Hryðjuverkaríki

Það er með ólíkindum að ríki heims skuli ekki stöðva hryðjuverk ísraelsmanna á Gaza. Ísrael kemst upp með að þverbrjóta alþjóðalög með árásum sínum á hernumda íbúa Palestínu. Ísrael byggir á aðskilnaðarstefnu, þar sem palestínumenn eru sviptir grundavallarmannréttindum en þurfa að búa við ofbeldi hernámsveldisins. Gaza er stærsta fangelsi í heimi, þar sem 1,5 milljónum palestínumanna er haldið í herkví. Hernaður ísraelsmanna miðar ekki bara að því að stöðva hernaðararm Hamas hreyfingarinnar, heldur að því að eyðileggja alla möguleika palestínumanna til að eiga framtíð í landi sínu. Þannig er ráðist á skóla, menningarstofnanir, vatnsveitur, opinberar stofnanir og fyrirtæki, og þau lögð í rúst með sprengiárásum. Lang flestir dauðra og særðra eru óbreyttir borgarar, meðal þeirra fjöldi barna og unglinga. Innrásin hefur nú þegar kostað yfir 100 börn lífið.

Það þarf að líta aftur til seinni heimsstyrjaldarinnar til að finna samsvarandi íllvirki og hrottaskap. Þá lokaði þýska hernámsliðið gyðinga inn í gettóinu í Varsjá, og þegar þeir reyndu að bíta frá sér var ráðist gegn þeim með skriðdrekum og loftárásum. Það voru hersveitir SS sem þar unnu níðingsverkin, lögðu gettóið í rúst og felldu fjölda óbreyttra borgara. Fyrir þetta voru menn kærðir fyrir stríðsglæpi og sakfelldir í Nürnbergréttarhöldunum að stríðinu loknu. Gegndarlaust ofbeldi ísraelsmanna gagnvart hernumdum íbúum Gaza eru brot á alþjóðalögum og þeir sem fyrirskipa aðgerðirnar eru stríðsglæpamenn. Þá ætti að draga fyrir rétt og dæma.

 Alþjóðadómstóllinn í Haag réttar nú yfir herforingjunum sem báru ábyrgð á fjöldamorðum í Bosníu og umsátrinu um Sarajevo í Balkanskagastríðinu fyrir 10 árum. Hvað er það sem skilur milli glæpaverka nasista í Póllandi og víðar, serba í Bosníu og ísraelsmanna á Gaza? Jú, ísraelsmenn fara sínu fram í skjóli Bandaríkjanna, sem verja þá bindandi ályktunum frá öryggisráði Sameinuðu Þjóðanna. Raunar verja Bandaríkin ekki bara Ísrael fyrir því að alþjóðasamfélagið grípi til aðgerða gegn Ísrael. Bandaríkin borga fyrir hernaðinn. Ef menn halda að Ísrael fjármagni 4. stærsta her í heimi með því að flytja út appelsínur þá er það misskilningur. Ef ekki kæmi til stórfelldur fjárstuðningur frá Bandaríkjum væri Ísrael gjaldþrota.

 Ef alþjóðasamfélagið lætur ísraelsmenn komast upp með hryðjuverkin á Gaza og áframhaldandi ólöglegt hernám Palestínsks lands hafa alþjóðalög enga merkingu og mannúðarstefna hefur beðið skipbrot. Það sem þarf eru þvingunaraðgerðir af því tagi sem komu aðskilnaðarsinnum í Suður Afríku á kné. Útiloka þá frá alþjóðlegum samskiptum, neita að kaupa vörur eða eiga viðskipti við landið, og neita að eiga menningarleg eða stjórnmálaleg samskipti við Ísrael. Ríki sem þverbrýtur alþjóðalög hefur ekkert að gera í samfélagi þjóðanna. Hrotta á að stöðva. Hrottar skilja ekki vinsamlegt tiltal, þá verður að stöðva með þvingunum. Fyrsta skrefið gæti verið að lýsa því yfir að stuðningur Íslands við stofnun Ísraels á fimmta áratugnum hafi verið mistök, Ísrael sé hryðjuverkaríki sem byggi á hernámi og ofbeldi, og því slítum við stjórnmálasambandi við Ísrael.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Heiða B. Heiðars

Alþjóðasamfélagið stjórnast af pólitík og mun aldrei taka skýra afstöðu gegn Ísrael....Guðs útvöldu þjóð

Djöfulsins skömm...og á meðan horfum við upp á að saklausir borgarar myrtir.

Heiða B. Heiðars, 6.1.2009 kl. 13:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband