7.1.2009 | 13:21
Vegferð Ísraels er vörðuð ódæðisverkum
Mannkynssagan er vörðuð ódæðisverkum, og sumar þjóðir hafa skarað fram úr í þessu tilliti. Frá síðustu öld minnast menn umsátra nasistaherjanna um Stalíngrad og Leningrad, sem kostuðu hundruði þúsunda manna lífið. Loftárásir fasista á Guernica í spænsku borgarastyrjöldinni voru gerðar ódauðlegar í frægu málverki Picassos. Sprengjuárásir bandamanna á Hamborg og Dresden voru ódæðisverk sem fyrst og fremst drápu og limlestu óbreytta borgara. Árás japana á Kína leiddi til þess að milljónir óbreyttra borgara dóu. Loftárásum bandaríkjamanna á Hanoi í lok Vietnamstríðsins var líka beint gegn óbreyttum borgurum. Umsátrið um Sarajevo og fjöldamorðin í Srebrenica í austurhluta Bosníu eru flestum enn í fersku minni, en þar voru þúsundir múslíma myrtir af serbum.
Listinn er auðvitað mikið lengri, en ódæðisverkin eiga það sammerkt að markmið þeirra hefur verið að brjóta baráttuvilja almennings á bak aftur. Þetta hefur alltaf mistekist, og dómur sögunnar hefur verið harður. Minningin um ódæðisverkin hefur lifað, árásaraðilanum til ævarandi minkunar og skammar. Saga Ísraels er vörðuð ódæðisverkum. Begin, fyrrverandi forsætirráðherra Ísraels, og fleiri forystumenn Ísraels, voru eftirlýstir hryðjuverkamenn þegar Palestína var breskt verndarsvæði. Við stofnun Ísraelsríkis voru hundruð þúsunda palestínumanna rekin á flótta með kerfisbundnum fjöldamorðum. Innrás ísraelsmanna í Líbanon var vörðuð fjöldamorðum, þau verstu voru framin í flóttamannabúðum palestínumanna í Beirút þegar hundruðir óbreyttra borgara voru vegnir. Sharon, þáverandi stjórnandi innrásarherjanna var sakfelldur af rannsóknarnefnd ísraelska þingsins fyrir ábyrgð á fjöldamorðunum (hann hætti sem herforingi, en varð forsætisráðherra nokkrum árum síðar).
Nú bæta ísraelsmenn enn einum kafla í þessa blóði drifnu sögu, með fjöldamorðum og eyðileggingu á Gaza. Þeir segja þetta snúast um að stöðva framferði Hamas. En þeir byrjuðu á þessu 40 árum áður en Hamas var stofnað, og hafa verið að í 60 ár. Þeir myndu ekki hætta þessu þó Hamas samtökin hyrfu. Þetta snýst nefnilega um hernám Ísraels á palestínsku og sýrlensku landi, landsvæði sem Ísrael hernam í árásarstríði á hendur nágrönnum sínum 1967. Þeir hafa síðan fest hernámið í sessi með því að hleypa landtökumönnum inná hernumin svæði og kerfisbundið takmarkað möguleika palestínumanna til að lifa í egin landi. Palestínumenn lifa undir ofbeldisfullu hernámi Ísraels sem bara verður verra og verra. Nú byggja þeir aðskilnaðarmúr til að reyna að festa í sessi hernámið og rán sitt á landi. Lausn deilna í miðausturlöndum er í raun einföld og á hana er bent í fleiri ályktunum Sameinuðu Þjóðanna: að ísraelsmenn skili öllu herteknu landi og hverfi inn fyrir landamærin frá 1967. Það vilja þeir ekki, þess vegna er ekkert lát á ofbeldinu og ódæðisverkunum gagnvart palestínumönnum. Það er ein sorgarsaga hvernig Bandaríkjamenn hafa staðið að baki Ísrael og stutt og afsakað ódæðisverkin.
Lönd og þjóðir fá þegar upp er staðið þann orðstír sem þau eiga skilið. Vegferð Ísraels er vörðuð ofbeldi og ódæðisverkum. Framferði ísraelsmanna verður ekki stöðvað nema þjóðir heimsins láti þá njóta sannmælis sem hryðjuverkamenn. Það verður að stöðva þessa hrotta!
7.1.2009 | 11:19
Morgunblaðið og Evrópumálin
Morgunblaðið hefur um árabil stært sig af því að vera blað allra landsmanna - en kanski ekki alltaf komið fram sem slíkt. Á köflum hefur blaðið verið grímulaust málgagn fyrir valdaöfl Sjálfstæðisflokksins, og í undanfara kosninga hefur blaðið yfirleitt stutt Flokkinn leynt og ljóst. Á valdatíma Davíðs Oddssonar var þetta sérstaklega áberandi. En Morgunblaðið er eina raunverulega dagblaðið á Íslandi - Fréttablaðið er fyrst og fremst auglýsingablað fyrir Baugsveldið, og hefur ekki mikinn metnað sem sjálfstæður og gagnrýnin fjölmiðill. Lesendur eiga að gera meiri kröfur til Morgunblaðsins en Fréttablaðsins. Nú er umræðan um Evrópumál í brennidepli, og þó það svíði í sálinni fyrir gamlan vinstri mann að hrósa Mogganum, verður að segjast að kynning þeirra á Evrópumálunum síðustu dagana er til fyrirmyndar. Það er mikilvægt að almenningur fái upplýsingar um Evrópumál til að geta vegið og metið kosti og galla hugsanlegrar Evrópusambandsaðildar. Grunnur lýðræðisins er upplýst umræða, og hér er mikið í húfi.
6.1.2009 | 17:24
Sjálfstæðisflokkurinn er ófær um að veita forystu í utanríkismálum
![]() |
Fordæma Hamas og Ísraelsher |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
6.1.2009 | 13:46
Hryðjuverkaríki
Það er með ólíkindum að ríki heims skuli ekki stöðva hryðjuverk ísraelsmanna á Gaza. Ísrael kemst upp með að þverbrjóta alþjóðalög með árásum sínum á hernumda íbúa Palestínu. Ísrael byggir á aðskilnaðarstefnu, þar sem palestínumenn eru sviptir grundavallarmannréttindum en þurfa að búa við ofbeldi hernámsveldisins. Gaza er stærsta fangelsi í heimi, þar sem 1,5 milljónum palestínumanna er haldið í herkví. Hernaður ísraelsmanna miðar ekki bara að því að stöðva hernaðararm Hamas hreyfingarinnar, heldur að því að eyðileggja alla möguleika palestínumanna til að eiga framtíð í landi sínu. Þannig er ráðist á skóla, menningarstofnanir, vatnsveitur, opinberar stofnanir og fyrirtæki, og þau lögð í rúst með sprengiárásum. Lang flestir dauðra og særðra eru óbreyttir borgarar, meðal þeirra fjöldi barna og unglinga. Innrásin hefur nú þegar kostað yfir 100 börn lífið.
Það þarf að líta aftur til seinni heimsstyrjaldarinnar til að finna samsvarandi íllvirki og hrottaskap. Þá lokaði þýska hernámsliðið gyðinga inn í gettóinu í Varsjá, og þegar þeir reyndu að bíta frá sér var ráðist gegn þeim með skriðdrekum og loftárásum. Það voru hersveitir SS sem þar unnu níðingsverkin, lögðu gettóið í rúst og felldu fjölda óbreyttra borgara. Fyrir þetta voru menn kærðir fyrir stríðsglæpi og sakfelldir í Nürnbergréttarhöldunum að stríðinu loknu. Gegndarlaust ofbeldi ísraelsmanna gagnvart hernumdum íbúum Gaza eru brot á alþjóðalögum og þeir sem fyrirskipa aðgerðirnar eru stríðsglæpamenn. Þá ætti að draga fyrir rétt og dæma.
Alþjóðadómstóllinn í Haag réttar nú yfir herforingjunum sem báru ábyrgð á fjöldamorðum í Bosníu og umsátrinu um Sarajevo í Balkanskagastríðinu fyrir 10 árum. Hvað er það sem skilur milli glæpaverka nasista í Póllandi og víðar, serba í Bosníu og ísraelsmanna á Gaza? Jú, ísraelsmenn fara sínu fram í skjóli Bandaríkjanna, sem verja þá bindandi ályktunum frá öryggisráði Sameinuðu Þjóðanna. Raunar verja Bandaríkin ekki bara Ísrael fyrir því að alþjóðasamfélagið grípi til aðgerða gegn Ísrael. Bandaríkin borga fyrir hernaðinn. Ef menn halda að Ísrael fjármagni 4. stærsta her í heimi með því að flytja út appelsínur þá er það misskilningur. Ef ekki kæmi til stórfelldur fjárstuðningur frá Bandaríkjum væri Ísrael gjaldþrota.
Ef alþjóðasamfélagið lætur ísraelsmenn komast upp með hryðjuverkin á Gaza og áframhaldandi ólöglegt hernám Palestínsks lands hafa alþjóðalög enga merkingu og mannúðarstefna hefur beðið skipbrot. Það sem þarf eru þvingunaraðgerðir af því tagi sem komu aðskilnaðarsinnum í Suður Afríku á kné. Útiloka þá frá alþjóðlegum samskiptum, neita að kaupa vörur eða eiga viðskipti við landið, og neita að eiga menningarleg eða stjórnmálaleg samskipti við Ísrael. Ríki sem þverbrýtur alþjóðalög hefur ekkert að gera í samfélagi þjóðanna. Hrotta á að stöðva. Hrottar skilja ekki vinsamlegt tiltal, þá verður að stöðva með þvingunum. Fyrsta skrefið gæti verið að lýsa því yfir að stuðningur Íslands við stofnun Ísraels á fimmta áratugnum hafi verið mistök, Ísrael sé hryðjuverkaríki sem byggi á hernámi og ofbeldi, og því slítum við stjórnmálasambandi við Ísrael.
5.1.2009 | 16:53
Þorpsfíflið dansar
4.1.2009 | 14:34
Ánauðugir skuldarar
Skuldsettur maður er ekki frjáls. Skuldari getur ekki ráðið lífi sínu að vild, heldur verður að miða allt við að standa í skilum og lúta skilmálum skuldareiganda. Íslendingar hafa kerfisbundið verið hnepptir í skuldaánauð. Það hefur verið stefna stjórnvalda (les Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks) að fólk skyldi "eiga" húsnæði sitt. Vegna lítils framboðs á félagslegu húsnæði og leiguhúsnæði hefur ungt fólk verið neytt út á fasteignamarkaðinn, þar sem lögmál frumskógarins hafa gillt. Yfirvöld hafa ýtt undir starfsemi byggingafyrirtækja og fasteignabraskara leynt og ljóst með alls kyns fyrirgreiðslum við lóðaúthlutanir og gjöld, á sama tíma og framlög til félagslegs húsnæðis hafa hlutfallslega dregist saman. Vandamálið er að þorri fólks á ekki húsnæði sitt. Það á fyrst og fremst skuldir. Skuldir sem bara vaxa meðan verð á húsnæði fellur. Stór hluti ungs fólks er í dag "tæknilega gjaldþrota", það er að segja að væri það gert upp myndu eigur ekki duga fyrir skuldum.
Pólitískur ávinningur af því að skuldsetja almenning er friður á vinnumarkaði og hræðsla við að kalla stjórnvöld til ábyrgðar. Stórskuldugt fólk hefur ekki efni á að fara í verkföll. Stórskuldugt fólk þorir ekki að krefjast róttækra breytinga af ótta við að vont ástand geti versnað. Bankarnir unnu að því leynt og ljóst að gera þorra almennings að mjólkurkúm í fjósi fjármálastofnanna. Líf fjölda fólks snýst um afborganir og yfirdrátt, og það hefur verið blekkt til að bæta neyslulánum ofan á húsnæðslán. Nauðþurftir heimilisins eru greiddar í skjóli þess að það er komið "nýtt greiðslukortatímabil", og sumir þurftu að taka lán hjá Hagkaup til að halda jól. Á þessu nýbyrjaða ári mun fjöldi heimila fara í raunveruleg gjaldþrot. Það verður ekki hægt að láta boltann rúlla þegar þrengir um vinnu og tekjur dragast saman.
Hrun bankanna er afleiðing af fjárglæfrastarfsemi stjórnenda þeirra, en þeir taka ekki afleiðingunum. Afleiðingarnar eru þjóðargjaldþrot og skuldsetning sem mun taka kynslóðir íslendinga að greiða. Skuldug þjóð er ekki frjáls þjóð. Skuldug þjóð gerir ekki eins og henni sýnist, hún gerir eins og skuldareigendum sýnist. Almenningur verður að krefjast þess að þeir sem bera ábyrgð á þjóðargjaldþrotinu verði dregnir til ábyrgðar. Fjármálamennirnir bera ábyrgð, hún er augljós. Stjórnmálmennirnir bera líka ábyrgð, fyrst og fremst ríkisstjórnir Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar. Geir Haarde verður að átta sig á því að það dugar ekki að segja "að ef ég á einhverja sök á ástandinu, þá þykir mér það miður" og "Guð blessi Ísland". Geir var fjármálaráðherra og sat í miðjum spillingar- og fjárglæfravefnum. Geir Haarde er einn arkitekta einkavinavæðingarinnar og í framlínu þeirra sem boðuðu nýfrjálshyggjuna. Mér þykir rosalega miður að Geir skuli ekki átta sig á því hver ábyrgð hans er. Fyrst hann áttar sig ekki á því að hann er vanhæfur til að stjórna landinu vegna þeirrar ábyrgðar sem hann ber á að við erum komin í þessa stöðu, þarf að koma honum frá við kosningar. Og það sem allra fyrst.
1.1.2009 | 15:28
Geir ætti að draga sig í hlé!
Geir Haarde hefur enn og aftur sýnt hversu ófær hann er um að veita forystu þegar þess er þörf. Nýjasta dæmi um vandræðagang hans er boðskapurinn um að það komi til greina að leggja það undir þjóðaratkvæði hvort fara eigi í viðræður við Evrópubandalagið um aðild. Ef þjóðin hafnar því að ræða við EB er málið dautt, að hans mati. Væri ekki nær að ræða við Evrópusambandið og bera síðan niðurstöður viðræðna undir þjóðaratkvæði. Þá væri fólk alla vega að kjósa um hvort það vildi breytingu á stöðu Íslands gagnvart Evrópubandalaginu eða ekki. Þá væri fólk vonandi að kjósa á grundvelli upplýstrar umræðu milli tveggja valkosta, hvort það teldi hagsmunum Íslands betur borgið utan eða innan Evrópubandalagsins.
Geir er sjálfsagt vænn maður, barngóður og með ljúfan húor og ágætis söngrödd. En hann er gjörsamlega vanhæfur um að veita forystu þegar á reynir. Hann hafði ekki hugmynd um hvað var að gerast meðan allt flaut mót feigðarósi í efnahagsmálum landsins, og virðist ekki hafa gert tilraun til að grenslast fyrir um það. Hrunið kom honum gjörsamlega á óvart, og nú getur hann ekki séð að það hafi verið gerð nein mistök í hagstjórninni, heldur séum við fórnarlömb gjörningaveðurs í alþjóðlegum fjármálaheimi. Hann getur ekki bent á neina leið útúr kreppunni aðra en að halda áfram á sama róli, með sömu gömlu og þreittu forystuna á sviði stjórnmála og efnahagsmála. Skuldsettasta þjóð í heimi á að taka enn meiri lán til að styðja við handónýtan gjaldmiðil, og síðan eigum við sjálfsagt öll að líta í eigin barm og finna hjá okkur sekt vegna þess hvernig málum er komið. Biskupinn og forseti lýðveldisins taka undir og boða siðbót sem leið út úr kreppunni.
Ég bjó í Svíþjóð í 19 ár, 1981-2000, og upplifði bankakreppuna þar á fyrri hluta tíunda áratugs síðustu aldar. Svíar voru svo lánsamir að forystumenn stjórnmálaflokkanna þar veittu forystu þegar þess var þörf. Stærsti stjórnmálaflokkur Svíþjóðar, sósíaldemokratarnir, höfðu verið algerlega andsnúnir aðild Svíþjóðar að Evrópubandalaginu, en þeir snéru við blaðinu. Ingvar Carlson, þáverandi leiðtogi þeirra, sagði að það væri ljóst að sænskt efnahagskerfi væri of lítið til að standast gjörningaveður alþjóðlegra fjármála og að Svíþjóð þyrfti að eiga bakhjarl í Evrópusambandinu. Göran Person, sem var fjármálaráðherra í ríkisstjórn Ingvars Carlsonar, skrifaði merka bók með titilinn "Skuldsetning er ánauð" (sænskur titill: Den som er satt i skuld är inte fri). Aðildin að Evrópubandalaginu varð síðan lykilatriði þess að koma Svíþjóð út úr kreppunni.
Geir Haarde tvístígur og vandræðast vegna þess að hann ber stóra ábyrgð á því hvernig komið er fyrir Íslendingum. Hann var í forystusveit Sjálfstæðisflokksins við einkavinavæðinguna og hefur sem fjármálaráðherra og síðan forsætisráðherra beint og óbeint komið að öllum stórum ákvörðunum sem gerðu fjárglæframönnunum kleyft að setja Ísland í þrot. Auðvitað ætlaði hann ekki að koma Íslandi i klemmu, viðmótsþýður og barngóður sem hann er. Hann var í brúnni á feigðarsiglingunni, en kunni hvorki á áttavita né radar. Skútan er á skeri og að sökkva, og þá vill hann að greiðum atkvæði um það hvort við reynum að ná landi. Hann myndi gera öllum greiða ef hann ákvæði að víkja úr brúnni og fengi 1. stýrimanni stjórnvölin.
19.12.2008 | 11:25
Ferðamálasamtök útá þekju
Ferðamálasamtök Suðurnesja hafa að frumkvæði formanns samtakanna, Kristjáns Pálssonar, hreyft þeirri hugmynd að hreindýr verði sett niður að nýju á Reykjanesi. Markmið þessa er að auðga dýralíf svæðisins og draga að ferðafólk sem geti notið þess að sjá hreindýr í sínu náttúrulega umhverfi. Hreindýrum var sleppt á Reykjanesi í tvígang á 18 öld, og gengu þar villt en stofninn dó út í byrjun 20 aldar. Það er ýmislegt að athuga við þessa hugmynd Ferðamálasamtaka Suðurnesja: Í fyrsta lagi Reykjanes ekki náttúrulegt umhverfi hreindýra. Það mætti alveg eins flytja inn mörgæsir og sleppa undir Krísuvíkurbjargi í því skyni að auðga dýralíf og laða að ferðamenn. Í öðru lagi er Reykjanes ílla farið af ofbeit öldum saman, og gróðurlendi þar þola vart aukið álag af völdum beitar og traðks. Minkandi sauðfjárbeit undanfarin 10-20 ár hefur haft mjög jákvæð áhrif á gróðurframvindu á Reykjanesi, en það væri stórt skref áftur á bak að flytja þangað hreindýr. Í þriðja lagi er Reykjanes einstök náttúruperla sem okkur ber að standa vörð um, ekki "betrumbæta" með því að sleppa þar lausum framandi dýrategundum.
Maður veltir stundum fyrir sér hvort sú umræða um náttúruvernd sem farið hefur fram á síðustu árum hafi farið algerlega fram hjá sumum í þjóðfélaginu. Hugmyndir Kristjáns Pálssonar eru alvarleg tímaskékkja, og í anda þeirrar stefnu sem iðkuð var á 19. öld; að betrumbæta náttúruna manninum til gagns og gleði. Norðmenn fluttu, í anda þessrar stefnu, sauðnaut til Noregs og Svalbarða, og á Íslandi voru uppi hugmyndir um að flytja inn snæhéra frá Grænlandi. Það var í anda sömu stefnu sem menn gróðursettu greni og furu í Þingvallaþjóðgarðinum á síðustu öld, til að betrumbæta því birkiskógurinn var ekki nógu fínn. Ef menn vilja veg ferðamennsku meiri á Suðurnesjum væri mikið nær að byggja á því sem Reykjanesið hefur nú þegar. Það eru uppi hugmyndir um eldfjallaþjóðgarð á Reykjanesi. Svæðið er einstakt í heiminum að því leiti að þar er að finna á tiltölulega litlu svæði allar gerðir eldvarpa sem fyrirfinnast í heiminum: megineldstöðvar, dyngjur, eldborgir, gígaraðir, sprengigígar, móbergshryggir, rekbelti og sigdalur á flekaskilum. Reykjanesið er einstök náttúruperla sem okkur ber að varveita - ekki eyðileggja með frekari virkjanaframkvæmdum og tilheyrandi raski, eða með því að setja þar niður hreindýr. Náttúruverndarsinnar þurfa að taka höndum saman um að stöðva þessi nátttröll í Ferðamálasamtökum Suðurnesja. Við viljum ekki hreindýr á Reykjanes frekar en mörgæsir undir Krýsuvíkurbjargi. eða snæhéra og sauðnaut á hálendinu.
Umhverfismál | Breytt s.d. kl. 11:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.12.2008 | 11:48
Skammsýni ræður niðurskurði til skólanna
16.12.2008 | 12:01
Íslenska efnahagsviðundrið
Svo virðist sem Íslenska efnahagsundrið, eða réttara sagt, efnahagsviðundrið, hafi í megindráttum byggt á því að lifa hátt fyrir lánsfé. Það verkur furðu mína að þorri þess stóra hóps sem numið hefur og starfar við viðskiptafræði og hagfræði skuli ekki hafa séð í gegnum þetta og varað okkur hin við sem ekki berum gott skynbragð á hagfræði. Því var eiginlega þvert á móti svo farið að lang flestir hagspekingar landsins spiluðu með. Eftir að erlendir hagfræðingar voru farnir að hafa verulegar áhyggjur af þróun mála hér á landi, skrifuðu Íslensku "fræðimennirnir" skýrslur þar sem okkur var sagt að hér væri allt í ró og spekt, og framundan væri eintóm og taumlaus hagsæld. Greiningardeildir bankanna bjuggust ekki við harðri lendingu, og mantran var sú að efnahagsleg framtíð Íslands væri öfundsverð.
Ég hugsa að það færi að hitna undir stólum jarðvísindamanna ef þeir hegðuðu sér svipað og hagfræðingar landsins hafa gert undanfarin ár. Segjum að það væri vaxandi ólga í Kötlu, sem lýsti sér í auknum jarðhræringum og landlyftingu, sem benti til aukins kvikuflæðis og þennslu af völdum vaxandi kvikuþrýstingi í kvikuþró. Segjum að skyndilega hafi komið jökulhlaup í Fúlukvísl, sem gæti bent til aukinnar bræðslu jökulíss í öskju Kötlu vegna breytinga á jarðhitasvæðum undir jöklinum. Einföld túlkun á svona ferli væri að það gæti verið að vænta eldgoss. Það væri skylda jarðvísindamanna að vara fólk við og vera með viðbúnað til að minka hugsanlega skaða af völdum gossins þegar það hæfist. Ég er ekki í nokkrum vafa um að svona munu jarðvísindamenn bregðast við þegar þar að kemur.
En hvað ef jarðvísindamenn hefðu haft af því hagsmuni að láta sem ekkert væri? Aukin jarðskjálfavirkni væri skýrð með hreyfingum á flekaskilum í Norður Atlantshafi, aukið kvikuflæði væri skýrt með því að kvikan er dálítið óutreiknanleg og hún getur vel flætt til baka, og að það sé ekkert að óttast þó það komi smá gusur í Fúlukvísl. Síðan skrifaði Jarðvísindastofnun HÍ skýrslur þar sem lögð væri áhersla á að Katla væri stöðug og við gætum reiknað með því að drægi úr jarðskjálftavirkni og þennslu þegar fram í sækti. Fjölmiðlar myndu gleypa við þessum skýrslum og segja erlenda vísindamenn, sem furðuðu sig á andvaraleysi innlendra fræðimanna, ekki þekkja sérstöðu íslenskra eldfjalla.
Það má varpa fram þeirri spurningu hvort viðskipta- og hagfræðingar landsins beri ekki verulega ábyrgð á bankahruninu? Þeir áttu að sjá hvert stefndi, og átta sig á því að íslenska efnahagsviðundrið var bóla sem myndi springa. Þeir áttu að vara okkur við. Kanski var þægilegra að spila með bankamönnunum, vera boðið á Elton John og kanski fá að fljúga í einkaþotu til útlanda.