10.1.2009 | 14:52
Stjórnmálaumræða í vondum farvegi
Markmið rökfræðinnar er að komast að kjarna málsins. Í lýðræðissamfélagi er mikilvægt að það fari fram upplýst umræða, og það þarf að vera grundvallarleg sátt um að markmiðið sé að komast að sem bestri niðurstöðu. Í slíkri umræðu er rökfræðinni beitt til að skilja og skilgreina viðfangsefnið og helst leiða fram til sameiginlegrar niðurstöðu. Stjórnmálaumræða á Íslandi er fjarri því að vera í þessum farvegi. Oft fer ekki fram nein umræða, heldur ákveða þeir sem til þess hafa völd að gera hlutina eins og þeim sýnist. Síðan er rökfræðinni beitt til þess að réttlæta niðurstöðuna, og oftar en ekki til að klekkja á þeim sem ekki eru sáttir við málsmeðferð. Dæmi um þetta er þegar þeir kumpánar Davíð Oddsson og Hallldór Ásgrímsson ákváðu sín á milli að Ísland skyldi styðja innrásina í Írak. Ísland hefði sennilega ekki verið á lista hinna viljugu þjóða ef farið hefði fram opin umræða um málið.
Stjórnmálaumræða á Íslandi er því miður oftast eitthvað annað en rökumræða. Einstaklingar, stjórnmálasamtök og stjórnvöld fullyrða og staðhæfa, og nota síðan rökfræðina til að gera lítið úr andstæðingum sínum. Það viðgengst að draga úr trúverðugleika þeirra sem gagnrýna með því að beina umræðunni að þeim í stað þess að halda sig við umræðuefnið. Við þekkjum þetta vel frá aðdraganda bankahrunsins. Þegar hagfræðingar Danske Bank bentu á að Ísland gæti lent í fjármálakreppu var því svarað að þeir væru bara öfundsjúkir, þekktu ekki sérstöðu íslenska hagkerfisins eða að þeir kynnu ekki hagfræði. Stjórnvöld og bankamenn ræddu ekki efnislega gagnrýni hagfræðinganna, heldur beindu spjótum sínum að þeim sem fagmönnum og reyndu að véfengja trúverðugleika þeirra. Þorgerðu Katrín, menntamálaráðherra, lét þau orð falla að breskur hagfræðingur sem varaði við yfirvofandi hruni þyrfti á endurmenntun að halda. Það verður þó að segjast að hún hefur beðið afsökunar á þessum ummælum sínum - en til þess þurfti bankahrun! Þegar hagfræðingar við Háskóla Íslands gagnrýndu bankana og vöruðu við hvert stefndi, var þeim svarað fullum hálsi að gagnrýni þeirra benti bara til að það væri eitthvað að við HÍ og þeir væru ekki trúverðugir.
Ein alvarlegasta ógnunin við lýðræðislega umræðu er að forðast að ræða kjarna málsins en þess í stað snúa umræðunni uppá þann sem maður óttast að færi fram rök sem ekki henta manni. Þetta er í rökfræðinni kallað "Ad hominem", sem þýðir "gegn manninum", og er listin að draga athyglina frá gagnrýni að þeim sem gagnrýnir og eyðileggja trúverðugleika hans. Í upplýstum lýðræðissamfélögum forðast stjórnmálamenn að beita svona bolabrögðum, vegna þess að fjölmiðlar, stjórnmálasamtök og almenningur eru á varðbergi gagnvart því að umræðan sé eyðilögð á þennan hátt. Þetta viðgengst hins vegar á Íslandi, og stjórnmálamenn jafnt sem aðrir komast upp með þetta.
Í uppgjörinu eftir efnahagshrunið ættum við að skoða í hvaða farvegi stjórnmálaumræðan hefur verið. Ef ráðamenn hefðu ekki allir sem einn beitt "Ad hominem" gegn dönsku hagfræðingunum árið 2006 værum við kanski ekki í jafn vondum málum og við erum.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Afar góður pistill. Þakka þér Ólafur.
Svanur Gísli Þorkelsson, 10.1.2009 kl. 15:44
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.