Þjóðarskútan sekkur með sjóræningjafánan við hún!

Það er sagt að Titanic hafi sokkið við undirleik skipshljómsveitarinnar, eftir að hafa steytt á ísjaka sem reif sundur byrðing skipsins. Íslensku þjóðarskútunni var siglt uppá skér við undirleik Elton John og hinnar sænsku Carólu, sem skemmtu útrásarvíkingunum og gestum þeirra þegar þeir hylltu sjálfa sig. Nú rennur þjóðarskútan útaf skérinu hægt og rólega. Ísland er að sökkva í skuldahaf. Hrunið hér er ívið stærra en bankahrunið í Svíþjóð á tíunda áratug síðustu aldar. Þar sem svíar eru 9 milljónir á móti okkar 300 þúsund sálum má segja að vandi okkar sé þrítugfaldur vandi svía. Það er eins og fólk sé ekki að skilja þetta. Kreppan er ekki komin og farin, hún er vart byrjuð.

Við þurfum á aðstoð og velvild granna okkar og vina í Evrópu að halda. Einu raunhæfu björgunaraðgerðirnar eru þær að koma líflínu til Evrópu, sækja um aðild að Evrópusambandinu og taka upp evru. Talsmenn Evrópusambandsins hafa sagt að umsókn Íslands fengi flýtimeðferð, og við gætum hugsanlega fengið aðild árið 2011. Evrópa er til í að rétta okkur hjálparhönd. Hvað gera íslendingar? Jú, þeir gefa umheiminum langt nef og ákveða að hefja hvalveiðar. Þorri Evrópubúa er algerlega andsnúin hvalveiðum. Við förum inní kreppuna með sjóræningjafána við hún, gefum umheiminum langt nef, étið þið skít, við þurfum ekkert á ykkur að halda. Við ætlum að veiða hval. Undirleikurinn er síbylja auglýsinga um stuðning hagsmunaaðila við hvalveiðar. Hverju geta þær bjargað? Þjóðarstoltinu? Við öflum ekki gjaldeyristekna sem neinu nemur með því að veiða hval. Eigum við að skjóta á 1 milljarð, ef japanir kaupa allt kjötið? Hallinn á fjárlögum þessa árs er áætlaður 180 milljarðar, og verður sjálfsagt meiri næsta ár. Skuldir þjóðarbúsins eru yfir 2000 milljarðar. Það gerir um 7 milljónir á hvert einasta mannsbarn í landinu. Bara vextirnir af herlegheitunum eru tugir milljarða á ári. Hvernig ætlum við að taka á þessu ástandi? Veiða hval? Sökkva þjóðarskútunni, með sjóræningjafána við hún?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband