur þúsundir ungs fólks í skuldagildru, orskaðist af hækkuðu lánshlutfalli íbúðalánasjóðs og innkomu bankanna á markaðinn. Að koma þessu í kring var eitt kosningaloforða Framsóknarflokksins á sínum tíma. Atkvæðakaup. Framsóknarmenn hafa miklu að tapa á því að það fari fram raunverulegt uppgjör við fortíðina. Auðmaðurinn sem leiðir Framsóknarflokkinn (fjölskylda hans hafði 1,2 milljarða króna í fjármagnstekjur 2007) kemur frá Kögunarveldinu - einni fyrstu einkavinavæðingunni. Skyldi honum finnast einkavinavæðingin hafa verið athugaverð, og skyldi hann vilja uppgjör við það hvernig þjóðarauðurinn var færður í hendur örfárra manna?  
mbl.is Framsókn skekur ríkisstjórnina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skelfilegt ástand - arfleið frjálshyggjunnar

Það er komið að skuldadögum í þrotabúi frjálshyggjunnar. Menn skyldu átta sig á því að þessi hrottalega skuldsetning heimilanna í landinu á sér pólitískar rætur. Ungt fólk hefur um árabil neyðst til að skuldsetja sig til húsnæðiskaupa vegna skorts á leiguhúsnæði og félagslegu húsnæði á viðráðandi verði. Sá skortur er til kominn vegna pólitískra ákvarðanna síðustu áratugina, þar sem stjórnvöld hafa leynt og ljóst unnið gegn félagslegum lausnum á húsnæðismarkaði. Mantra Sjálfstæðisflokksins hefur alltaf verið að "fólk ætti að eiga sitt húsnæði". Vandamálið er bara að fólk á ekki sitt húsnæði nema á pappírunum, heldur er það í eigu lánastofnanna. Pólitíska hugsunin að baki skuldsetningar heimilanna er að geta stjórnað fólki. Sá sem er skuldsettur er ekki frjáls. Stórskuldugt fólk hefur ekki efni á að fara í verkföll eða vera með múður á vinnumarkaði. Sú skelfingarstaða sem nú er að koma upp, þar sem eignir fjölda heimila duga ekki fyrir skuldum, er bein afleiðing nýfrjálshyggjunnar sem hér hefur tröllriðið öllu síðustu árin. Það er eitt mikilvægasta verkefni stjórnvalda næstu árin að reyna að tryggja að verst settu fjölskyldurnar lendi ekki í þroti og missi þak yfir höfuðið, og síðan að leggja áherslu á stóraukið framboð á félagslegu húsnæði á viðráðandi verði.
mbl.is Heimilin skulda 2.000 milljarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ósigur fyrir náttúruvernd

Úrskurður Steingríms J. Sigfússonar um að ekki sé gerlegt að snúa við ákvörðun fyrrverandi sjávarútvefsráðherra um að leifa veiðar stórhvala er ósigur fyrir umhverfisverndarstefnu á Íslandi. Hvalveiðar hafa nánast enga efnahagslega þýðingu fyrir Ísland, en munu valda okkur vandræðum á alþjóðvettvangi. Flest nágrannalönd okkar eru algerlega andsnúin hvalveiðum, og í augum almennings víðast hvar erlendis er litið á hvalveiðar sem villimennsku og tímaskékkju. Við þurfum ekki á því að halda í dag að gefa umheiminum langt nef. Hvalir eru flökkuspendýr og tilheyra okkur ekki frekar en farfuglarnir. Við getum ekki selt okkur sjálfdæmi um það hvort við veiðum hvali, alla vega ekki ef við viljum vera í hópi siðmenntaðra þjóða.  
mbl.is Endurskoðar umhverfi hvalveiða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gott hjá þér Ólína!

Gaman að heyra að Ólína Þorvarðardóttir ætli að gefa kost á sér til þingsetu. Ég treysti henni vel til góðra verka, og vona að kjósendur á Vestfjörðum veiti henni brautargengi.  
mbl.is Ólína ætlar í prófkjör
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband