Stórt umhverfisverndarmál!

Íslendingar leyfa hvalveiðar í krafti þess að þær séu sjálfbærar og ógni ekki hvalastofnum. ESB og fleiri ríki eru alfarið á móti hvalveiðum vegna þess að þær sé ekki hægt að stunda án þess að hvalastofnum sé stefnt í hættu. Menn eru sammála um að vissar hvalategundir, svo sem steypireiður og búrhvalur, eru í útrýmingarhættu af völdum stórfelldra veiða á fyrrihluta síðustu aldar, en hins vegar ber stofnstærð hrefnu og langreiðar veiðar í þeim mæli sem íslendingar og norðmenn stunda. Hvers vegna eru menn þá á móti hvalveiðum íslendinga? Svarið liggur í því að svo lengi sem til er markaður fyrir hvalaafurðir munu friðaðar hvalategundir verða veiddar. Fyrir nokkrum árum voru tekin sýni af hvalkjöti á japönskum fiskmörkuðum, og greining á erfðaefni leiddi í ljós að hluti kjötsins var af hvalategundum sem eru alfriðaðar og bannað að veiða. Það má alveg segja að Íslendingar greiði fyrir stórfelldar hvalveiðar norðmanna og bandaríkjamanna fyrr á öldum, en það voru þessar veiðar sem komu hvalastofnunum í þá stöðu sem þeir eru núna. Vegna þess að aðrar þjóðir hafa ofveitt hval er andstaða við hvalveiðar íslendinga. Óréttlátt? Kanski, en svona er nú raunveruleikinn.

Hvað er til ráða? Eigum við að gefa umheiminum langt nef og segja bara að við berum ekki ábyrgð á bágu ástandi hvalastofna heimsins og þess vegna veiðum við hvali? Íslendingum er ekki stætt á því til lengdar að veiða hval í óþökk nágranna- og vinaríkja okkar. Við getum ekki gefið skít í hvað umheiminum finnst. Við lifum einni plánetu, og á sama hátt og að okkur varðar um hvort regnskógum Amasonsvæðisins sé eytt varðar aðrar þjóðir um hvalveiðar okkar. Hvalir eru flökkuspendýr sem eru við Ísland hluta ársins. Við eigum þá ekki, heldur eru þetta dýr sem tilheyra Norður Atlantshafinu. Því fyrr sem við hættum hvalveiðum, því betra.  Tekjur af hvalveiðum skifta nánast engu máli fyrir efnahag Íslands, en við getum orðið fyrir mjög miklu tjóni ef íslenskar afurðir verða sniðgengnar á mörkuðum erlendis eða ef ferðamenn hætta við að heimsækja Ísland vegna hvalveiða. Menn skyldu ekki vanmeta þann þrýsting sem umhverfisverndarsinnar geta beitt okkur ef við látum ekki af hvalveiðum.

Hvernig væri að skifta um stefnu, hætta að drekkja hálendinu undir uppistöðulón, hætta raska náttúruperlum til að afla rafmagns fyrir álver, og hætta hvalveiðum? Hvernig væri að taka upp raunverulega náttúruverndarstefnu í orði sem á borði?


mbl.is ESB gagnrýnir hvalveiðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Ólafur, þú spyrð hvað sé til ráða? Getum við þá ekki einfaldlega heimtað að ESB komi og sæki hvalina sína sem eru, eins og þú segir flökkudýr, og hingað syntir í okkar óþökk?

Hvað varðar náttúruverndarstefnuna sem þú nefnir, þá gleymist oft að mannskepnan er hluti af náttúrunni. Og ef við megum ekki lifa sem partur af náttúrunni eins og okkar eðli stendur til, hvað á þá að gera við okkur?

Kolbrún Hilmars, 11.4.2009 kl. 20:46

2 Smámynd: Kristján Haukur Magnússon

Kolbrún: sækja þá!? þetta eru hvalir, ekki kettlingar. Persónulega finnst mér þessi gagnrýni frá ESB byggð á misskilningi. Það eitt að segja orðið hvalveiðar segir ekkert um hvaða tegund af hvali er verið að veiða. Það er klárlegt mál samt að við verðum að taka tillit til álits vina- og nágrannaþjóða en við megum heldur ekki leyfa þeim að valta yfir okkur hvenær sem hentar.

Kristján Haukur Magnússon, 12.4.2009 kl. 03:20

3 Smámynd: Ingimundur Bergmann

Fróðlegur og góður pistill hjá þér Ólafur og gaman hvernig þú ferð yfir þetta í sögulegu samhengi.

Víst er það stundum þannig, að maður verður að kyngja niðurstöðu sem ekki er í samræmi við það sem manni finnst rétt og sanngjarnt. Því er það alls ekki víst að rétt sé að veiða hval, ef það er skoðað út frá því sem þú ferð yfir í pistlinum.

En eins og segir í laginu: ,,...mér finnst gaman að veiða lax".

Ingimundur Bergmann, 12.4.2009 kl. 14:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband