Skammsýni ræður niðurskurði til skólanna

Nú magnast kreppa í samfélaginu og viðbrögð stjórnvalda eru að skera niður útgjöld sem mest og hraðast. Það er ljóst að það þarf að spara, en spurningin er hvar á að skera niður. Þegar svíar lenntu í svipuðum hremmingum á 10 áratug síðustu aldar var líka brugðist við með sparnaði og samdrætti hjá hinu opinbera. En það var ekki sparað á öllum sviðum. Framlög til menntamála jukust. Hugsun svía var sú að það væri betra að fólki væri gefinn kostur á að mennta sig en að það væri á atvinnuleysisbótum. Þá stæðu þeir betur að vígi þegar kreppunni létti. Til að þetta væri mögulegt voru framlög til menntamála aukinn. Á Íslandi taka stjórnvöld í orði sömu afstöðu, og skólar landsins voru í haust hvattir til að búa sig undir að taka við auknum fjölda nemenda. Á það var til dæmis bent að tiltölulega stór hluti fólks á vinnumarkaði hefði mjög litla menntun umfram grunnskóla, og hlutfall háskólamenntaðra á Íslandi væri lágt miðað við nágrannalönd okkar sem við viljum bera okkur saman við. En á sama tíma er boðaður stórfelldur viðurskurður framlaga til menntamála. Framlög til Háskóla Íslands eru skorin niður um tæplega milljarð! Hvernig á þetta dæmi að ganga upp? Háskóli Íslands býr þegar við mjög þröngan kost, og framlög hins opinbera, ef reiknað er út frá kostnaði við hvern innritaðan nemenda, eru með því lægsta sem gerist í Evrópu. Það þyrfti að stórefla HÍ til að bregðast við kreppunni, ekki að skera niður! Skammsýn stjórnvöld hafa lengi verið bölvun Íslands. Í stað þess að setja fjármagn í menntun hefur á undanförnum árum verið fjárfest í virkjunum fyrir stóriðju - enda gengur byggðastefnan útá að búa til láglaunastörf í álverum. Það er fyrir löngu kominn tími til að snúa þessari þróun við og setja kraft í að fjárfesta í menntun landsmanna. Fyrsti rektor HÍ, Björn Olsen, sagði einhvern tíma að við gætum ekki keppt við stórþjóðirnar á mörgum sviðum, en við gætum náð því að koma Íslandi í fremstu röð hvað varðar menntun landsmanna. Væri ekki verðugt að stefna að því?

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband