Allt var þetta fyrirsjáanlegt

Það sorglegasta við þá skuldagildru sem nú hefur lokast á fjölda þeirra sem keyptu sér húsnæði eftir 2004 er að allt var þetta fyrirsjáanlegt. Það var ljóst að í gangi var fasteignabóla, og að vegna gríðarlegra nýbygginga og uppspennts verðs hlyti húsnæðisverð að falla fyrr eða síðar. Ábyrgir lánveitendur hefðu aldrei lánað 100% af kaupverði, án þess að væntanlegir skuldarar færu í gegnum greiðslumat sem mark væri á takandi. Vandamálið var að stjórnvöld (les Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur) notuðu aukin aðgang að lánsfé til atkvæðakaupa, og raunar var hækkun á lánshlutfalli og íbúðalánum eitt kosningaloforða Framsóknarflokksins. Bankarnir voru óábyrgir með því að veita 100% lán til fólks sem ekki réði við slíkar skuldbindingar þegar fram í sótti. Það var varað við hættunni af þessu, en óábyrg stjórnvöld og gróðafíklarnir í bönkunum skelltu skollaeyrum við. Afleiðingar þessa eru skelfilegar. Fjöldi fólks er í skuldagildru sem það sleppur ekki úr. Það getur tekið mörg ár áður en húsnæðismarkaðurinn réttir úr kútnum. Eftir samskonar fasteingabólu og bankahrun í Svíþjóð á fyrri hluta tíunda áratugs síðustu aldar féll húsnæðisverð um 30-40%, og það tók fasteignamarkaðinn 5-10 ár að jafna sig. Við skulum hafa í huga að kreppan er ekki náttúruhamfarir, heldur afleiðing af röð rangra og óábyrgra ákvarðanna. Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur bera hina pólitísku ábyrgð. Þeir hleyptu þessu af stað.
mbl.is Með húseignir í mínus
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Allt var þetta fyrirsjánlegt, segirðu. Sem þýðir væntanlega að þú hefur keypt fasteign eða tvær fyrir töluverðu síðan og selt þær á toppnum, og jafnvel keypt gjaldeyri fyrir töluverðu síðan og selt hann nýlega? Ef ekki, ekki reyna að telja neinum trú um að þér hafi þótt þetta fyrirsjáanlegt.

Mér finnst þú vera einn af þeim sem fellur í þessa dæmigerðu gildru og villandi hugsun sem nefnist "outcome bias". Sjá nánar á http://en.wikipedia.org/wiki/Outcome_bias Ég er ekki að ráðast á þig á nokkurn hátt! Allir falla í þetta. Ég líka, margoft. Langaði bara að benda á þetta.

Þú getur gert eitt til að fá mig til að biðjast velvirðingar á þessum skrifum mínum og taka þau til baka. Þú þarft að vitna í skrif eftir þig eða viðtöl við þig þegar "góðærið" stóð sem hæst eða var á uppleið, þar sem þú mótmælir ákvörðunum ríkisvaldsins skömmu eftir að þær voru teknar (áður en niðurstaða þeirra var komin í ljós).

Hér er það ekki gert. Hér eru ákvarðanir sem löngu hafa verið teknar gagnrýndar löngu, löngu, eftir að niðurstaða þeirra hefur komið í ljós, niðurstaða sem hlýtur að hafa verið háð mörgum þáttum sem líkur voru á að þróuðust á einn veg, og líkur voru á að þróuðust á einhvern annan veg. Það gengur lítið að koma eftir á og kenna manni og öðrum um hitt og þetta. Nema þá að maður hafi í alvöru verið á móti þeim allan tímann og lýst því í ræðu eða riti.

Jón Arason (IP-tala skráð) 24.2.2009 kl. 15:35

2 identicon

Sammála því að þetta var allt fyrirsjáanlegt, en of margir lugu að fólki, t.d. formaður Félags fasteignasala, sem hélt því stöðugt fram að íbúðaverð myndi ekki lækka. 

Stefán (IP-tala skráð) 24.2.2009 kl. 16:11

3 Smámynd: Ólafur Ingólfsson

Þakka góðar athugasemdir. Ég hef fullan skilning á athugasemd Jóns Arasonar, og get skýrt mál mitt aðeins betur. Ég flutti til Íslands eftir 22 ára búsetu í útlöndum árið 2003. Ég lenti í kreppunni í Svíþjóð 1992-94, og tapaði aleigunni og gott betur vegna hruns á fasteignamarkaði. Heim kominn til Íslands 2003-2004 sá ég sömu hættumerkin allsstaðar og voru í Svíþjóð í kringum 1990. Það voru margir til þess að vara við hugsanlegum afleiðingum af þeirri þennslu sem fór í gang á Íslandi þegar lánahlutfall Íbúðalánasjóðs var hækkað og bankarnir fóru út á íbúðalánamarkaðinn, meðal annars þáverandi stjórnarandstaða á þingi. Það var ekki hlustað á þessa aðila. Mér þótti mér það harla tilgangslaust að blanda mér í opinberu umræðuna, enda hafði ég fátt að færa fram sem aðrir höfðu ekki þegar gert, en ég hins vegar varaði fólk í mínu umhverfi við því að skuldsetja sig um of. 

Staðreyndin er sú að stjórnvöld hundsuðu viðvaranir um hættuástand sem gæti skapast vegna fasteignabólunnar, og settu bönkunum engar skorður í útlánum. Það má líka minna á að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks lagði niður Þjóðhagsstofnun, en hún hafði einmitt það hlutverk að vera óháð upplýsinga- og ráðgjafarstofnun fyrir alþingi, aðila vinnumarkaðarins osfr. Rökin fyrir því að leggja niður Þjóðhagsstofnun voru þau að hennar væri ekki þörf lengur, greiningardeildir bankanna gætu vel séð um upplýsingamiðlun og ráðgjöf. Við vitum núna hvað greiningardeildirnar fengust við: bjartsýnisspár til að hafa áhrif á hlutabréfamarkaðinn. Eftir að Þjóðhagsstofnun var lögð niður hafði engin stofnun samfélagsins heildaryfirsýn yfir stöðu efnahagsmála. Það er sorglegt, en ég held að það hefði mátt koma í veg fyrir þetta ástand ef stjórnvöld og eftirlitsstofnanir hefðu lært af reynslu svía frá því 10 árum áður. Ég veit að með því að taka þátt í umræðu um hvað hefði getað gerst getur maður farið yfir í flokkinn sem er vitur eftir á (sbr viðvaranir Jóns um "outcome bias"). Í þessu tilfelli er þó ekki um það að ræða. Ég var vitur fyrir fram, enda búinn að tapa aleigunni einu sinni. Ég óska engum þeirrar reynslu, og hef mikla samúð með því stórskulduga fólki sem í dag berst fyrir því að halda fasteignum sínum. 

Ólafur Ingólfsson, 24.2.2009 kl. 17:55

4 Smámynd: Jóhannes Einarsson

...og nú eigum við von á að á flettiskiltum fyrir kosningar standi í boði Framsóknar aftur og nýbúin; AFSKRIFUM SKULDIR UM 20 %. Hræðilegt er að þegar þetta fyrirbæri var að sýnast dautt, ef það gengur svo aftur með nýjan haus en gamla undir handlegg.  Vonandi er að kjósendur sjái nú i gegn um skrumið og kveði drauginn niður endanlega.

Jóhannes Einarsson, 24.2.2009 kl. 18:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband