1.7.2009 | 10:35
Sjálfstæðisflokkur og Framsókn kafsigldu þjóðarskútunni
Icesave er hið versta mál, og það er enginn glaður yfir því að þurfa að fást við afleiðingar þess. Menn eiga sjálfsagt eftir að rífast um það næstu árin hvort samningurinn sem liggur fyrir sé sá besti sem við gátum fengið eða ekki. Hitt er alveg ljóst að íslendingar komast ekki hjá því að standa við skuldbindingarnar gagnvart erlendum sparifjáreigendum. Við verðum að rísa undir þeirri ábyrgð.
Sjálfstæðismenn og Framsókn hafa hátt um þessar mundir og telja ríkisstjórnina vera að steypa Íslandi í glötun með icesave samningnum. Þessi hávaði þeirra pólitískur. Þeir vilja fela þá staðreynd að einkavinavæðing bankanna og pólitísk afglöp ríkisstjórna þessara flokka steyptu Íslandi í glötun. Nú er verið að reyna að ná þjóðarskútunni af því skeri sem stefna ríkisstjórna Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar kom okkur uppá. Nokkur lykilatriði:
- Þeir einkavinavæddu bankana, létu þá í hendur fjárglæframannanna sem kollsigldu öllu.
- Þeir lögðu niður Þjóðhagsstofnun, sem hafði það hlutverk að hafa heildaryfirsýn yfir stöðu efnahagsmála á Íslandi.
- Þeir hleyptu hér af stað botnlausri þennslu með hækkun á lánahlutfalli til fasteignakaupa og vanhugsuðum stóriðjuframkvæmdum.
- Þeir settu bönkunum engar skorður í starfsemi þeirra, og létu þá komast upp með að taka á sig skuldbindingar sem ríkið verður nú að taka yfir.
Nú er komið að skuldadögum. Núverandi ríkisstjórn er að reyna að bjarga því sem bjargað verður úr þrotabúi græðgishagfræðinnar. Það er erfitt og vanþákklátt starf. Spillingar- og græðgisöflin standa á hliðarlinunni og þykjast vita betur. Það er mikilvægt að næsta skref verði pólitískt uppgjör við þessi öfl, og að þáttur þeirra í hruninu verði kortlagður. Framámenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknar vita hverjum klukkan glymur. Þeir vita að böndin berast að flokkum þeirra þegar orsakir hrunsins verða skoðaðar. Þeir vita að dómurinn verður harður. Það vilja þeir stöðva. Þess vegna vilja þeir fella ríkisstjórnina á icesave málinu.
Glapræði að hafna Icesave-samningi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.