Ánauðugir skuldarar

Skuldsettur maður er ekki frjáls. Skuldari getur ekki ráðið lífi sínu að vild, heldur verður að miða allt við að standa í skilum og lúta skilmálum skuldareiganda. Íslendingar hafa kerfisbundið verið hnepptir í skuldaánauð. Það hefur verið stefna stjórnvalda (les Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks) að fólk skyldi "eiga" húsnæði sitt. Vegna lítils framboðs á félagslegu húsnæði og leiguhúsnæði hefur ungt fólk verið neytt út á fasteignamarkaðinn, þar sem lögmál frumskógarins hafa gillt. Yfirvöld hafa ýtt undir starfsemi byggingafyrirtækja og fasteignabraskara leynt og ljóst með alls kyns fyrirgreiðslum við lóðaúthlutanir og gjöld, á sama tíma og framlög til félagslegs húsnæðis hafa hlutfallslega dregist saman. Vandamálið er að þorri fólks á ekki húsnæði sitt. Það á fyrst og fremst skuldir. Skuldir sem bara vaxa meðan verð á húsnæði fellur. Stór hluti ungs fólks er í dag "tæknilega gjaldþrota", það er að segja að væri það gert upp myndu eigur ekki duga fyrir skuldum.

Pólitískur ávinningur af því að skuldsetja almenning er friður á vinnumarkaði og hræðsla við að kalla stjórnvöld til ábyrgðar. Stórskuldugt fólk hefur ekki efni á að fara í verkföll. Stórskuldugt fólk þorir ekki að krefjast róttækra breytinga af ótta við að vont ástand geti versnað. Bankarnir unnu að því leynt og ljóst að gera þorra almennings að mjólkurkúm í fjósi fjármálastofnanna. Líf fjölda fólks snýst um afborganir og yfirdrátt, og það hefur verið blekkt til að bæta neyslulánum ofan á húsnæðslán. Nauðþurftir heimilisins eru greiddar í skjóli þess að það er komið "nýtt greiðslukortatímabil", og sumir þurftu að taka lán hjá Hagkaup til að halda jól. Á þessu nýbyrjaða ári mun fjöldi heimila fara í raunveruleg gjaldþrot. Það verður ekki hægt að láta boltann rúlla þegar þrengir um vinnu og tekjur dragast saman.

Hrun bankanna er afleiðing af fjárglæfrastarfsemi stjórnenda þeirra, en þeir taka ekki afleiðingunum. Afleiðingarnar eru þjóðargjaldþrot og skuldsetning sem mun taka kynslóðir íslendinga að greiða. Skuldug þjóð er ekki frjáls þjóð. Skuldug þjóð gerir ekki eins og henni sýnist, hún gerir eins og skuldareigendum sýnist. Almenningur verður að krefjast þess að þeir sem bera ábyrgð á þjóðargjaldþrotinu verði dregnir til ábyrgðar. Fjármálamennirnir bera ábyrgð, hún er augljós. Stjórnmálmennirnir bera líka ábyrgð, fyrst og fremst ríkisstjórnir Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar. Geir Haarde verður að átta sig á því að það dugar ekki að segja "að ef ég á einhverja sök á ástandinu, þá þykir mér það miður" og "Guð blessi Ísland". Geir var fjármálaráðherra og sat  í miðjum spillingar- og fjárglæfravefnum. Geir Haarde er einn arkitekta einkavinavæðingarinnar og í framlínu þeirra sem boðuðu nýfrjálshyggjuna. Mér þykir rosalega miður að Geir skuli ekki átta sig á því hver ábyrgð hans er. Fyrst hann áttar sig ekki á því að hann er vanhæfur til að stjórna landinu vegna þeirrar ábyrgðar sem hann ber á að við erum komin í þessa stöðu, þarf að koma honum frá við kosningar. Og það sem allra fyrst. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Vilhjálmur Árnason

Flottur pistill hjá þér. Takk fyrir.

Vilhjálmur Árnason, 4.1.2009 kl. 14:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband