Stríðsglæpir Ísraels

Það fjölgar stöðugt þeim sem telja sannað að Ísrael hafi framið hrottalega stríðsglæpi í árásarstríðinu gegn Gaza fyrr í vetur. Amnesty International og mannréttindafullrúi Sameinuðu Þjóðanna krefjast rannsóknar á meintum stríðsglæpum Ísraels, hópur alþjóðlegra þekktra dómara hefur gert sömu kröfur. Það er þekkt að notaðar voru fosfórsprengjur gegn óbreyttum borgurum, og komið í veg fyrir að þeir gætu komist í skjól fyrir sprengjuregni og skothríð ísraelsmanna. Þá liggur líka fyrir staðfestur vitnisburður um að skotið hafi verið á sjúkrabíla og sprengjum varpað á athvörf flóttamanna. Birgðageymslur og griðarsvæði Sameinuðu Þjóðanna urðu fyrir árásum. Nú hafa óbreyttir hermenn í ísraelsher gengið framm fyrir skjöldu og greint frá því hvernig þeim hafi beinlínis verið skipað af yfirmönnum að drepa óbreytta borgara og eyðileggja heimili þeirra og eigur.

Í frétt mbl 19/3 um þetta segir eftirfarandi:

"Ísraelskir hermenn saka hermenn úr sínum röðum um að hafa unnið voðaverk í átökunum á Gaza á fyrstu vikum ársins. Meðal þess sem kemur fram í vitnisburðum hermannanna er að ísraelsk leyniskytta hafi skotið á móður og barn eftir að hafa verið kallaður af vettvangi. Þá skaut annar ísraelskur hermaður palestínska konu með köldu blóði af tilefnislausu. Þessar frásagnir komu fram í vitnisburðum útskriftarnema ísraelska herskólans Oranim College sem tóku þátt í hernaðinum á Gaza. Lýstu þeir atvikum frammi fyrir nýliðum í skólanum, að því er fram kemur á fréttavef breska útvarpsins, BBC. Þykja frásagnirnar vekja spurningar um yfirlýsingar Ísraelshers um að þess hefði verið gætt að vernda óbreytta borgara á Gaza. Með líku lagi séu ásakanir um að Hamas-liðar hafi notað mannleg skotmörk veikari ef rétt reynist að óbreyttir borgarar hafi verið myrtir af ástæðulausu. Í þriðja tilvikinu skipaði ísraelskur herforingi að gömul palestínsk kona skyldi skotin til bana, þrátt fyrir að greinilegt væri að engin hætta stafaði af henni. Þá fylgir sögunni að hermennirnir hafi fengið blöðunga frá rabbíum þar sem átökin hafi verið sett í trúarlegt samhengi, hermennirnir væru að vinna aftur hið heilaga land."

Frásagnirnar minna á vitnisburði um framferði nasistaherjanna gegn gyðingum í Varsjárgettóinu. Vitnisburði sem komu fram við stríðsglæparéttahöldin í Nürnberg eftir seinni heimstyrjöldina. Stjórnvöld í Ísrael neita ásökunum um að herinn hafi gert neitt rangt. Hvers vegna vilja þau ekki opinbera rannsókn, ef þau hafa ekkert að fela? Alþjóðasamfélagið getur ekki lengur látið eins og ekkert sé. Ísrael viðurkennir ekki rétt Alþjóðlega Stríðsglæpadómstólsins til að grípa inní. Í þessu máli ætti Ísland að beita sér, og krefjast þess að ásakanir um stríðsglæpi á Gaza verði rannsakaðir, og sannist stríðsglæpir á að draga þá sem eru ábyrgir fyrir dómstóla. Við getum ekki snúið blinda auganu að framferði Ísraels, veitt þeim þegjandi samþykki að halda áfram hrottafengnu hernámi og valdbeitingu gegn Palestínumönnum. Þetta verður að stöðva! 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband