Geir ætti að draga sig í hlé!

Geir Haarde hefur enn og aftur sýnt hversu ófær hann er um að veita forystu þegar þess er þörf. Nýjasta dæmi um vandræðagang hans er boðskapurinn um að það komi til greina að leggja það undir þjóðaratkvæði hvort fara eigi í viðræður við Evrópubandalagið um aðild. Ef þjóðin hafnar því að ræða við EB er málið dautt, að hans mati. Væri ekki nær að ræða við Evrópusambandið og bera síðan niðurstöður viðræðna undir þjóðaratkvæði. Þá væri fólk alla vega að kjósa um hvort það vildi breytingu á stöðu Íslands gagnvart Evrópubandalaginu eða ekki. Þá væri fólk vonandi að kjósa á grundvelli upplýstrar umræðu milli tveggja valkosta, hvort það teldi hagsmunum Íslands betur borgið utan eða innan Evrópubandalagsins.

Geir er sjálfsagt vænn maður, barngóður og með ljúfan húor og ágætis söngrödd. En hann er gjörsamlega vanhæfur um að veita forystu þegar á reynir. Hann hafði ekki hugmynd um hvað var að gerast meðan allt flaut mót feigðarósi í efnahagsmálum landsins, og virðist ekki hafa gert tilraun til að grenslast fyrir um það. Hrunið kom honum gjörsamlega á óvart, og nú getur hann ekki séð að það hafi verið gerð nein mistök í hagstjórninni, heldur séum við fórnarlömb gjörningaveðurs í alþjóðlegum fjármálaheimi. Hann getur ekki bent á neina leið útúr kreppunni aðra en að halda áfram á sama róli, með sömu gömlu og þreittu forystuna á sviði stjórnmála og efnahagsmála. Skuldsettasta þjóð í heimi á að taka enn meiri lán til að styðja við handónýtan gjaldmiðil, og síðan eigum við sjálfsagt öll að líta í eigin barm og finna hjá okkur sekt vegna þess hvernig málum er komið. Biskupinn og forseti lýðveldisins taka undir og boða siðbót sem leið út úr kreppunni.

Ég bjó í Svíþjóð í 19 ár, 1981-2000, og upplifði bankakreppuna þar á fyrri hluta tíunda áratugs síðustu aldar. Svíar voru svo lánsamir að forystumenn stjórnmálaflokkanna þar veittu forystu þegar þess var þörf. Stærsti stjórnmálaflokkur Svíþjóðar, sósíaldemokratarnir, höfðu verið algerlega andsnúnir aðild Svíþjóðar að Evrópubandalaginu, en þeir snéru við blaðinu. Ingvar Carlson, þáverandi leiðtogi þeirra, sagði að það væri ljóst að sænskt efnahagskerfi væri of lítið til að standast gjörningaveður alþjóðlegra fjármála og að Svíþjóð þyrfti að eiga bakhjarl í Evrópusambandinu. Göran Person, sem var fjármálaráðherra í ríkisstjórn Ingvars Carlsonar, skrifaði merka bók með titilinn "Skuldsetning er ánauð" (sænskur titill: Den som er satt i skuld är inte fri). Aðildin að Evrópubandalaginu varð síðan lykilatriði þess að koma Svíþjóð út úr kreppunni.

Geir Haarde tvístígur og vandræðast vegna þess að hann ber stóra ábyrgð á því hvernig komið er fyrir Íslendingum. Hann var í forystusveit Sjálfstæðisflokksins við einkavinavæðinguna og hefur sem fjármálaráðherra og síðan forsætisráðherra beint og óbeint komið að öllum stórum ákvörðunum sem gerðu fjárglæframönnunum kleyft að setja Ísland í þrot. Auðvitað ætlaði hann ekki að koma Íslandi i klemmu, viðmótsþýður og barngóður sem hann er. Hann var í brúnni á feigðarsiglingunni, en kunni hvorki á áttavita né radar. Skútan er á skeri og að sökkva, og þá vill hann að greiðum atkvæði um það hvort við reynum að ná landi. Hann myndi gera öllum greiða ef hann ákvæði að víkja úr brúnni og fengi 1. stýrimanni stjórnvölin.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband