Kreppan er enn ekki komin...af fullum þunga

Íslendingar eru varla farnir að finna fyrir kreppunni ennþá. Það er kosningahamur á stjórnmálaflokkunum, og enginn þorir að segja hreint út hvað er í spilunum fyrir næstu árin. Ég hef upplifað kreppu af þessu tagi þegar ég bjó í Svíþjóð á tíunda áratug síðustu aldar. Þá fóru tveir stærstu bankar Svíþjóðar nánast á hausinn. Nordbanken var þjóðnýttur, og sænska ríkið þurfti að leggja bankanum til hartnær 90 milljarða SKR til að forða honum frá gjaldþroti. Á uppreiknuðu gengi og með tilliti til verðbólgu samsvarar sú upphæð um 2500 milljörðum íslenskra króna. Hinum stórbanka Svíþjóðar, SEB-bankanum, var bjargað með stórfelldri ríkisábyrgð/láni. Ef hrunið í Svíþjóð er borið saman við hrunið á Íslandi, er okkar hrun margfallt verra. Sænskt efnahagskerfi er 30-40 sinnum stærra en það íslenska, en í krónum talið er stærðargráða efnahagshrunanna sambærileg.

Nánast allur tíundi áratugur síðustu aldar var í Svíþjóð merktur af efnahagshruninu 1992. Til að mæta áföllunum voru skattar hækkaðir, og settur á 5% viðlagaskattur á allar tekjur yfir miðlungstekjum. Þá átti sér stað stórfelldur niðurskurður og hagræðingar í allri opinberri þjónustu. Það fundu allir verulega fyrir þessu. Verst urðu þeir úti sem voru mjög skuldugir. Fasteignamarkaðurinn hrundi, og það varð í mörgum tilfellum 30-40% verðfall á fasteignum. Fjölmörg heimili urðu gjaldþrota, þegar saman fór vaxandi skuldabyrði, lækkandi rauntekjur og atvinnuleysi. Þetta var mjög erfiður tími.

En svíar komust út úr þessu, með því að hækka skatta og skéra niður opinberar framkvæmdir og þjónustu. Þeir snérust líka á punktinum hvað varðaði aðild að Evrópusambandinu. Göran Persson, sem var fjármálaráðherra Svíþjóðar á þessum tíma, taldi að sænskt efnahagskerfi gæti ekki staðist ólgusjói alþjóðlegs fjármálakerfis, til þess væri það of lítið. Ef sænskt efnahagskerfi er tappatogari á ólgusjó alþjóðlegra fjármála, já þá hlýtur íslenskt efnahagskerfi að vera korktappi í sama ólgusjó. Svíar leituðu vars í ESB, hvar ætla íslendingar að leita vars?

Það er enginn vafi á því að eftir kosningar fara menn að finna fyrir kreppunni af fullum þunga. Skattar verða hækkaðir, hjá því verður ekki komist. Ísland getur ekki siglt áfram með hundruði milljarða í fjárlagahalla á ári; skuldugasta þjóð í heimi getur ekki tekið lán til að fjármagna samneysluna. Tekjur verða að standa undir útgjöldum. Við hljótum óhjákvæmilega að skéra niður útgjöld þar sem það er mögulegt, og fara í saumana á því hvar sé hægt að spara. Stærstu útgjaldaliðir ríkisins eru vegna menntamála, heilsugæslu og samgangna, auk launakostnaðar. Þar verður ekki komist frá því að skéra verður niður, því miður. Þetta er ekki björt framtíðarsýn, en kreppa er því miður ekkert gamanmál. Það þýðir ekkert að gala um að "við sjálfstæðismenn ætlum ekki að hækka skatta", eins og Sigurður Kári gerði á þingi fyrr í dag. Það hefur komið hressilega í ljós í efnahagshruninu að kenningar Friedmans nýfrjálshyggjupostula ganga ekki upp. Ef sjálfstæðismenn ætla ekki að hækka skatta til að mæta kreppunni, þá ætla þeir að gera eins Margrét Thatcher gerði í Bretlandi á sínum tíma: skéra niður félagslega kerfið, heilsugæsluna, skólakerfið og samgöngumálin, selja ríkiseigur og einkavinavæða. Vernda vini sínu, þá ríku...

Góðar stundir...


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ólafur, þakka þér kærlega fyrir þennan pistil. Ég vona að sem flestir lesi hann því fólk þarf að komast niður á jörðina og hætta að halda að allt geti verið eins og áður en kreppan skall á. Ástandið á eftir að versna og það má ekki fegra ástandið því sannleikurinn er sagna bestur á þessum ömurlegu tímum. Og ég spyr eins og þú hvar ætlum við að leita vars? Ég vil láta reyna á ESB aðild. Það verður að gefa þjóðinni kost á að velja.

Ína (IP-tala skráð) 15.4.2009 kl. 17:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband