Færsluflokkur: Umhverfismál

Goggi galdramaður þyrlar upp moldviðri

Nú heyrir maður af hverjum ruglukollinum á fætur öðrum sem setja fram geðveikislegar tillögur um hvernig stemma megi stigu við hlýnun jarðar. Heyrst hafa hugmyndir um að koma upp risastórum skérmum eða sólhlífum í geimnum eða það nýjasta, að þyrla upp skýjum. Þetta er farið að minna á ruglið á 7. áratugnum, þegar menn voru reyndar hræddir um að það væri að koma ný ísöld. Þá stakk einn galdramaðurinn (bandarískur prófessor, reyndar) upp á því að bræða Grænlandsjökul með því að mála hann svartan. Þá myndi hlýna.

Þekking okkar á veðurfarsþróun er enn sem komið er takmörkuð, og veðurfarskerfin og samspil lofthjúps, vatnhjúps og lífhvols eru gríðarlega flókin. Þetta er ástæða þess að ekki er hægt að spá fyrir um veður með góðri nákvæmni meira en 2-3 daga fram í timann. Öll inngrip í þessi kerfi geta haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar, og eru út í hött. Danski tölfræðingurinn ætti að halda sig við tölfræðina en láta vera að fara með svona rugl í fjölmiðla.

 

 


mbl.is Tilbúin ský gegn hlýnun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frábært framtak!

Það er frábært að SUNN þrýsti á um friðlýsingu Gjástykkis. Svæðið er einstakt, og samtökin benda réttilega á að Kröflueldar og rekviðburðurinn sem tengdist þeim voru um margt mjög lærdómsríkir fyrir skilning okkar á flekahreyfingum. Gjástykki er einstæð nátturuperla, og hana ber að friða.
mbl.is Vilja friðlýsa Gjástykki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Grenivæðingin

Það er verið að breyta stórum landsvæðum á Íslandi í greniskóga. Skógarplöntunum er venjulega plantað í gróið land, og þannig skipt frá túnrækt eða mólendi yfir í skóga. Greniskógar þekja gríðarleg landsvæði á norðurhveli, og eru sennilega víðfemasta vistkerfi jarðar. Greniskógabeltið er fremur fábreytt, og búsvæði hlutfallslega fárra annarra tegunda plantna eða dýra. 

Á Íslandi virðist vera nánast sátt um að það sé hið besta mál að grenivæða landið. Ég er algerlega ósammála þessu. Mér finnst íslenska heimskautatúndran falleg, og nýt þess að hafa gott útsýni til fjalla og dala. Þéttur greniskógur er dimmur, án undirgróðurs. Mér finnst raunar óskiljanlegt að ekki þurfi að setja áætlanir um skógrækt í umhverfismat, þar sem metið er hvaða náttúruverðmæti tapast vegna skógræktar. Íslensk náttúra er mótuð af legu landsins á mörkum hlýrra og kaldra haf- og loftstrauma, auk þess sem eldvirkni (öskufall og hraun) og jöklar setja mark sitt á náttúruna. Náttúrulegt gróðurfar hér er birkiskógur á láglendi, mýrlendi og graslendi, og lágarktisk túndra með blómplöntum, en mosar, grös og hálfgrös í hraunbreiðunum. Greniskógar eru framandi í íslenskri náttúru, og ræktun þeirra leiðir til fábreittari vistkerfa.

Skógrækt á Íslandi getur aldrei orðið raunverulega arðbær. Til þess er vaxtartíminn allt of stuttur. Það tekur tré 100 ár á Íslandi að ná sama umfangi og þau ná á 20-40 árum þar vaxtartími er lengri. Það væri fróðlegt að sjá alvöru arðsemisútreikninga skógræktar, og samanburð á arðsemi skógræktar og annars landbúnaðar eða annarra landnytja.


mbl.is Milljón plöntur á Silfrastöðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lúpínuvitleysan

Ég var að koma úr ferðalagi um suður- og austurströndina. Eitt af því sem stingur í augu og veldur náttúrufræðingnum í mér gremju er yfirgengileg aukning á útbreiðslu lúpínu, nánast svo að tala má um lúpinusprengingu í landinu. Nokkur dæmi: Sandarnir á Suðurlandi, Skógasandur og Mýrdalssandur, eru ekki lengur sandar nema að hluta. Þetta eru gríðarlega víðfemar lúpínubreiður, þar sem lúpínan dreifist hratt út. Ég fór í Bæjarstaðaskóg í Morsárdal, sem er innan Vatnajökulsþjóðgarðsins. Þar var lúpínu sáð fyrir mörgum árum til að loka rofsárum í jarðvegi ofan við skóginn. Nú er lúpínan búin að leggja undir sig sandana framan við og neðan við skóginn. Þar sem áður var mólendi með grösum og blómplöntum ýmiskonar eru nú víðfemar lúpínubreiður. Maður sá víði og hvönn umlukta lúpínu, og öll rjóður í skóginum voru undirlögð henni. Jökulgarðar framan við Svínafellsjökul eru bláir af lúpínu. Þá er lúpína víða upp um allar hlíðar í Skaftafellssýslum, og á Héraði hefur lúpínu verið sáð með vegum, meira að segja í Hallormsstaðaskógi.

Lúpínan er ekki íslensk tegund, heldur flutt inn frá Alaska. Landgræðslan hefur notað lúpínuna til að binda jarðbeg og hindra sandfok. Þetta hefur þó farið úr böndum. Lúpínan sér nú sjálf um að dreifa sér, og er að taka yfir gróðurlendi þar sem henni var aldrei ætlaður staður. Hún er að breyta ásýnd landsins, og útbreiðsla hennar virðist vera á kostnað mólendis- og melagróðurs. Lúpínan er ágeng, og fáar íslenskar plöntutegundir virðast geta keppt við hana þar sem hún fær fótfestu. Ísland er land jökla, sanda, mela og auðna. Íslenskar auðnir búa yfir sérstakri fegurð. Íslenskur mela- og mólendisgróður er fjölbreyttur og veitir fjölda skordýra- og fuglategunda skjól. Lúpínubreiðurnar eru fábreyttar og einsleitar, framandi í náttúru Íslands. Með útbreiðslu lúpínu í þjóðgörðum landsins er verið að breyta náttúrufari á hátt sem vinnur gegn friðunarmarkmiðum þjóðgarða. Það verður að gera átak til að útrýma lúpínunni úr Vatnajökulsþjóðgarðinum, og það þyrfti að ræða hvort ekki ætti að banna notkun lúpínu við landgræðslu. 


Að eyðileggja náttúruperlu

Sólheimajökull er mikil náttúruperla í nágrenni Reykjavíkur. Jökullinn hefur verið að hörfa frá árinu 1996, og við hörfunina hafa komið fram margvísleg landform og setlög sem segja sögu um botnskrið jökulsins og hreyfingar jökulsporðs. Svæðið framan við jökulinn hefur verið eins og kennslubók í jöklajarðfræði, og þar hefur mátt sjá jökulgarða, jökulöldur, jökulkembur, hörfunargarða, jökulhlaupaset (frá jökulhlaupi 1999), jaðarpalla, jökulása og fleira. Námskeið í jöklajarðfræði við Háskóla Íslands hafa árlega verið haldin við jökuljaðarinn, og þangað hafa líka leitað náttúruvísindamenn og jarðfræðingar frá öðrum löndum.

Jökullinn hefur líka verið spennandi áningarstaður ferðamanna. Fyrir 3 árum ákvað bæjarstjórn Víkur í Mýrdal að bæta aðgengi ferðamanna að jöklinum. Farið var með jarðýtu og gerð vegaslóð frá þáverandi bílastæði inn fyrir jökulgarðana frá 1995 (sem marka útbreiðslu jökulsins áður en hann byrjaði að hörfa). Gert var nýtt bílastæði rétt utan við jaðarstöðu jökulsins frá 2002. Fjallað var um málið í umhverfisnefnd Víkur, en þar komust menn að því að þetta væri bara möl og sandur, og því allt í lagi að gera þessar framkvæmdir. Það var enginn skilningur á því að með framkvæmdunum væri verið að eyðileggja hörfunagarða frá árunum 1995-2002, né heldur áttuðu menn sig á því að með framkvæmdunum væri verið að oppna leið fyrir utanslóðaakstur framan við jökulinn. Bílastæðið var sett niður á svæði með fallegum jökulkembum sem komið höfðu fram við jökulhörfunina. En, þetta er jú bara möl og sandur. 

Nú heimsækja Sólheimajökul þúsundir ferðamanna árlega, og fyrirtæki sérhæfa sig í því að fara með fólk uppá jökulinn. Þar er engin hreinlætis- eða snyrtiaðstaða, og menn geta gert sér í hugarlund hvort margir þeirra yfir 60.000 ferðamanna sem þangað koma þurfi ekki að komast á náðhús - og hvar þeir gera stykki sín þegar náðhús vantar. Torfærutröll hafa farið út fyrir slóðann inn að bílastæðinu, og sjá má hjólför eftir jeppa og torfærumótorhjól þvers og kruss um svæðið. Þá eru ummerki um allt svæðið með fótsporum og slóðum, þvers og kruss. Náttúrugildi svæðisins hefur stórminkað vegna þessara skemmdarverka, sem eru afurð heimskulegra ákvarðanna misvitra sveitastjórnarmanna og þrýstihópa úr ferðamannaiðnaðinum sem vilja helst geta keyrt með ferðamenn upp að jöklinum. Sólheimajökull er sorglegt dæmi um hvernig náttúruperla hefur verið eyðilögð til að þjóna skammtímahagsmunum.

Hvað hefði mátt gera? Með göngustígum og fræðslu hefði svæðið framan við Sólheimajökul getað verið kennslubók í jöklajarðfræði, þar sem skoða hefði mátt ferli og afurðir jökulvirkni. Jökullinn er líka gott dæmi um hörfun jökla vegna loftslagshlýnunnar, og gæti sem slíkur verið gríðarlega áhugaverður áningarstaður þar sem fræðslu um afleiðingar loftslagsbreytinmga hefði mátt koma á framfæri. Setja hefði mátt upp náttúrustofu sem miðlaði upplýsingum til gesta. Náttúrusaga Íslands er að hluta skráð í möl og sand. Að eyðileggja svæðið framan við Sólheimjökul á þeim forsendum að þetta sé bara möl og sandur minnir á það þegar ólæsir íslendingar eyðilögðu handritin, því það voru jú bara skinnpjötlur. Það ætti að gera þá kröfu til sveitarstjórnarmanna sem taka svona ákvarðanir að þeir leiti til fólks sem getur lesið náttúrusögu Íslands um ráðgjöf áður en jarðýturnar eru sendar af stað.

Þeir sem vilja kynnast svæðinu (áður en það var eyðilagt) geta heimsótt vefsvæðið: http://www3.hi.is/~oi/solheimajokull_photos.htm


Lífríki Jarðar undir gríðarlegu álagi

Það er sama hvar borið er niður, gengdarlaus hagvöxtur og neysla nútímasamfélagsins ógnar lífríki jarðar. Náttúrulegum búsvæðum plantna og dýra er eytt, skógar höggnir, neysluvatni spillt, láð og lögur mengað. Það er talið að 3-4 tegundir lífvera deyi út á klukkutíma vegna athafna manna, og skógareyðing á klukkustund er uppá 1-2 hektara. Ef allir jarðarbúar hefðu neyslumynstur vesturlanda þyrftum við 2-3 plánetur til að seðja hráefnahungur mannkyns. Þetta gengur náttúrulega ekki upp til lengdar, og þessu verður að breyta. Ein jákvæð áhrif kreppunnar sem nú ríður yfir heiminn er að þrýstingi á lífríki léttir tímabundið á vissum stöðum. Lausnin á þeim umhverfisvanda sem steðjar að jörðinni er meiri jöfnuður í neyslu. Það þýðir óhjákvæmilega að vesturlandabúar verða að breyta neyslumynstri sínu, minka sókn sína í hráefni og lífsgæði. Það er alveg eins gott að byrja strax. Fyrsta skrefið á Íslandi gæti verið að hætta við áform um frekari álversvæðingu. Við þurfum ekki að fórna náttúruperlum til að hægt sé að framleiða fleiri áldósir fyrir Bandaríkjamarkað. Aukum umfang umhverfismats fyrir stóriðjuframkvæmdir, og bætum við spurningunni "eru fyrirhugaðar framkvæmdir jákvæðar fyrir lífríki jarðar og komandi kynslóðir?"
mbl.is Lifnaðarhættir áttunda áratugarins til bjargar jörðinni?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stórt umhverfisverndarmál!

Íslendingar leyfa hvalveiðar í krafti þess að þær séu sjálfbærar og ógni ekki hvalastofnum. ESB og fleiri ríki eru alfarið á móti hvalveiðum vegna þess að þær sé ekki hægt að stunda án þess að hvalastofnum sé stefnt í hættu. Menn eru sammála um að vissar hvalategundir, svo sem steypireiður og búrhvalur, eru í útrýmingarhættu af völdum stórfelldra veiða á fyrrihluta síðustu aldar, en hins vegar ber stofnstærð hrefnu og langreiðar veiðar í þeim mæli sem íslendingar og norðmenn stunda. Hvers vegna eru menn þá á móti hvalveiðum íslendinga? Svarið liggur í því að svo lengi sem til er markaður fyrir hvalaafurðir munu friðaðar hvalategundir verða veiddar. Fyrir nokkrum árum voru tekin sýni af hvalkjöti á japönskum fiskmörkuðum, og greining á erfðaefni leiddi í ljós að hluti kjötsins var af hvalategundum sem eru alfriðaðar og bannað að veiða. Það má alveg segja að Íslendingar greiði fyrir stórfelldar hvalveiðar norðmanna og bandaríkjamanna fyrr á öldum, en það voru þessar veiðar sem komu hvalastofnunum í þá stöðu sem þeir eru núna. Vegna þess að aðrar þjóðir hafa ofveitt hval er andstaða við hvalveiðar íslendinga. Óréttlátt? Kanski, en svona er nú raunveruleikinn.

Hvað er til ráða? Eigum við að gefa umheiminum langt nef og segja bara að við berum ekki ábyrgð á bágu ástandi hvalastofna heimsins og þess vegna veiðum við hvali? Íslendingum er ekki stætt á því til lengdar að veiða hval í óþökk nágranna- og vinaríkja okkar. Við getum ekki gefið skít í hvað umheiminum finnst. Við lifum einni plánetu, og á sama hátt og að okkur varðar um hvort regnskógum Amasonsvæðisins sé eytt varðar aðrar þjóðir um hvalveiðar okkar. Hvalir eru flökkuspendýr sem eru við Ísland hluta ársins. Við eigum þá ekki, heldur eru þetta dýr sem tilheyra Norður Atlantshafinu. Því fyrr sem við hættum hvalveiðum, því betra.  Tekjur af hvalveiðum skifta nánast engu máli fyrir efnahag Íslands, en við getum orðið fyrir mjög miklu tjóni ef íslenskar afurðir verða sniðgengnar á mörkuðum erlendis eða ef ferðamenn hætta við að heimsækja Ísland vegna hvalveiða. Menn skyldu ekki vanmeta þann þrýsting sem umhverfisverndarsinnar geta beitt okkur ef við látum ekki af hvalveiðum.

Hvernig væri að skifta um stefnu, hætta að drekkja hálendinu undir uppistöðulón, hætta raska náttúruperlum til að afla rafmagns fyrir álver, og hætta hvalveiðum? Hvernig væri að taka upp raunverulega náttúruverndarstefnu í orði sem á borði?


mbl.is ESB gagnrýnir hvalveiðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ósigur fyrir náttúruvernd

Úrskurður Steingríms J. Sigfússonar um að ekki sé gerlegt að snúa við ákvörðun fyrrverandi sjávarútvefsráðherra um að leifa veiðar stórhvala er ósigur fyrir umhverfisverndarstefnu á Íslandi. Hvalveiðar hafa nánast enga efnahagslega þýðingu fyrir Ísland, en munu valda okkur vandræðum á alþjóðvettvangi. Flest nágrannalönd okkar eru algerlega andsnúin hvalveiðum, og í augum almennings víðast hvar erlendis er litið á hvalveiðar sem villimennsku og tímaskékkju. Við þurfum ekki á því að halda í dag að gefa umheiminum langt nef. Hvalir eru flökkuspendýr og tilheyra okkur ekki frekar en farfuglarnir. Við getum ekki selt okkur sjálfdæmi um það hvort við veiðum hvali, alla vega ekki ef við viljum vera í hópi siðmenntaðra þjóða.  
mbl.is Endurskoðar umhverfi hvalveiða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stöðva hvalveiðar!

Íslendingar ættu að hætta öllum áformum um hvalveiðar. Fyrir því liggja margvísleg rök. Alþjóðasamfélagið er á móti hvalveiðum, og það mun baka okkur mikla óvild ef við höldum áformum um veiðarnar til streitu. Við þurfum að fara í aðildarviðræður við Evrópusambandið, og ef við erum að stunda hvalveiðar mun það skapa þröskuld í samskiptum okkar við Evrópuþjóðir. Það þýðir ekkert að segja að þessu ráðum við sjálfir. Við lifum í heimi þar sem við verðum að taka tillit til sjónarmiða annarra. Hvalir eru flökkuspendýr, sem koma inní íslenska efnahagslögsögu á sumrin. Við eigum ekki þessi dýr. Við þurfum ekki á hvalveiðum að halda til að mæta erfiðu efnahagsástandi. Hvalveiðar munu skila sáralitlum útflutningstekjum (innan við 2% af verðmæti útfluttra sjávarafurða). Við gætum verið að fórna stærri hagsmunum fyrir minni með hvalveiðunum. það hefur verið bent á að hvalaskoðunarferðamennska og hvalveiðar fari ílla saman, en ferðamennskan er einn helsti vaxtabroddur þjónustu á Íslandi. Það er ekki hægt að nota efnahagsleg rök fyrir því að stöðugt níðast á náttúrunni. Kreppan gefur ekki opið leyfi til að hlaupa í hvalveiðar, stórvirkjanir eða álversframkvæmdir. Slíkt er ótrúleg skammsýni. Það verður að taka tillit til náttúruverndarsjónarmiða.
mbl.is Vond stjórnsýsla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Klaufalega þýdd frétt

Það er augljóst að jmv sem þýðir fréttina er ekki með Suðurskautslandið og keisaramörgæsir alveg á hreinu, og útkoman er klaufaleg frétt sem að hluta til gefur rangar upplýsingar. Hvers vegna er birt mynd af Adelie mörgæsum í frétt um keisaramörgæsir? Það er svipað og birta mynd af straumönd í frétt um heiðagæsir. Terre Adelie er franska nafnið á Adelielandi (terre þýðir land). Hvers vegna ekki nota Adelieland, og sleppa frönskunni? Stofnstærð keisaramörgæsa á Suðurskautslandinu er talinn vera yfir 400.000 fuglar, ekki 6000 eins og segir í fréttinni. Það kann að vera að það hafi verið 6000 fuglar í varpinu sem rannsakað var, en það eru meira en 40 varpstaðir keisaramörgæsa á Suðurskautslandinu, og stofnstærð fuglanna er yfir 400.000. Mogginn ætti að vanda sig aðeins betur, og láta fréttamenn með smá bakgrunn í náttúrufræði þýða fréttaskeyti sem þetta.... 
mbl.is Keisaramörgæsir í hættu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband