VG ekki í stöðu til að stoppa ESB viðræður

Það er sennilega trygggur þingmeirihluti fyrir aðildarviðræðum. Þar fara fremstir þingmenn Samfylkingar, en bæði framsóknarmenn og O-listi eru fylgjandi aðildarviðræðum. Og þó Sjálfstæðisflokkurinn sé ófær um að taka afstöðu í málinu myndu einstakir þeingmenn sennilega styðja aðildarviðræður. Þannig er VG ekki í neinni stöðu til að hindra ESB viðræður. Sennilega verður lendingin í málinu sú að VG kyngir andstöðu sinni við að samningsmarkmið verði skilgreind og síðan verði farið út í viðræður, og niðurstöður viðræðna verði síðan bornar undir þjóðaratkvæði. Krafa VG um að haldin verði þjóðaratkvæðagreiðsla um hvort farið verði útí viðræður við ESB er tilraun til að stöðva umræðu um það sem máli skiptir, og Samfylkingin mun ekki láta þá komast upp með það. Steingrímur á völina og kvölina. VG eru vanir því að vera í stjórnarandstöðu, prinsípfastir en áhrifalitlir. Steingrímur og félagar verður að gera upp við sig hvort VG vilji halda þeirri eyðimerkurgöngu áfram eða að samþykkja að vinna við skilgreiningu samningamarkmiða fari í gang og síðan komi aðildarviðræður í kjölfarið.
mbl.is Óbrúuð gjá í ESB-máli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Haraldur Hansson

Rúmur helmingur þjóðarinnar er mótfallinn inngöngu Íslands í ESB. Tæpur helmingur er fylgjandi. Það er ekki gott fyrsta skref að senda umsókn til Brussel um aðild að Evrópusambandinu í óþökk helmings þjóðarinnar.

Það er gæfulegra að láta lýðræðið hafa sinn framgang. Kynna rækilega fyrir þjóðinni hvað ESB er. Þetta er ekki bara spurning um "hvað er í boði" heldur líka hvað það kostar. Aðildarviðræður er ekki eitthvað óformlegt snakk. Fyrst þarf að leggja inn umsókn, sem er formlegur gjörningur. Síðan hefjast viðræður. Þetta er ekki eins og að máta skó.

Það á enginn að leggja inn umsókn um aðild nema hafa til þess ótvírætt umboð frá þjóðinni. Það er umsókn um ríkisborgararétt fyrir 320 þúsund manns í Evrópuríkinu. Úrslit kosninganna veittu ekki þetta umboð.

Haraldur Hansson, 27.4.2009 kl. 08:40

2 identicon

Það er af sem áður var Óli minn, þegar þú stóðst fyrir utan Ríkið og seldir Stéttabaráttuna. Nú viltu leyfa frjálsan aðgang kapitalismans inn í íslenskt hagkefi, eins illa og það kvikindi hefur nú farið með okkur undanfarið. Já það er engu logið upp á ykkur skátana!

Torfi Stefánsson (IP-tala skráð) 27.4.2009 kl. 08:42

3 Smámynd: Ólafur Ingólfsson

Sæll Torfi, getur þú ekki komið með einhver rök í umræðuna í stað þess að reyna að láta hana snúast um mig? Hvað kemur það málinu við hvort ég hafi verið skáti þegar ég var barn eða róttækur unglingur í menntaskóla? Þetta kallast á latínu ad hominem, að reyna að gera manninn tortryggilegan en forðast að ræða málefnin. Á íslensku kallast þetta persónulegt skítkast. Höldum okkur við málefnin.

Ég er alveg sammála Haraldi um að ákvörðun um ESB aðild á að vera lýðræðisleg, og ákvörðunin þarf að byggja á upplýstri umræðu. Að þessur eru nokkrar leiðir, en ég er sannfærður um að við vitum ekki hvað ESB aðild þýðir fyrr en við höfum skilgreint okkar samningsmarkmið (á lýðræðislegan hátt) og ESB hefur kynnt okkur hvaða skyldur og hvaða réttindi fylgja ESB aðild. Þá fyrst sjáum við hvar ber á milli, og getum gert upp við okkur hvort verði greitt hærra verði að standa utan ESB eða verða meðlimir í bandalaginu.

Ólafur Ingólfsson, 27.4.2009 kl. 08:56

4 identicon

ÉG hef ekki enn verið spurður hvort ég sé með eða á móti....

Kallinn (IP-tala skráð) 27.4.2009 kl. 10:48

5 identicon

Viðkvæmur gamli minn? Er einhver skömm að því að hafa verið skáti eða róttækur?

Ég sé heldur ekki að þú komir með nein rök fyrir aðild að ESB, svo komdu fyrst með  rökin, svo skal ég hrekja þau fyrir þér!

Torfi Stefánsson (IP-tala skráð) 27.4.2009 kl. 14:00

6 Smámynd: Ólafur Ingólfsson

Torfi, það er algerlega óviðkomandi þessarri umræðu hvað ég gerði þegar ég var yngri og hvað mér finnst um það í dag. Umræðan snýst ekki um mig. Ég get alveg hitt þig yfir kaffibolla og rætt gamlar minningar einhvern tíma, en nú erum við að ræða stjórnmál dagsins í dag og hvort við eigum að kanna hvað aðild að ESB myndi þýða fyrir Ísland. Ég hef ekki öll rökin með eða á móti aðild, því ég veit ekki hvaða samningsmarkmið Ísland hefur, hvaða skilyrði ESB setur fyrir þáttöku Íslands, eða að hversu miklu leyti ESB væri reiðubúið að koma til móts við kröfur íslendinga. Þegar þetta liggur fyrir getum við rætt málin á upplýstan hátt og tekið afstöðu.

Ólafur Ingólfsson, 27.4.2009 kl. 14:54

7 identicon

Ég spyr nú bara á móti. Til hvers að vera að sækja um aðild ef maður veit ekkert hvað er verið að sækja um? Það hefur heldur aldrei verið gert fyrr af nokkurri þjóð svo ég viti.

Þjóðaratkvæðagreiðslurnar í Noregi (og í Svíþjóð) snérust um það hvort sækja skyldi um aðild eða ekki á þeim forsendum sem þá lágu fyrir - en ekki um skilmálana sem settir voru af hálfu ESB.

Ég held einnig að það liggi nú mjög vel fyrir hvað aðild að ESB hefur í för með sér. Óvissuatriðin eru fá.

Gallarnir eru einkum þeir að lýðræðið líður fyrir þetta. Það er miklu lengri leið til Brussel en til Reykjavíkur fyrir landann. Því skil ég ekki af hverju Borgarahreyfingin vill skoða ESB-aðild þar sem helsta áhugamál þeirra, þjóðaratkvæðagreiðslur, eru ekki leyfðar innan bandalagsins.

Auk þess er Evrópusambandið hreinræktað frjáls-markaðshyggjuhagkerfi þar sem hagsmunir stórfyrirtækja og "atvinnurekenda" eru teknir fram fyrir hagsmuni launafólks. Gott dæmi er nýja þjónustutilskipun sambandsins sem nú er verið að þröngva upp á okkur og Norðmenn. Hið frjálsa, opna markaðskerfi sem þeir prédika er hluti af þessari frjálshyggju.

Í þriðja lagi þá er umhverfisstefna Sambandsins stórhættuleg. Hún byggist á auknum hagvexti og þar með síaukinni neyslu, sem leiðir svo til aukinnar mengunar, ofhitnunar og umhverfistjóns nú þegar aldrei er meiri þörf á ad draga úr neyslu.

Meiri óvissa ríkir um sjávarútvegs- og landbúnaðarstefnuna en samkvæmt nýjustu fréttum verða litlar sem engar undanþágur leyfðar frá núverandi stefnu. Framsókn er svo örvæntingarfull hvað landbúnaðarmálin varðar að hún krefst þess að íslenskur landbúnaður hljóti vernd sem heimsskautafyrirbæri!! Líkindin fyrir að sú krafa nái í gegn, og þar með stuðningur Framsóknar við aðildarumsókn, er nánast engin!

Að sækja fyrst og spyrja svo er því eins ósiðlegt og að skjóta fyrst og spyrja svo. En spurningar um siðferði hefur nú ekki verið að trufla ykkur kratana mikið síðustu misserin, amk ekki í stjórnarsamstarfinu með íhaldinu, svo kannski er ekki nema von að þið látið ennþá svona.

Torfi Stefánsson (IP-tala skráð) 28.4.2009 kl. 16:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband