Vont og versnar

Fyrir höndum er tími kjaraskérðinga, hækkandi skatta og stórfellds samdráttar í opinberri þjónustu. Það er nótan fyrir að Ísland og íslendingar hafa eytt um efni fram, og við erum nú skuldsettasta þjóð í heimi. Ævintýramennska bankanna og útrásarvíkinganna er einn mikilvægur orsakavaldur kreppunnar, en hitt er líka staðreynd að fjöldi fólks fór allt of glannalega í að skuldsetja sig til fasteignakaupa og neyslu.

Menn eiga eftir að deila um það um ókomin ár hver bar ábyrgð á þessu fylliríi öllu saman, en þegar upp er staðið bera flestir ábyrgð. Stjórnmálamennirnir sem einkavinavæddu bankana og gáfu fjárglæframönnunum lausan tauminn bera mikla ábyrgð. En því má ekki gleyma að þeir kumpánar Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson, sem bera þyngstu ábyrgðina, fengu góða kosningu og stuðning kjósenda í 4 kjörtímabil. Þeir komust meira að segja upp með að draga Ísland inní árásarstríðið gegn Írak án þess að kjósendur refsuðu þeim fyrir. 

Það var varað við þennsluáhrifum Kárahnjúkavirkjunar, og því að stóriðjuframkvæmdirnar gætu reynst okkur dýrkeyptar. Almenningur hlustaði ekki á þær viðvaranir, og Davíð Oddsson komst upp með að leggja niður Þjóðhagsstofnun sem hafði varað við framkvæmdunum. Þar með var engin opinber stofnun sem hafði það hlutverk að hafa heildaryfirsýn yfir stöðu efnahagsmála á Íslandi. Við vorum ofurseld bjartsýnisspámönnunum í greiningardeildum bankanna sem hvöttu til eyðslu og hlutabréfabrasks. Fasteignaverð rauk upp, með tilheyrandi lóðabraski og offramkvæmdum í nýbyggingum. Þeir sem vöruðu við þessu voru kallaðir nöldurseggir sem ekki gætu unað fólki aðgang að lánsfé til að koma sér þaki yfir höfuðið. Það var varað við gengislánum vegna hættunnar á veikingu krónunnar, en bankarnir ýttu þessu að fólki og fjöldi manns valdi að hlusta ekki á viðvaranir. Fólk tók áhættu - og tapaði.

Ástandið er slæmt, og það á sjálfsagt eftir að versna. Nú gildir að læra af mistökum síðustu ára og móta nýja stefnu til framtíðar.  


mbl.is Ný gjöld hækka tíu milljóna króna lán um 50 þúsund
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ingimundur Bergmann

Það er vont og það versnar.... Já, og hvernig skyldi standa á því að við sitjum uppi með hin margumtöluðu ,,jöklabréf", getur verið að það sé vegna hinnar fáránlegu vaxtastefnu Seðlabankans sem gerði það kræsilegt að ávaxta peninga í vaxtaokursparadísinni Íslandi?

Ingimundur Bergmann, 31.5.2009 kl. 21:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband