27.11.2008 | 14:04
Ráðaleysi ráðamanna - vanhæfni eða heimska?
Það hefur vakið furðu margra hversu ráðalausir ráðamenn hafa verið í hremmingum undanfarinna vikna. Það virðist ekki hafa hvarflað að þeim neitt annað en að ástandið eins og það var orðið fyrir bankahrunið myndi reddast af sjálfu sér. Fasteigna- og hlutafjárbólan myndi bara hjaðna hægt og rólega án þess að af því hlytust veruleg óþægindi. Þeim er auðvitað vorkunn, því allir helstu hagspekingar landsins (flestir á mála bankanna og stórfyrirtækja, og margir á fullu í fjármálabraski) voru snöggir að sýna á sér klærnar ef einhver vogaði sér að gagnrýna bjartsýnisspár greiningardeilda bankanna. Það er eins og ráðamenn hafi lifað í einhverjum gerviheimi, án tenginga við fortíðina eða framtíðarsýnar. Þetta er ekki fyrsta bankakreppa veraldarsögunnar, og það eru gömul sannindi að þegar menn skuldsetja sig upp fyrir haus hlýtur að koma að skuldadögum. Þegar blaðran sprakk vissu ráðamenn ekki sitt rjúkandi ráð, og afsökuðu sig með því að þetta væru hamfarir sem hafi gerst án þess að þeir fengju rönd við reist. En þetta voru engar náttúruhamfarir. Ástandið er afleiðing pólitískra ákvarðanna sem oppnuðu fyrir að auðmenn og vildarvinir gætu farið að egin geðþótta með eignir og framtíð þjóðarinnar. Pólíska ábyrgðin liggur fyrst og síðast hjá ríkisstjórnum Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar. Virðingarleysi ráðamanna fyrir velferð almennings og skeytingarleysi um að setja græðgisvæðingunni skorður leiddu síðan þjóðina á heljarþröm. Fjármálaráðherra Svíþjóðar á tímum bankakreppunnar þar í landi í upphafi 10 áratugs síðustu aldar, Göran Persson, skrifaði bók sem hafði tiltilinn "Sá sem skuldar er ekki frjáls". Óskandi væri að hagfræðingar Íslands hefðu lesið hana í stað þess að læra utanað síbyljurnar frá greiningardeildum bankanna. Þá hefðu Íslendingar ef til vill sloppið við að verða hnepptir í ánauð skuldabyrða um ókomna framtíð.
14.11.2008 | 16:22
Fíllinn tók joðsótt og fæddi mús
Ég beið spenntur eftir blaðamannafundi að loknum fundi miðstjórnar og þingflokks Sjálfstæðisflokksins kl 14:30 í dag, og átti kanski von á einhverri stefnubreytingu í Evrópumálum. Nei, hvílíkt spennufall. Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að flýta landsfundi sínum og byrja að ræða Evrópumálin. Síðan ítrekaði Geir Haarde að afstaða hans til Evrópusambandsins væri óbreytt, og Þorgerður varaformaður fullvissaði okkur um að það væri enginn ágreiningur milli hennar og formannsins. Það er átakanlegt að sjá ráðaleysi Sjálfstæðisflokksins. Þeir hafa siglt þjóðarskútunni uppá skér, frjálshyggjan hefur engin svör, þeir koma sér ekki til að fjarlægja Davíð úr seðlabankanum og hafa engin úrræði að bjóða þjóðinni uppá - önnur en að flýta landsfundi Flokksins. Skelfing er þetta nöturlegt.
Í Ameríku segja þeir: We have Barack Osama, Bob Hope and Johnny Cash. Á Íslandi segjum við: We have Mr Haarde, No Hope and No Cash!
Góða helgi