Hryðjuverkalög og stjórnvöld sem ekki er treystandi

Íslendinga rak í rogastað þegar bretar beittu hryðjuverkalögum gegn íslensku bönkunum. Hvað var í gangi? Hvað var að gerast? Íslenskir stjórnmálamenn fylltust vandlætingu, og Guðni Ágústsson vildi slíta stjórnmálasambandi við breta. Geir fannst þetta (eins og svo margt annað) algerlega óskiljanlegt. Skýringin sem matreidd var ofan í okkur var að þarna væri Gordon Brown að spila harðjaxl til að sýna kjósendum sínum að hann væri reiðubúinn að beita hörku til að verja hagsmuni breta. Véfréttin í Seðlabankanum sagðist vita hvers vegna bretar hefðu beitt hryðjuverkalögum, en neitaði (og neitar) að skýra frá ástæðunni.

Gæti það verið að bretar hafi séð það sem lá í augum uppi en við vildum ekki viðurkenna: að stjónvöldum á íslandi væri ekki treystandi? Skoðum málið: við erum með stjórnvöld sem hundsuðu allar viðvaranir um að bankarnir væru í djúpum skít, og meira að segja beittu sér til að kasta rýrð á þá sem bentu á að kerfið riðaði til falls. Við erum með Seðlabanka sem brást algerlega því hlutverki sínu að setja bönkunum skorður og gæta þess að þeir yxu okkur ekki yfir höfuð. Við erum með fjármálaeftirlit sem tók þátt í útrás bankanna og fundaði með erlendum fjárfestum (yfir 100 fundir, að því sagt er) til að reyna að fullvissa menn um að á Íslandi væri allt í stakasta lagi. Á Íslandi hefur viðgengist hömlulaus kunningjaspilling, innherjaviðskipti og brask sem stjórnvöld og eftirlitsaðilar létu algerlega afskiftalaust. Þessu liði var ekki treystandi. Sennilega hafa bretar hræðst sporin eftir þetta lið og viljað hafa vaðið fyrir neðan sig. Kanski var það þess vegna sem þeir beittu hryðjuverkalögunum?

Hvað þarf að gera, hvað er til úrráða? Forsætisráðherra og fjármálaráðherra eiga að segja af sér, þeirra ábyrgð er gríðarleg á því hvernig komið er. Það dugar ekki með aulalega afsökunarbeiðni ("ef ég hef gert eitthvað rangt þykir mér það miður"). Viðskiptaráðherra á að fara sömu leið. Hann hló við útrásarvíkingunum, hafði ekki hugmynd um hver væri raunveruleg staða bankanna og las greinilega ekki gagnrýnar skýrslur erlendra sérfræðinga. Forstöðumaður Fjármálaeftirlitsins á líka að segja af sér og fara í langt frí. Fjármálaeftirlitið átti nefnilega að fylgjast með bönkunum, ekki að aðstoða þá við fjárglæfraverkin. Svo verður Davíð náttúrulega að fara frá. Þráseta hans í Seðlabankanum er farin að minna á Robert nokkurn Múgabe suður í Afríku. Hvorugur skilur sinn vitjunartíma og báðir eru bara til vandræða. Við getum ekki haldið til móts við framtíðina með þetta lið í áhrifastöðum. Þeir sem sigldu þjóðarskútunni uppá skér verða að fara úr brúnni. Við þurfum nýja áhöfn og nýja stefnu.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband