Þetta er sorgarsaga

Það er sorglegt að sjá hvernig forysta Sjálfstæðisflokksins virðist á síðustu árum hafa tapað áttum og látið græðgisvæðinguna taka af sér öll ráð. Það er sorglegt að horfa uppá flokk missa sjónir af hugsjónum og láta hugmyndir Hannesar Hólmsteins og annarra nýfrjálshyggjupostula verða ráðandi hugmyndafræði. Græða á daginn, grilla á kvöldin, sagði Hannes Hólmsteinn. Taka við mútum á daginn, þegja og klóra yfir skítinn daginn eftir. Svandís Svavarsdóttir er ekki að leggja fram alvarlegar ásakanir; hún er að lýsa atburðarrás sem var torskilin áður, en er augljós þegar upplýsingar um ofurstyrki liggja fyrir. Ég er sammála Þorgerði Katrínu um að þetta er alvarlegt mál, og það verður að rannsaka. Fyrir utanaðkomandi virðist Sjálfstæðisflokkurinn hafa lagst svo lágt að selja sig fyrir 30 milljónir.

Þó ég hafi aldrei stutt Sjálfstæðisflokkinn finnst mér þessi atburðarás sorgleg. Sjálfstæðisflokkurinn hefur þrátt fyrir allt um áratugi verið stýrt af hugmyndafræði sem byggir á borgarlegum gildum, kapitalisma með samfélagslegri ábyrgð. Ekki óheftur kapitalismi græðginar, heldur hugmyndafræði sem skilur að við erum lítil þjóð í harðbýlu landi þar sem hagsmunir launþega og atvinnurekenda eiga oft samleið. Um þetta snérist þjóðarsátt ASÍ, VSÍ og ríkisstjórnarinnar á sínum tíma. Ég var aldrei verulega hræddur við stjórnarsetu Sjálfstæðisflokksins, því ég vissi að hann stóð við þjóðarsáttina um að á Íslandi skyldi vera velferðarsamfélag. Þangað til fyrir 4-5 árum. Þá byrjuðu menn að selja ættarsilfrið. Einkavæðingin snérist uppí einkavinavæðingu, fjárglæframönnum var gefið grænt ljós á að gera hvað sem þeim sýndist. Davíð Oddsson lagði niður Þjóðhagsstofnun, og ríkið afsalaði sér ábyrgð á að hafa yfirlit yfir hver væri raunveruleg staða efnahagsmála. Greiningardeildir bankanna, sem virðast hafa verið einhverjir strákar í jakkafötum með skólun í hraðsuðukúrsum í vafningum frá HR, gáfu út bjartsýnisspár, hér væri allt í góðu lagi, allir græða, allir verða ríkir. Það var spilað með eigur almennings, sparnað og lífeyri, allt til að bókhaldið liti betur út. Þetta er sorgarsaga.

Fyrir 2000 árum seldi Júdas sig fyrir 30 silfurpeninga, nú virðist Sjálfstæðisflokkurinn hafa selt sig fyrir svipaða upphæð (gengisþróun og vísitala uppreiknuð til dagsins í dag, Júdas hefði sjálfsagt geta keypt sér sæmilega íbúð í Jerúsalem ef hann hefði ekki fengið bakþanka og hengt sig...). Það var sorgarsaga, og sama má segja um vegferð Sjálfstæðisflokksins. Hann er sennilega búinn að vera sem fjöldaflokkur. Hann fer sennilega niður í 20-25% fylgi í komandi kosningum, klofnar eða missir fjölda meðlima. Ég græt það ekki. Flokkurinn uppskér sem hann sáir.

 


mbl.is Aldrei heyrt alvarlegri ásakanir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Svo gerir þú líka.

Guðrún Jónsdóttir (IP-tala skráð) 15.4.2009 kl. 00:02

2 Smámynd: Jakob S Jónsson

Ég er þér sammála um að atburðarásin sé orðin sorgleg, og jafnvel meira en það. Hins vegar ber að gæta að því, að á tímum Íslenskra aðalverktaka og hermangsins var málum sjálfsagt ekkert öðruvísi háttað. Ákveðnir stjórnmálaflokkar hafa sjálfsagt notið góðs af ágóða hermangsverktaka af ýmsu tagi. Svo er það nokkuð hlálegt, að nýkjörinn formaður Sjálfstæðisflokksins fær "frjálsar hendur" til að leysa málið. Það er nokkur bjarnargreiði nýjum formanni að fá slíkan arf uppí sínar "frjálsu hendur". Það er áreiðanlega nokkuð trúverðug spá, að Sjálfstæðisflokkurinn eigi eftir að klofna uppúr þessari ættarsilfursölu. Hafðu það svo gott, Ólafur!

Jakob S Jónsson, 15.4.2009 kl. 01:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband