24.1.2009 | 13:26
Óánægjufylgi
Það er athyglisvert hversu mikið fylgi mælist við VG. Steingrímur og félagar eru auðvitað óflekaðir af spillingu, vinavæðingu og mistökum við hagstjórn síðustu ára, og það verður að segja þeim til sannmælis að VG hefur um árabil varað við því hvert stefndi. En stjórnmál snúast ekki um fortíð heldur nútíð og framtíð. Ég hef efasemdir um að VG séu þess umbúin að leiða þjóðina út úr ógöngunum. Ég hef ekki séð neinar lausnir í málflutningi þeirra. VG hefur haft 100 daga til að koma með aðgerðaáætlun um það hvernig bregðast ætti við kreppunni. Það hefur ekki komið fram nein slík áætlun. Það er bara tvennt til ráða til að bregðast við vandanum sem að steðjar: að auka tekjur þjóðarbúsins og að minnka útgjöldin. Það er mjög erfitt að auka tekjur ríkisins, þó hærri skattar væru vissulega skref í rétta átt. Við munum neyðast til að skéra niður í útgjöldum ríkisins, það er óhjákvæmilegt. VG hafa ekki sett fram neina áætlun um það hvernig og hvar eigi að skéra. Þá eru VG algerlega andsnúin Evrópusambandsaðild og líta ekki á aðildarviðræður sem skref i átt til lausnar kreppunni. Framtíðarsýn VG virðist frekar vera einhvers konar bændarómantískt haftaþjóðfélag, þar sem við unum glöð við okkar, ræktum landið, höldum glöð útá fiskimiðin, borðum þverhöggna ýsu og rollukjöt, og prjónum fyrir framan góðar fréttir í ríkissjónvarpinu (fullu af auglýsingum, vel að merkja).
Mig grunar að þegar kosningabaráttan fer í gang og stjórnmálamenn verða krafðir svara um hvað þeir ætla að gera til að mæta kreppunni muni fylgi við VG dala. Óánægjufylgi er mjög flóttagjarnt, og ef VG lofar ekki öllum óánægðum gulli og grænum skógum yfirgefur fylgið flokkinn.
Fylgi VG mælist rúmlega 32% | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.