Að eyðileggja náttúruperlu

Sólheimajökull er mikil náttúruperla í nágrenni Reykjavíkur. Jökullinn hefur verið að hörfa frá árinu 1996, og við hörfunina hafa komið fram margvísleg landform og setlög sem segja sögu um botnskrið jökulsins og hreyfingar jökulsporðs. Svæðið framan við jökulinn hefur verið eins og kennslubók í jöklajarðfræði, og þar hefur mátt sjá jökulgarða, jökulöldur, jökulkembur, hörfunargarða, jökulhlaupaset (frá jökulhlaupi 1999), jaðarpalla, jökulása og fleira. Námskeið í jöklajarðfræði við Háskóla Íslands hafa árlega verið haldin við jökuljaðarinn, og þangað hafa líka leitað náttúruvísindamenn og jarðfræðingar frá öðrum löndum.

Jökullinn hefur líka verið spennandi áningarstaður ferðamanna. Fyrir 3 árum ákvað bæjarstjórn Víkur í Mýrdal að bæta aðgengi ferðamanna að jöklinum. Farið var með jarðýtu og gerð vegaslóð frá þáverandi bílastæði inn fyrir jökulgarðana frá 1995 (sem marka útbreiðslu jökulsins áður en hann byrjaði að hörfa). Gert var nýtt bílastæði rétt utan við jaðarstöðu jökulsins frá 2002. Fjallað var um málið í umhverfisnefnd Víkur, en þar komust menn að því að þetta væri bara möl og sandur, og því allt í lagi að gera þessar framkvæmdir. Það var enginn skilningur á því að með framkvæmdunum væri verið að eyðileggja hörfunagarða frá árunum 1995-2002, né heldur áttuðu menn sig á því að með framkvæmdunum væri verið að oppna leið fyrir utanslóðaakstur framan við jökulinn. Bílastæðið var sett niður á svæði með fallegum jökulkembum sem komið höfðu fram við jökulhörfunina. En, þetta er jú bara möl og sandur. 

Nú heimsækja Sólheimajökul þúsundir ferðamanna árlega, og fyrirtæki sérhæfa sig í því að fara með fólk uppá jökulinn. Þar er engin hreinlætis- eða snyrtiaðstaða, og menn geta gert sér í hugarlund hvort margir þeirra yfir 60.000 ferðamanna sem þangað koma þurfi ekki að komast á náðhús - og hvar þeir gera stykki sín þegar náðhús vantar. Torfærutröll hafa farið út fyrir slóðann inn að bílastæðinu, og sjá má hjólför eftir jeppa og torfærumótorhjól þvers og kruss um svæðið. Þá eru ummerki um allt svæðið með fótsporum og slóðum, þvers og kruss. Náttúrugildi svæðisins hefur stórminkað vegna þessara skemmdarverka, sem eru afurð heimskulegra ákvarðanna misvitra sveitastjórnarmanna og þrýstihópa úr ferðamannaiðnaðinum sem vilja helst geta keyrt með ferðamenn upp að jöklinum. Sólheimajökull er sorglegt dæmi um hvernig náttúruperla hefur verið eyðilögð til að þjóna skammtímahagsmunum.

Hvað hefði mátt gera? Með göngustígum og fræðslu hefði svæðið framan við Sólheimajökul getað verið kennslubók í jöklajarðfræði, þar sem skoða hefði mátt ferli og afurðir jökulvirkni. Jökullinn er líka gott dæmi um hörfun jökla vegna loftslagshlýnunnar, og gæti sem slíkur verið gríðarlega áhugaverður áningarstaður þar sem fræðslu um afleiðingar loftslagsbreytinmga hefði mátt koma á framfæri. Setja hefði mátt upp náttúrustofu sem miðlaði upplýsingum til gesta. Náttúrusaga Íslands er að hluta skráð í möl og sand. Að eyðileggja svæðið framan við Sólheimjökul á þeim forsendum að þetta sé bara möl og sandur minnir á það þegar ólæsir íslendingar eyðilögðu handritin, því það voru jú bara skinnpjötlur. Það ætti að gera þá kröfu til sveitarstjórnarmanna sem taka svona ákvarðanir að þeir leiti til fólks sem getur lesið náttúrusögu Íslands um ráðgjöf áður en jarðýturnar eru sendar af stað.

Þeir sem vilja kynnast svæðinu (áður en það var eyðilagt) geta heimsótt vefsvæðið: http://www3.hi.is/~oi/solheimajokull_photos.htm


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Íslendingar eru umhverfismeðvitundarlausir fantar! Þeir hvorki skilja né skynja þvílík verðmæti felast í náttúru landsins. Það má fyrirgefa Íslendingum fyrir að útrýma geirfuglinum, þeir vissu ekki betur á þeim tíma. En í dag á fólk að vita betur og það er ekki hægt að fyrigefa hvernig náttúrunni landsins er misþyrmt. Þetta er bara sorglegt!

Helgi (IP-tala skráð) 6.6.2009 kl. 17:53

2 Smámynd: Arnar Pálsson

Sólheimajökull er í uppáhaldi hjá mörgum, mikið til vegna þess hversu aðgengilegur hann er. Hann var vel aðgengilegur árið 1985, og engin þörf á frekari vegalagningu.

Takk kærlega fyrir að benda á þetta. Vonandi verður hægt að bæta hér úr.

Arnar Pálsson, 17.6.2009 kl. 09:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband