Lúpínuvitleysan

Ég var að koma úr ferðalagi um suður- og austurströndina. Eitt af því sem stingur í augu og veldur náttúrufræðingnum í mér gremju er yfirgengileg aukning á útbreiðslu lúpínu, nánast svo að tala má um lúpinusprengingu í landinu. Nokkur dæmi: Sandarnir á Suðurlandi, Skógasandur og Mýrdalssandur, eru ekki lengur sandar nema að hluta. Þetta eru gríðarlega víðfemar lúpínubreiður, þar sem lúpínan dreifist hratt út. Ég fór í Bæjarstaðaskóg í Morsárdal, sem er innan Vatnajökulsþjóðgarðsins. Þar var lúpínu sáð fyrir mörgum árum til að loka rofsárum í jarðvegi ofan við skóginn. Nú er lúpínan búin að leggja undir sig sandana framan við og neðan við skóginn. Þar sem áður var mólendi með grösum og blómplöntum ýmiskonar eru nú víðfemar lúpínubreiður. Maður sá víði og hvönn umlukta lúpínu, og öll rjóður í skóginum voru undirlögð henni. Jökulgarðar framan við Svínafellsjökul eru bláir af lúpínu. Þá er lúpína víða upp um allar hlíðar í Skaftafellssýslum, og á Héraði hefur lúpínu verið sáð með vegum, meira að segja í Hallormsstaðaskógi.

Lúpínan er ekki íslensk tegund, heldur flutt inn frá Alaska. Landgræðslan hefur notað lúpínuna til að binda jarðbeg og hindra sandfok. Þetta hefur þó farið úr böndum. Lúpínan sér nú sjálf um að dreifa sér, og er að taka yfir gróðurlendi þar sem henni var aldrei ætlaður staður. Hún er að breyta ásýnd landsins, og útbreiðsla hennar virðist vera á kostnað mólendis- og melagróðurs. Lúpínan er ágeng, og fáar íslenskar plöntutegundir virðast geta keppt við hana þar sem hún fær fótfestu. Ísland er land jökla, sanda, mela og auðna. Íslenskar auðnir búa yfir sérstakri fegurð. Íslenskur mela- og mólendisgróður er fjölbreyttur og veitir fjölda skordýra- og fuglategunda skjól. Lúpínubreiðurnar eru fábreyttar og einsleitar, framandi í náttúru Íslands. Með útbreiðslu lúpínu í þjóðgörðum landsins er verið að breyta náttúrufari á hátt sem vinnur gegn friðunarmarkmiðum þjóðgarða. Það verður að gera átak til að útrýma lúpínunni úr Vatnajökulsþjóðgarðinum, og það þyrfti að ræða hvort ekki ætti að banna notkun lúpínu við landgræðslu. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Sæll

Ég skil að mörgu leyti þessar áhyggjur, en er það ekki einmitt þessi "ágengni" lúpínunnar sem við þurfum til að græða upp auðnir og sanda? Hvort er verra - einsleitar lúpínubreiður eða einsleitir fjúkandi sandar? Eru til betri kostir í landgræðslu?  Það væri fróðlegt að sjá einhvers staðar góða fræðilega umfjöllun um þetta þar sem kostir og gallar og aðrir möguleikar væru skoðaðir djúpt.  Þakkir fyrir skrifin.   

Svanur Sigurbjörnsson, 25.6.2009 kl. 16:06

2 Smámynd: Gísli Ingvarsson

So what maðurinn er heldur betur ekki íslensk dýrategund en búin að setja mark sitt á allt. Músin er innflutt og útum allt. Kettir hundar. Lúpínan er gjöf til landsins. Það tekur tíma áður en hún víkur fyrir einhverju öðru. Birkiskiskógi til dæmis. Hæýnunin undanfarin ár hefur verið lúpínunni hagstæð. Það mun koma fram að fleiri plöntur munu geta greætt á hlýskeiði..sem mun ekki vara óendanlega lengi. Sem jarðfræðingur veistu það. Ef menn vilja halda niðri lúpínu eiga menn að fá sér geitur og beita á snemma vors. En allt eiturtal er eitur í mínum beinum og vil ég þúsundsinnum fekar dást að lúpínunni en að fara þá leið. Vonandi ertu mér sammála um það.

Gísli Ingvarsson, 25.6.2009 kl. 16:10

3 Smámynd: Ólafur Ingólfsson

Ég skil það vel að fólki finnist í sumum tilfellum betra að hafa lúpínu en fjúkandi sanda, en sandar eru þrátt fyrir allt hluti af náttúru Íslands, uppá gott og vont. Það eru til önnur ráð til að hemja sandana, svo sem melgresi (íslensk planta) og áburðargjöf sem styður við grös og aðrar blómplöntur. Menn segja að lúpínan víki fyrir öðrum gróðri - en hefur það gerst? Mér sýnist lúpínan vaða yfir gróið land, svo sem sandana neðan við Bæjarstaðaskóg. Þeir voru vel grónir melagróðri, mosa og fléttum, en nú er þar bara lúpína. Birkið er í samkeppni við lúpínuna þar, og mér sýnist lúpínan vera ágengari og hafa vinninginn. Mér er spurn hver sé þörfin að græða upp jökulruðning framan við hörfandi jökla á Suðurlandi? Berangurslegur jökulruðningur er þrátt fyrir allt hluti af náttúru Íslands, og lúpínan er síst til fegurðarauka eða nokkurs gagns á jökulgörðum Svínafellsjökuls. Mér virðist lúpínan vera komin algerlega úr böndum, og hún dreifi sér nú með miklum hraða á kostnað annarra plantna. Ágengar tegundir eru aldrei jákvæðar, þær leiða til fátækari og einhæfari vistkerfa. Þegar fram í sækir gæti lúpinan valdið óbætanlegum skaða í íslenskum vistkerfum. Þá er það dýru verði greitt að hemja sandfok á takmörkuðum svæðum.

Ólafur Ingólfsson, 25.6.2009 kl. 16:49

4 identicon

Ólafur. Hefur þú þurft að ferðast yfir ógróin sand í roki. Þú ættir að prófa það.

Gissur Jóhannesson (IP-tala skráð) 25.6.2009 kl. 18:51

5 Smámynd: Ólafur Ingólfsson

Sæll Gissur. Ég hef unnið framan við jökla í 30 ár og þekki jökulsanda mjög vel. Ég hef lent í mörgu sandrokinu. Málið snýst ekki um það hvort okkur líki vel eða ílla við sandrok. Málið snýst um hvort við ætlum að horfa uppá framandi tegund gjörbreyta náttúrulegu gróðurlendi Íslands. Það þarf ekki lúpínu til að stöðva sandrok. Til þess má beita melgresi og áburðargjöf. Það gerði Sandgræðslan (fyrirrennari Landgræðslunnar) á Rangárvöllum með góðum árangri, löngu áður en lúpínan kom til sögunnar. Minkandi beitarálag stuðlar auk þess að því að landið er að gróa upp, án þess að til þurfi að koma neinar viðbótaraðgerðir.

Ólafur Ingólfsson, 26.6.2009 kl. 09:50

6 identicon

Æi, "náttúrulega gróðurlendi" segirðu.  Já vissulega ef þú telur landnámsmenn sem rústuðu gróðurlendi landsins  með fjárbeit og ofnotkun á skóglendi(líka jarðvegi sem myndaðist á þúsundum árum en þeim tókst að eyða á áratugum).  Ég vil endurheimta náttúruna sem þeir eyðilögðu, Ísland á ekki að vera gróðursnautt örfoka land, við eigum ávallt að berjast meira til þess að gróður aukist meira. Gróður má vaxa þar sem hann getur vaxið.   Ég býð lúpínuna velkomna og hafna plönturasisma og xenófóbíu.  Auðvitað má halda henni e-ð í skefjum samt

Ari (IP-tala skráð) 26.6.2009 kl. 18:28

7 identicon

Mér finnst lúpínan falleg planta og ég hugsa að hún sé búin að afla sér álíka mikils þegnréttar á Íslandi eins og Homo sapiens. Þetta má bæði meta í fjölda kynslóða frá komu hennar til landsins og eins í því, hve vel hún stendur sig í baráttunni við óblíð náttúruöfl. Mýmörg dæmi eru um að hún hörfi undan öðrum gróðri. Því miður eru það oftar en ekki heilgrös, sem taka sæti hennnar (nóg er af þeim fyrir), en stundum, sem betur fer, blómplöntur. M.a. hef ég séð fjalldalafífil taka sæti lúpínunnar, en líka krækilyng í grunnum hraunbolla, uppi á hraundrangi. Í sveltandi heimi er lúpínan á Íslandi guðsgjöf til stækkandi mannkyns. Hún mun gera það að verkum, að landið getur brauðfætt fleiri munna í framtíðinni. Skv. Steindóri Steindórssyni er um þriðjungur flóru Íslands hingað kominn eftir landnám, margt af viðbótinni meðvitað með mönnum. Þessi þriðjungur innifelur t.d. baunagrasið, sem "náttúrverndarmenn" vilja vernda fyrir lúpínunni í Skaftafelli. Einnig snarrótina og jafnvel þitt ástsæla melgresi. Sem jarðfræðingur veist þú, að hér uxu fyrrum tegundir eins og skógarfura, elri og m.a.s. Segoia tegundir (skyldar rauðviðunum í Kaliforníu, kannski sömu tegundir). Sem jarðfræðingur veist þú líka, að á næsta kuldaskeiði ísaldar (sem enn er við lýði) mun mestallur gróður á Íslandi hverfa og tegunda(fá)breytileikinn færast aftur í sem næst fyrra horf. Svo vonandi horfir þetta allt til bóta að þínu áliti, til lengri tíma litið. Við, sem höfum áhyggjur af fábreytileika náttúrunnar á Íslandi getum þá huggað okkur við, að verði eitthvað eftir af regnskógunum í Amazonas, getur þar að líta á hverjum ha meiri lífbreytileika en á öllu Íslandi. Ef menn vilja finna flóru auðuga af tegundum, verða þeir enn um sinn að leita langt út fyrir Ísland, hvort sem við teljum með þær tegundir, sem hingað hafa borist með mönnum eður ei. En frá jarðfræðilegu sjónarmiði er Ísland eitt unaðslegt sjónarspil og óþarft að láta blessaða lúpínuna trufla sig við upplifun þess, þótt hún klæði af landinu verstu bágindin frá sjónarmiði flóru og fánu (því henni fylgir urmull dýra, bæði fleygra og ófleygra).

S.Á. (IP-tala skráð) 29.6.2009 kl. 14:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband