Færsluflokkur: Umhverfismál

Ferðamálasamtök útá þekju

Ferðamálasamtök Suðurnesja hafa að frumkvæði formanns samtakanna, Kristjáns Pálssonar, hreyft þeirri hugmynd að hreindýr verði sett niður að nýju á Reykjanesi. Markmið þessa er að auðga dýralíf svæðisins og draga að ferðafólk sem geti notið þess að sjá hreindýr í sínu náttúrulega umhverfi. Hreindýrum var sleppt á Reykjanesi í tvígang á 18 öld, og gengu þar villt en stofninn dó út í byrjun 20 aldar. Það er ýmislegt að athuga við þessa hugmynd Ferðamálasamtaka Suðurnesja: Í fyrsta lagi Reykjanes ekki náttúrulegt umhverfi hreindýra. Það mætti alveg eins flytja inn mörgæsir og sleppa undir Krísuvíkurbjargi í því skyni að auðga dýralíf og laða að ferðamenn. Í öðru lagi er Reykjanes ílla farið af ofbeit öldum saman, og gróðurlendi þar þola vart aukið álag af völdum beitar og traðks. Minkandi sauðfjárbeit undanfarin 10-20 ár hefur haft mjög jákvæð áhrif á gróðurframvindu á Reykjanesi, en það væri stórt skref áftur á bak að flytja þangað hreindýr. Í þriðja lagi er Reykjanes einstök náttúruperla sem okkur ber að standa vörð um, ekki "betrumbæta" með því að sleppa þar lausum framandi dýrategundum.

Maður veltir stundum fyrir sér hvort sú umræða um náttúruvernd sem farið hefur fram á síðustu árum hafi farið algerlega fram hjá sumum í þjóðfélaginu. Hugmyndir Kristjáns Pálssonar eru alvarleg tímaskékkja, og í anda þeirrar stefnu sem iðkuð var á 19. öld; að betrumbæta náttúruna manninum til gagns og gleði. Norðmenn fluttu, í anda þessrar stefnu, sauðnaut til Noregs og Svalbarða, og á Íslandi voru uppi hugmyndir um að flytja inn snæhéra frá Grænlandi. Það var í anda sömu stefnu sem menn gróðursettu greni og furu í Þingvallaþjóðgarðinum á síðustu öld, til að betrumbæta því birkiskógurinn var ekki nógu fínn. Ef menn vilja veg ferðamennsku meiri á Suðurnesjum væri mikið nær að byggja á því sem Reykjanesið hefur nú þegar. Það eru uppi hugmyndir um eldfjallaþjóðgarð á Reykjanesi. Svæðið er einstakt í heiminum að því leiti að þar er að finna á tiltölulega litlu svæði allar gerðir eldvarpa sem fyrirfinnast í heiminum: megineldstöðvar, dyngjur, eldborgir, gígaraðir, sprengigígar, móbergshryggir, rekbelti og sigdalur á flekaskilum. Reykjanesið er einstök náttúruperla sem okkur ber að varveita - ekki eyðileggja með frekari virkjanaframkvæmdum og tilheyrandi raski, eða með því að setja þar niður hreindýr. Náttúruverndarsinnar þurfa að taka höndum saman um að stöðva þessi nátttröll í Ferðamálasamtökum Suðurnesja. Við viljum ekki hreindýr á Reykjanes frekar en mörgæsir undir Krýsuvíkurbjargi. eða snæhéra og sauðnaut á hálendinu.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband